Search
Mótmæli gegn Ísrael. Mynd: Mehr News Agency

Áskorun til formanns FÍP

Í nýlegum orðaskiptum á Facebook var formaður Félagsins Íslands-Palestínu spurður út í morð Hamasliða á þrítugri þýskri konu. Hann svaraði heldur kaldlyndislega: „Ef þú hefur staðið í þeirri trú að stríð sé róleg skógarferð þá er eitthvað að hjá þér.“ Þessi orð fela í sér skírskotun í orð Maó formanns, sem skrifaði: „Byltingin er ekki teboð.“ Með þessu slagorði afskrifar formaðurinn nokkra meðaumkun með fórnarlömbum Hamassamtakanna í Ísrael. Þetta er slæm afstaða. Hið rétta í stöðunni hlýtur að vera að fordæma fall almennra borgara sem eru dregnir óviljugir inn í stríð, hvoru megin við girðinguna sem þeir sitja.

En hvað með byltinguna sem formaðurinn vísar í? Hvers konar „byltingarsinnum“ hefur formaður FÍP tekið afstöðu með í þetta skiptið? Samstöðufundir andstæðinga Ísraels undanfarna daga geta gefið ákveðna vísbendingu. Á nýlegum fundi fyrir utan Óperuhúsið í Sydney kyrjaði fólkið: „Setjum Gyðingana í gasklefana!“ Við önnur tækifæri hafa þeir kyrjað Al Yahud klabna! sem þýðir: „Gyðingarnir eru hundarnir okkar!“ Víða um Evrópu hafa skemmdarverk verið unnin á fyrirtækjum í eigu Gyðinga og samkunduhúsum þeirra. Það má með sanni segja að Vesturlandabúar séu að endurupplifa 80 ára gamla martröð, því Gyðingahatur hefur ekki verið jafn sýnilegt síðan í Þýskalandi nasismans.

Formaðurinn hefur verið iðinn við að draga upp samanburð milli Ísraels og nasista. En það er vart hægt að finna skýrari hliðstæðu við nasista og Hamassamtökin. Undir nasistum Hitlers voru börn heilaþvegin sem hluti af „Hitlersæskunni“. Undir Hamas á Gaza eru börn heilaþvegin á sama hátt, meðal annars til að hata Gyðinga og lofsama píslarvættisdauða. Kerfisbundinn heilaþvottur á börnum er eitthvað það fyrirlitlegasta sem hægt er að ímynda sér. Hamassamtökin gætu ekki lagst lægra en að nota börn sem vopn gegn Ísraelsríki á þennan hátt.

Það er því hvatning okkar til formanns FÍP að hann endurskoði afstöðu sína, í það minnsta einarðan stuðning sinn við Hamassamtökin. Það hljóta að vera til aðrar og uppbyggilegri leiðir til að styðja málstað Palestínumanna.

Ritstjórn MIFF á Íslandi.

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print