Search
Ísraelskir drengir virða fyrir sér sprengjugíg eftir flugskeyti frá Gazasvæðinu. Mynd: IDF Flickr (Creative Commons)

Breyttar forsendur lykillinn að friði

Það er ólíklegt að yfirstandandi átök fyrir botni Miðjarðarhafs hafi farið fram hjá nokkurri manneskju á Íslandi. Fjölmiðlar hafa kostað kapps við að flytja nýjustu fréttir af mannfalli og eyðileggingu. Til að byrja með viljum við taka fram að allt mannfall er óásættanlegt og þá sérstaklega að börn hafa verið á meðal þeirra sem hafa fallið í þessu stríði. Það er ekki hægt að réttlæta og hér verður engin tilraun gerð til þess.

Eldflaugum hefur verið skotið á báða bóga undanfarna daga, þar á meðal yfir eitt þúsund flugskeytum frá Hamassamtökunum á Gazasvæðinu síðan á mánudagskvöldið. Þrátt fyrir að stríðið snúist að nafninu til um Jerúsalem hafa Hamassamtökin skotið flestum sínum flugskeytum að þéttustu byggð Gyðinga í Ísrael sem er töluverðan spöl frá Jerúsalem. Þrátt fyrir skilvirkni ísraelska varnarkerfisins hafa því miður sex manns látið lífið í Ísrael, þar á meðal sex ára drengur.

Framvindan hingað til

Upphafið að óeirðunum má rekja til þess að Damskushliði Jerúsalemborgar var lokað þann 12. apríl síðastliðinn vegna ótta borgaryfirvalda um að árleg hópmyndun Palestínumanna þar myndi verða að óeirðum. Í kjölfarið áttu sér stað fjölmörg atvik þar sem Palestínumenn slógu rétttrúaða Gyðinga á götum úti. Myndskeið voru tekin af atvikunum og birt á samskiptamiðlum. Þetta leiddi til mótmælaöldu frá rétttrúuðum Gyðingum og ókyrrðarástandið varði út aprílmánuð.

Þann 7. maí höfðu Palestínumenn byrgt sig upp af grjóthnullungum og heimagerðum vopnum í Al-Aqsa moskunni á musterishæðinni. Eftir kvöldbænirnar yfirgáfu þeir moskuna og tóku að grýta lögreglumenn í Jerúsalem. Viðbrögðin stóðu ekki á sér og var moskan rýmd í kjölfarið. Skömmu síðar hófu Hamassamtökin á Gaza flugskeytaárásir sínar með tilheyrandi mannfalli og eyðileggingu. Ísraelsher hefur svarað með því að varpa sprengjum á bækistöðvar Hamassamtakanna og byggingar sem notaðar eru til að geyma hergögn.

Þessi framvinda er í senn illskiljanleg og sorgleg og dregur skýrt fram hversu lítið þarf til að allt fari í bál og brand í þessum heimshluta. En því miður voru átökin fyrirsjáanleg í hinu stærra samhengi. Aðstæðurnar eru þess eðlis að slík átök munu reglulega blossa upp líkt og ein árstíð tekur við af annarri. En í þetta skipti réðu tveir óvæntir þættir hversu hratt átökin ágerðust.

Samhliða vaxandi átökum í kring um Al-Aqsa moskuna blossuðu upp átök um hverfið Sheikh Jarrah í Austur-Jerúsalem. Þetta er mál sem hefur verið í gangi síðan Ísraelsmenn frelsuðu Austur-Jerúsalem úr höndum Jórdana árið 1967 og hefur því átt sér langan aðdraganda. Málið er eldfimt því grafreitur mikilvægs rabbína er í hverfinu og er því einn af mörgum helgistöðum Gyðinga á svæðinu. Auk þess féll nýverið dómur í máli sjö fjölskyldna sem höfðu ekki greitt leigukostnað í langan tíma og stóð til að þeim yrði vísað úr leiguhúsnæðinu um það leyti sem óeirðirnar hófust.

Engu að síður eru átökin um Sheikh Jarrah ekki nema lítil ástæða fyrir núverandi stríðsástandi. Mun stærri ástæða hefur verið hundsuð af flestum fjölmiðlum. Það vill svo til að kosningar voru fyrirhugaðar á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum þann 29. apríl síðastliðinn. Mahmoud Abbas, forseti Palestínsku heimastjórnarinnar (PA), hefur notfært sér yfirstandandi átök, þar á meðal átökin um Sheikh Jarrah, til að forðast það að efna loforð sitt um kosningar.

Abbas hefur verið forseti síðan í byrjun árs 2005 og var einungis kosinn til fjögurra ára. Hann hefur hins vegar neitað Palestínumönnum um kosningar í rúm 16 ár. Í dag er Abbas orðinn lítið annað en þaulsetinn einræðisherra líkt og Pútín og Erdogan. Hann hefur notað ýmsar átyllur fyrir áframhaldandi forsetatíð sinni, meðal annars yfirtöku Hamas á Gazasvæðinu.

Óeirðirnar í Jerúsalem fólu í sér kjörið tækifæri fyrir Abbas og kenndi hann yfirvöldum í Ísrael um frestun kosninganna. Auk þess notaði hann stöðu sína og flokks síns til að blása eldi í glæður mótmælanna í fjölmiðlum. Samkvæmt skoðanakönnunum myndi flokkur hans tapa í kosningunum og þar liggur raunveruleg ástæða tregðu hans til að ráðast í kosningar.

Viðbrögð samfélagsmiðla og afmennskun Ísraelsmanna

Líflegar umræður hafa átt sér stað um stríðið í Ísrael á samfélagsmiðlum undanfarna sólarhringa. Stærstur hluti þeirra sem þar tjáir sig lýsir yfir algjörri vanþóknun og jafnvel hatri gagnvart Ísraelsmönnum. Í Facebook-hópi tengdum íslenskum fjölmiðlum var vakið máls á því „hneyksli“ að vefsíða ríkisútvarpsins skuli hafa vogað sér að minnast á öll þau flugskeyti sem Hamassamtökin hafa skotið á Ísrael. Í loftinu liggur krafa ákveðinna aðila um algjörlega einhliða fjölmiðlaumfjöllun. Þegar málið er sett fram á þennan hátt virðist fólk álíta að Ísraelsmenn séu ekki mannlegir, heldur eru þeir gerðir að einhvers konar ópersónulegu illskuafli.

Afmennskun Ísraelsmanna birtist á ýmsan hátt í fjölmiðlum. Ef eitthvað bregður út af í óreiðunni sem myndast reglulega vegna uppreisnar gegn yfirráðum Ísraels á svæðinu er yfirleitt gert ráð fyrir einbeittum brotavilja frekar en mannlegum breyskleika ísraelskra hermanna og stjórnmálamanna. Auk þess eru mistök eða glæpir einstaklinga – hvort sem hermenn eiga í hlut eða almennir borgarar – lagðir sjálfkrafa að jöfnu við opinbera stefnu Ísraelsríkis.

Hlutfall frétta frá Ísrael

Þrátt fyrir það háa hlutfall frétta frá Ísrael sem berst í íslenska fjölmiðla er almenningi í Ísrael nánast aldrei veittur hljómgrunnur. Ísrael er sýnt sem ríki hermanna og stjórnmálamanna – persónur sem mörgum Vesturlandabúum hefur verið innrætt að hafa óbeit á. Hinn almenni ísraelski borgari á sér varla tilvist í huga Íslendinga og þannig vilja andstæðingar Ísraels hafa það.

Þegar sýður upp úr er mannfall jafnan meira Palestínumegin en Ísraelsmegin. Sú staðreynd hefur verið notuð til að renna stoðum undir alhliða neikvæða mynd af Ísraelsríki og þar hjálpar hin stöðuga afmennskun Ísraelsmanna í fjölmiðlum. En hvað er fólk raunverulega að segja með þessu? Er það ekki í raun að gagnrýna Ísrael fyrir að standa sig vel í að vernda hinn almenna borgara í Ísrael?

Á meðan Ísraelsríki hefur varið fúlgum fjár í að byggja upp skilvirkt varnarkerfi hafa yfirvöld á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum gert hið gagnstæða – þau bókstaflega hvetja eigin borgara til að fara í eldlínuna og þar með auka þau líkur á dauðsföllum. Ástæðan er auðvitað sú að dauðsföll auka líkurnar á krassandi fréttum í Vestrænum fjölmiðlum. Þær fréttir skila sér svo í meiri fjárframlögum til yfirvalda í Palestínu úr góðgerðarsjóðum. Það versta er að bæði almenningur og fjölmiðlar hafa fallið fyrir þessu bragði nánast gagnrýnislaust undanfarna þrjá áratugi.

Lögmálið um framboð og eftirspurn

Óeðlilegt hlutfall frétta frá deilunni fyrir botni Miðjarðarhafs er einnig að miklu leyti til komin vegna lögmálsins um framboð og eftirspurn. Það er búið að koma almenningi á bragðið með að fá fréttir af neyð Palestínumanna og sömuleiðis af „illsku“ Ísraelsríkis. Það er því einfaldlega í hag fjölmiðla að skaffa almenningi eins mikið af slíkum fréttum og hægt er, þótt það þurfi oft að hagræða sannleikanum til þess að ná fram tilætluðum áhrifum.

Neyð Palestínumanna virðist þó aðeins vera fréttnæm þegar hægt er að skella skuldinni á Ísrael. Þegar atvinnuleyfi afkomenda Palestínumanna í Líbanon var skert þögðu almennir fjölmiðlar á Íslandi þegjandi hljóði. Þegar Sýrlendingar réðust á afkomendur Palestínumanna í hrörlegum borgum þar sem sýrlensk yfirvöld hafa haldið þeim föngnum áratugum saman heyrðist ekkert í fjölmiðlum. Þegar Egyptar sprengdu upp öll hús Palestínumanna í Rafah sem lágu að landamærunum við Gazasvæðið – Ekkert!

Þegar það er erfitt að kenna Ísraelsmönnum beint um það sem aflaga fer í lífi Palestínumanna telst það ekki vera fréttnæmt. Gæti það verið vegna þess að andstaða fólks gegn Ísrael vegur þyngra en samúð þeirra gagnvart Palestínumönnum?

Hlið Palestínumanna

Hin hliðin á þessum peningi er að fjölmiðlar hafa í mörg ár látið eins og Palestínumenn séu upp til hópa einhvers konar friðelskandi hippar sem vilja ekkert annað en að fá að lifa í friði. Það er varhugavert að alhæfa um hópa fólks en það þarf ekki að leggjast í mikla rannsóknarvinnu til að sjá að fjölmargir Palestínumenn hafa allt annað en frið í huga gagnvart Gyðingum.

Í því samhengi má nefna herferð á samskiptamiðlum á árunum 2015 og 2016 þar sem Palestínumenn voru meðal annars hvattir til að stinga Gyðinga. Myllumerki á arabísku voru lögð við þessa herferð, þar á meðal myllumerkið #stinga (اطعن#). Fjöldi þessara innleggja hefur verið fjarlægður en þó nokkur hluti þeirra er enn sýnilegur. Þrjátíu og átta Gyðingar voru myrtir og yfir fimm hundruð voru særðir í þessum árásum. Hvar var fjölmiðlaumfjöllunin á þessum tíma?

Af viðbrögðum andstæðinga Ísraels að dæma er vert að þeir spyrji sig hvort þeir álíti manndráp með hnífi eða grjóthnullungi vera á einhvern hátt réttlætanlegra en manndráp með riffli.

Afstaða fjölmiðla og samskiptamiðla viðheldur deilunni

Fjölmiðlar og samskiptamiðlar bera mikla ábyrgð á því að blása eldi í glæður þessara átaka. Þegar Ísraelsmenn eru ekki lengur álitnir mennskir og látið í veðri vaka að þeir muni aldrei geta rétt tilveru sína í landinu er þeim ekki gefin nein ástæða til að draga úr viðbrögðum sínum við árásum Palestínumanna.

Sömuleiðis, ef Palestínumenn fá stöðugt þau skilaboð að þeir geti ekki gert neitt rangt, fá þeir aldrei ástæðu til að líta í eigin barm og horfast í augu við að aðferðafræði þeirra getur ekki leitt til langvarandi árangurs. Þvert á móti eru þær aðferðir sem yfirvöld Palestínumanna hafa notað undanfarnar vikur einungis uppskrift að áframhaldandi stríðsátökum. Við hjá MIFF viljum alls ekki sjá landið fyrir botni Miðjarðarhafs rifið í sundur í stríði líkt og grannríkið Sýrland og við vonum innilega að þeir sem efast um tilverurétt Ísraels hafi, þrátt fyrir allt, sama metnað fyrir friði.

Leiðin fram á við

Því miður er viðbúið að átökin muni halda áfram á næstu vikum. Það kann að vera að vopnahléi verði komið á, en ef forsendurnar halda áfram að vera þær sömu munu átök líklega blossa aftur upp fyrr en varir. Það þarf að breyta forsendunum til að geta búist við langvarandi friði og það þýðir að báðir deiluaðilar þurfa að koma aftur að samningaborðinu.

Í eina skiptið sem Palestínumenn fengu eigin landsvæði var það í gegn um beinar viðræður við Oslóarsamningana. Gyðingar þurftu að yfirgefa Gazasvæðið og Jeríkóborg vegna þeirra samninga. Það sýnir hversu langt yfirvöld í Ísrael voru tilbúin að ganga í nafni friðar. Atburðarásin síðan þá hefur leitt í ljós að palestínsk yfirvöld hafa einungis herðst í andstöðu sinni við Ísraelsmenn. Palestínsk yfirvöld þurfa því að hverfa aftur til þess hugarfars sem leiðtogar þeirra höfðu við Oslóarsamningana til að eiga von á að öðlast eigið þjóðríki og langvarandi frið.

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print