Ísraelar og palestínskir hryðjuverkahópar á Gazasvæðinu sömdu um vopnahlé snemma á miðvikudagsmorgun, en átökin hófust eftir að einn leiðtogi hryðjuverkasamtakanna Islamic Jihad dó í hungurverkfalli.
Að morgni 2. maí fannst Khader Adnad (44 ára) meðvitundarlaus í klefa sínum. Reynt var að endurlífga hann en hann var úrskurðaður látinn skömmu síðar. Hann hafði hafnað bæði læknisskoðun og læknisaðstoð í hungurverkfallinu, að sögn fangelsismálastofnunar.
Stuttu eftir dauða hans var fjórum eldflaugum skotið frá Gazasvæðinu á Ísrael. Enginn særðist í þeirri árás. Ísraelski varnarherinn svaraði með skothríð á varðturn Hamassamtakanna.

Seinna um daginn var 22 eldflaugum til viðbótar skotið frá Gazasvæðinu. Nokkrar eldflauganna sprungu í þéttbýli. Þrír slösuðust, þar af einn alvarlega, þegar eldflaug sprakk á byggingarsvæði. Alls var 104 eldflaugum og handsprengjum skotið á Ísrael frá Gazasvæðinu á einum sólarhring.
Fyrir utan skothríðina snemma á þriðjudaginn, tókst ísraelska varnarhernum ekki að bregðast strax við eldflaugunum. Það var fyrst á aðfaranótt miðvikudags sem ísraelskar orrustuþotur gerðu loftárásir á vígi Hamassamtakanna til að bregðast við árásunum.
Meðal skotmarkanna var ein af þjálfunarbúðum Hamas, bækistöð fyrir vopnaframleiðslu og jarðgöng sem hryðjuverkasamtökin notuðu, að sögn IDF.
Nokkrum klukkustundum síðar bárust þær fregnir að vopnahlé hafi verið samþykkt.
Hér má sjá eldflaug springa í íbúðahverfi nálægt borginni Ashkelon:
תיעוד ממצלמת אבטחה של פגיעת הרקטה באחד מיישובי מועצת חוף אשקלון >>> https://t.co/YEu4h1Ke01@Itsik_zuarets pic.twitter.com/nhWzrGUqmW
— כאן חדשות (@kann_news) May 3, 2023