Search
Mynd: Nadia Murad (Skjáskot fengið frá kvöldfréttum NRK þann 8. október 2018).

Friðarverðlaunahafinn Nadia Murad telur að Jasídar geti dregið lærdóm af Ísrael

Fór í fimm daga heimsókn til Ísrael fyrir tveimur árum.

Föstudaginn 5. október í fyrra tilkynnti norska Nóbelsnefndin að friðarverðlaunin yrðu veitt Denis Mukwege og Nadiu Murad fyrir baráttu þeirra gegn notkun kynferðisofbeldis sem stríðsvopns í vopnuðum átökum.

Nadia Murad er 25 ára kona frá Írak – af minnihlutahópi Jasída – sem var tekin til fanga af hryðjuverkahópnum „Íslamska Ríkinu“ árið 2014 og seld í þrældóm í norðvesturhluta Írak. Eftir þriggja mánaða langa martröð tókst henni að flýja. Í kjölfarið kaus hún að tjá sig opinberlega um það sem hún og þúsundir annara Jasídakvenna höfðu mátt þola. Árið 2016 var hún útnefnd af Sameinuðu Þjóðunum sem „Velgjörðarsendiherra fyrir reisn fórnarlamba mansals“, en þetta var fyrsta útnefningin til þessa embættis.

Í júlí árið 2017 fór hún í fimm daga heimsókn til Ísraels. Þetta var umfjöllunarefni I24news í grein sem var birt þann 25. júlí 2017.

Mynd: Ísraelski þingmaðurinn Ksenia Svetlova frá flokkabandalagi Síonista að tali við Nadiu Murad. (Ljósmynd: knesset.gov.il)

Síðasta dag heimsóknarinnar – með aðstoð túlks – lét hún eftirfarandi orð falla:

Einmitt eins og Gyðingar, eiga Jasídar mörg þúsund ára sögu að baki. Þrátt fyrir stöðugar ofsóknir hafa þjóðir okkar lifað af. Dvöl mín í Ísrael hefur sýnt mér að í kjölfar undirokunar og þjóðernishreinsana getur þjóðfélag reist sig við og orðið enn þá sterkara.“

Ísraelsferð Nadiu var skipulögð af ísraelsku hjálparsamtökunum IsraAid, ásamt Combat Genocide Association – sem hefur á stefnuskrá sinni að stöðva og fyrirbyggja þjóðernishreinsanir – og Ísraelsdeild SID (Society for International Development).

Þá fimm daga sem hún var í Ísrael hitti Nadia ísraelska þingmenn og rektor háskólans í Tel Aviv, ásamt því að heimsækja Helfararsafnið (Yad Vashem) í Jerúsalem og Þjóðmenningarsafn Gyðinga (Beit Hatfutsot) í Tel Aviv.

Mynd: Nadia Murad á fundi í ísraelska þinghúsinu í júlí 2017 (Ljósmynd: knesset.gov.il)

Á fundi í ísraelska þinghúsinu (Knesset) hvatti Nadia ísraelsku þingmennina til að formlega bera kennsl á ofsóknirnar gegn Jasídum sem þjóðarmorð og að greiða atkvæði með lagafrumvarpi þess efnis sem Ksenia Svetlova frá flokkabandalagi Síonista lagði fram. Hún er í forystu þingmanna sem vinna að því að styrkja tengslin á milli Ísraels og Kúrdísku þjóðarinnar, sem Jasídar hafa búið í nánu samneyti við og eru stundum álitnir tilheyra.

Nadia Murad kvaddi Ísrael á þennan hátt: „Þakka ykkur fyrir að veita Jasídum leiðarvísi að því hvernig við getum varðveitt tengslin við sögu okkar og menningararf á sama tíma og við mótum framtíð okkar.“

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print