Samtökin Amnesty International birti nýlega skýrslu sem ásakar Ísrael um að viðhafa aðskilnaðarstefnu, en þessi ásökun hefur margoft verið hrakin.
Skýrslan hefur ekki aðeins verið fordæmd af Ísrael og fjölmörgum samtökum Gyðinga, heldur einnig af Bandaríkjunum og Þýskalandi, auk annarra ríkja. Minnihlutahópur arabískra Ísraela hefur einnig brugðist við ásökuninni.
Hinn ísraelsk-arabíski Yoseph Haddad hefur harðlega fordæmt fullyrðingu Amnesty um að hann búi við ríkisrekna aðskilnaðarstefnu.
“Sem ísraelskur Arabi sem ólst upp í Nasaret, reynir Amnesty í nýlegri skýrslu sinni að afbaka þjóðernisvitund mína,” skrifar Haddad í grein sem birtist í Jerusalem Post.
Hann bendir á að Palestínumenn eru ýmist undir stjórn Palestínsku heimastjórnarinnar á Vesturbakkanum eða undir stjórn hryðjuverkasamtakanna Hamas á Gazasvæðinu.
“Hvað með ísraelska Araba eins og mig? Við erum þegnar lýðræðislega kjörinna stjórnvalda í Ísrael með sömu réttindi og hvaða Gyðingur sem býr í landinu. Sama hversu oft Amnesty reynir að þurrka út sjálfsmynd mína í nafni pólitískrar afstöðu sinnar, mun það ekki vera rétt,” skrifar hann.
Haddad, sem var hermaður í ísraelska varnarhernum, skilgreinir sjálfan sig sem Ísraela og segir að hann muni alltaf vera Ísraeli.
“Ég hef sömu réttindi og allir aðrir Ísraelskir ríkisborgarar. Ég var hermaður í ísraelska varnarhernum og varði norðurhluta Ísraels, þar sem flestir úr ísraelsk-arabíska samfélaginu búa, fyrir eldflaugaárásum Hezbollah,” skrifar hann og bætti við:
“Ekki aðeins það, heldur var ég einnig yfirmaður margra tuga Gyðinga í hernum. Hvers konar “aðskilnaðarstefna” leyfir Aröbum að skipa Gyðingum fyrir?”
Nýleg skýrsla frá frjálsu félagasamtökunum Israel Democracy Institute sýnir að mikill meirihluti ísraelskra Araba skilgreina sjálfa sig ekki sem Palestínumenn, heldur sem Araba eða ísraelska Araba. Aðeins 7% aðspurðra skilgreindu sjálfa sig sem Palestínumenn. Önnur könnun sýndi að 81% ísraelskra Araba myndi kjósa að búa í Ísrael frekar en í Bandaríkjunum eða öðru vestrænu ríki.
“Mér sýnist lífið ekki vera svo slæmt undir ‘kúgun Ísraelsmanna’, ólíkt því sem lygar Amnesty dreifa um líf okkar í eina lýðræðisríki Mið-Austurlanda,” skrifar Haddad.
Hinn arabísk-ísraelski Haddad er þeirrar skoðunar að skýrsla Amnesty innihaldi fjölda ósanninda og sé sniðin að markmiði stofnunarinnar um að djöfulgera Ísrael. Hann bendir til dæmis á að skýrsla Amnesty tali ítrekað um aðskilnað Araba og Gyðinga.
“Rannsakendur skýrslunnar ættu að heimsækja ísraelskan spítala, þar sem arabískar múslimakonur fá bestu mögulegu meðferð frá lækni sem er Gyðingur, eða þar sem barn úr strangtrúaðri Gyðingafjölskyldu fær meðferð frá arabískum lækni.”
Hann bætir við að meirihluti ísraelsk-arabíska minnihlutans vill búa í friði við nágranna sína, Gyðingana.
“Margir vilja vera – og margir eru – órjúfanlegur hluti ísraelsks samfélags. Í stað þess að boða samvinnu og bjartari framtíðarsýn eru samtök eins og Amnesty að grafa undan eina lýðræðisríkinu í Mið-Austurlöndum og reyna að útmála það sem “aðskilnaðarstefnuríki”.”
Haddad bendir á að Ísrael, líkt og öll önnur ríki, þarf að takast á við áskoranir. Það eru kynþáttafordómar í Ísrael líkt og annars staðar.
“Að því leyti er Ísrael ekkert öðruvísi en önnur vestræn lýðræðisríki, líkt og Bandaríkin, Frakkland og Bretland, sem reyna öll dag hvern að bæta úr kynþáttabundinni, efnahagslegri og menntunartengdri mismunun.”
Haddad er þeirrar skoðunar að Amnesty misnotar sér fórnarlömb aðskilnaðarstefnu Suður-Afríku til að djöfulgera Ísrael.
“Ég hef sjálfur ferðast til Suður-Afríku og séð með eigin augum hversu hryllilegur og mannskemmandi glæpur aðskilnaðarstefnan er. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég get ekki setið þegjandi hljóði og leyft stofnunum eins og Amnesty að útbreiða þessi ósannindi fyrir pólitískan hagnað. Ásökunin um aðskilnaðarstefnu er alvarleg og ætti aldrei að nota sem pólitískt verkfæri til þess að djöfulgera ríki sem þér líkar illa við,” skrifar hann og lýkur máli sínu:
“Amnesty, hættu að vanvirða sögu og fórnarlömb raunverulegu aðskilnaðarstjórnarinnar í Suður-Afríku. Vinnið þess í stað með Aröbum og Gyðingum að því að leysa ágreininginn á friðsaman hátt, í stað þess að taka upp hugmyndafræði og ósannindi öfgamanna sem telja að Ísrael – eina þjóðríki Gyðinga í heiminum – eigi sér ekki tilvistarrétt.”
Þessi grein birtist upphaflega á norsku þann 4. febrúar 2022.