Search
Leiðtogi Hamassamtakanna Ismail Haniyeh (til hægri) hitti leiðtoga talíbana í Doha í Katar síðastliðinn maí í kjölfar nýlegra átaka við Ísraelsríki.

Hamassamtökin senda talíbönum hamingjuóskir

Hamasleiðtogi fullyrðir að allir undirokaðir hópar geti dregið lærdóm af sigri talíbana í Afganistan.

Hamassamtökin, sem eru palestínsk hryðjuverkasamtök sem hafa stjórnað Gazasvæðinu síðan 2006, hafa lofsamað talíbana í kjölfar valdaráns þeirra í Afganistan.

Hamasleiðtoginn Moussa Abu Marzouk tísti á Twitter að sigur talíbana væri „eitthvað sem allir undirokaðir hópar gætu dregið lærdóm af,“ kemur fram í frétt Times of Israel.

„Talíbanar hafa náð sigri í dag eftir að hafa verið sakaðir um afturhaldssemi og hryðjuverk … Þeir hafa risið upp gegn Bandaríkjunum og útsendurum þeirra og hafnað málamiðlunum, þeir hafa ekki verið blekktir með slagorðum eins og lýðræði og kosningum. Þetta er kennsla fyrir alla undirokaða hópa.“ skrifaði Moussa.

Hamas hafa einnig gefið út fréttatilkynningu þar sem samtökin óska afgönsku þjóðinni til hamingju með sigur hennar á „hernámi Bandaríkjanna á Afganistan“. Sömuleiðis óska þeir hreyfingu talíbana og hugrökkum leiðtogum hennar til hamingju með þennan áfangasigur „sem er afrakstur langvinns andófs undanfarin tuttugu ár,“ skrifa Hamassamtökin.

Í maí, eftir ellefu daga stríð við Ísrael, fundaði leiðtogi Hamassamtakanna Ismail Haniyeh með leiðtogum talíbana. Vettvangur fundarins er óþekktur en bæði stjórn Hamas og talíbana hafa áður hist í Doha í Katar. Leiðtogar talíbana óskuðu Hamas til hamingju með „sigur þeirra“ yfir Ísraelsríki.

Palestínskur blaðamaður telur að nánari samvinna verði á milli Hamas og talíbana í framtíðinni, í grein sem hann skrifaði fyrir Jerusalem Post.

Hann telur einnig að sigur talíbana muni blása vindi í segl palestínska hryðjuverkahópa. Atburðirnir sýni að hægt sé að yfirbuga Bandaríkin og bandamenn þeirra þrátt fyrir hernaðarmátt þeirra, segir hann.

Bæði talíbanar og Hamassamtökin eru hryðjuverkasamtök súnní-múslima sem stefna að því að stofna íslömsk kalífadæmi. Eftir sigurinn í Afganistan hafa talíbanar lýst yfir að þeir muni stofna „Íslamska furstadæmið Afganistan“.

„Hamasliðar og talíbanar byggja samtök sín á sömu róttæku, jihad-íslömsku forsendunum, með algjört skeytingarleysi gagnvart mannslífum, frelsi og lýðræði,“ skrifar mannréttindalögfræðingurinn Arsen Ostrovsky.

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print