Search
(Mynd: Gadir Mrih er af trúarhópi drúsa og vann áður sem fréttakona. Hún hefur nú verið kosin, fyrst drúsakvenna, til ísraelska þjóðþingsins.)

Fyrsta konan af trúarhópi drúsa kosin til ísraelska þingsins

Þessi grein er uppfærð og örlítið breytt þýðing af norskri grein sem var skrifuð af Bjarte Bjellås sem var birt þann 8. mars

Kosningar til ísraelska þjóðþingsins (Knesset) voru haldnar þann 9. apríl. Fyrrverandi fréttaþula af trúarhópi drúsa er nú orðin fyrsta konan af þessum minnihlutahópi sem situr ísraelska þjóðþingið.

Hin þrjátíu og fjögurra ára Gadir Mrih (líka ritað Gadeer Mreeh) var í tuttugasta og fimmta sæti á framboðslista Bláhvíta bandalagsins undir forystu Benny Gantz. Likud-flokkur Benjamíns Netanyahu og Bláhvíta bandalagið hlutu nánast jafnt fylgi og fengu hvor um sig yfir 26% greiddra atkvæða, en Likud bar þó sigur úr býtum og mun Benjamín Netanyahu að öllu óbreyttu halda embætti forsætisráðherra þetta kjörtímabil.

Mrih hefur áður verið brautryðjandi meðal kvenna af minnihlutahópum í Ísrael. „Ég var fyrsta fréttaþulan sem var ekki Gyðingur í hebreskum fréttaþætti,“ sagði hún.

Það var ekki auðvelt fyrir þessa ungu konu frá þorpinu Daliyat al-Karmel að klífa metorðastigann í fjölmiðlaheiminum. Margir hinna íhaldssömu í samfélaginu hennar litu svo á að það væri óviðeigandi fyrir konu úr þeirra hópi að vinna í sjónvarpi.

Foreldrar mínir voru heimsóttir af meðlimi trúarsamfélagsins. Þeim var sagt að þetta væri óviðeigandi starf fyrir drúsakonu.“

En með tímanum hefur hún fengið mikinn stuðning frá drúsasamfélaginu, meðal annars frá Sheikh Muwafaq Tarif, sem er andlegur leiðtogi þessa minnihlutahóps í Ísrael.

Nú hafa einnig trúarleiðtogar samfélagsins sýnt því skilning að drúsakonur geti náð árangri, og að við getum verið fulltrúar samfélagsins með hófsemi og reisn,“ sagði Mrih.

Drúsar eru arabískumælandi þjóðfélagshópur í Líbanon, Sýrlandi og Ísrael. Þeir aðhyllast dulræn trúarbrögð sem eiga rætur sínar að rekja til sjía-siðs íslams, og bera þau merki um sterk áhrif eldri trúarhefða á svæðinu. Trúin hefur einnig orðið fyrir áhrifum frá hefðbundinni og gnóstískri kristni. Yfir 140.000 drúsa búa í Ísrael. Þeir hafa lagað sig vel að ísraelsku samfélagi og 80% karlmanna af þeirra hópi lýkur herskyldu í ísraelska hernum.

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print