Search
Mynd: Skjáskot frá PragerU

Af hverju er ekki til palestínskt ríki?

Höfundur: David Brog, framkvæmdastjóri Maccabee-samtakanna í Bandaríkjunum.

Ef Ísrael leyfði Palestínumönnum að hafa sitt eigið ríki væri friður í Miðausturlöndum. Ekki satt? Þetta er orðræðan sem við heyrum frá fulltrúum Bandaríkjanna, evrópskum stjórnmálamönnum og flestum háskólakennurum.

En hvað ef ég segði þér að Ísrael hafi nú þegar boðið Palestínumönnum sitt eigið ríki? Og ekki bara einu sinni, heldur 5 sinnum. Trúir þú mér ekki? Kíkjum á málið.

Undir lok fyrri heimstyrjaldarinnar, þegar Ottóman-veldið liðaðist í sundur, náðu Bretar yfirráðum yfir landsvæðunum fyrir botni Miðjarðarhafs, þar með talið svæðinu þar sem Ísrael er í dag. 18 árum síðar, árið 1936, gerðu arabar uppreisn gegn Bretum og Gyðingum á svæðinu.

Bretar stofnuðu nefnd, „The Peel Commission“, sem fékk það hlutverk að kanna orsök uppreisnarinnar. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ástæðan fyrir ofbeldinu var að bæði Gyðingar og Arabar, vildu stjórna sama landinu.

Peel-nefndin komst að þeirri niðurstöðu að stofna bæri tvö sjálfstæð ríki; eitt fyrir Gyðinga og annað fyrir Araba. Sem sagt, tveggja ríkja lausn. Lausnin var Aröbum mjög í hag. Bretar buðu þeim 80% af hinu umdeilda landsvæði og að Gyðingar fengju 20%. Þrátt fyrir smáa stærð síns ríkis, þá kusu Gyðingar samt að taka þessu tilboði. En Arabar höfnuðu tillögunni og tóku aftur upp ofbeldi og uppreisnartilburði … Höfnun #1

Tíu árum síðar, árið 1947, báðu Bretar Sameinuðu þjóðirnar um að finna nýja lausn á deilunni. Líkt og Peel-nefndin hafði lagt til, þá ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að besta leiðin til að leysa átökin væri að skipta landinu. Í nóvember 1947 kusu SÞ að stofna tvö ríki. Aftur samþykktu Gyðingar tillöguna og aftur höfnuðu Arabar henni. Og í þetta sinn með því að hefja allsherjar stríð … Höfnun #2.

Jórdanía, Egyptaland, Írak, Líbanon og Sýrland tóku þátt í átökunum. En þeim mistókst. Ísrael vann stríðið og hélt áfram að byggja upp landið sitt. Stærstur hluti svæðisins sem hafði verið ætlaður hinu nýja arabaríki; þ.e. Vestubakkinn og austurhluti Jerúsalem, varð að herteknu svæði. En ekki af Ísrael, heldur af Jórdaníu. Tuttugu árum síðar, árið 1967, reyndu Arabar undir forystu Egyptalands og með liðsauka frá Sýrlandi og Jórdaníu, enn einu sinni að tortíma ríki Gyðinga. Átökin 1967, þekkt sem sex daga stríðið, enduðu með glæstum sigri Ísraels. Jerúsalem, Vesturbakkinn og Gaza voru þar með komin undir yfirráð Ísraelsmanna.

Ríkisstjórn Ísraels klofnaði í afstöðu sinni um hvað ætti að gera við hin ný-herteknu landsvæði. Helmingur stjórnarinnar vildi skila Vesturbakkanum til Jórdaníu og Gaza til Egyptalands, í skiptum fyrir frið. Hinn helmingurinn vildi afhenda það Aröbum sem voru byrjaðir að kalla sig Palestínumenn í von um að þeir myndu að lokum byggja þar sitt eigið ríki. Hvorug tillagan náði fram. Nokkrum mánuðum síðar hittist Arababandalagið (The Arab League) í Súdan og sem gaf að lokum frá sér yfirlýsingu sem inniheldur „Neitanirnar þrjár“; enginn friður við Ísrael, engin viðurkenning á Ísrael og engar viðræður við Ísrael. Enn og aftur var tveggja ríkja lausn vísað frá af Aröbum, sem gerir þetta að … Höfnun #3.

Barak, Clinton og Arafat í Camp David árið 2000

Árið 2000 funduðu þeir Ehud Barak, forsætisráðherra Ísraels og Yasser Arafat, formaður Frelsissamtaka Palestínumanna, í Camp David í Bandaríkjunum, til að semja nýja tveggja ríkja áætlun. Barak bauð Arafat palestínskt ríki á öllu Gaza svæðinu, 94% af Vesturbakkanum og  Austur-Jerúsalem sem höfuðborg. Leiðtogi Palestínumanna hafnaði tilboðinu. Síðar sagði Bill Clinton Bandaríkjaforseti: „Arafat var hér í 14 daga og sagði „Nei“ við öllu“. Palestínumenn hófu í kjölfarið blóðuga bylgju sjálfsvígsárása sem drápu yfir 1000 Ísraelsmenn og limlesti þúsundir til viðbótar, í strætisvögnum, í brúðkaupsveislum og á pizzastöðum … Höfnun #4.

Árið 2008 gerði Ísrael enn eina tilraun. Ehud Olmert forsætisráðherra gekk lengra en Ehud Barak hafði gert, víkkaði út friðartilboðið og bauð enn stærra svæði en áður. En líkt og forveri hans, þá hafnaði hinn nýi leiðtogi Palestínumanna, Mahmoud Abbas, samningnum með öllu … Höfnun #5

Milli tveggja síðustu tilboða Ísraels, árin 2000 og 2008, ákvað Ísrael einhliða að yfirgefa Gaza og gaf Palestínumönnum þannig vald yfir svæðinu. En í stað þess að hefja uppbyggingu á Gaza í þágu borgaranna, breyttu Palestínumenn Gaza í hryðjuverkamiðstöð, þaðan sem þeir hafa skotið þúsundum eldflauga á Ísrael.

Í hvert skipti sem Ísrael hefur samþykkt palestínskt ríki, þá hafa Palestínumenn hafnað tilboðinu. Oft með ofbeldi. Svo ef þú hefur áhuga á friði í Miðausturlöndum, þá er svarið kannski ekki að þrýsta á Ísrael að samþykkja enn einu sinni stofnun Palestínsks ríkis. Svarið er frekar að þrýsta á Palestínumenn að samþykkja tilvist Gyðingaríkis.

Greinarhöfundur: David Brog, framkvæmdastjóri Maccabee Task Force, fyrir PragerU

Þýðing fyrir miff.is: Hafsteinn G. Einarsson, í ritstjórnarhópi Miff

Upphaflega greinin er hér á vefsíðu PragerU: https://www.prageru.com/video/why-isnt-there-a-palestinian-state/

Maccabee-samtökin voru stofnuð árið 2015 til að berjast gegn útbreiðslu gyðingahaturs í háskólum í Bandaríkjunum. Samtökin beina sjónum sínum að BDS-hreyfingunni (Boycott, Divestment, Sanctions) og telja hana stuðla að gyðingahatri. Þau leitast við að leiðrétta rangræslur og villandi fréttaflutning af málefnum Ísraels og beina sjónum að sannleikanum. David Brog er framkvæmdastjóri samtakanna. https://www.maccabeetaskforce.org/

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print