Search
Margir þátttakenda keppninnar við Dauðahafið þann 1. desember. (Mynd: Olivier Fitoussi / Flash90)

Hundruð milljóna horfðu á keppnina

Ungfrú Alheimur var haldin í Ísrael í fyrsta skipti.

Greinin er þýdd og staðfærð.

Mánudagskvöldið 13. desember var sjötugasta Ungfrú Alheimur-keppnin haldin í ísraelsku borginni Eilat við Rauðahafið. Þetta er í fyrsta sinn sem Ísrael hýsir keppnina.

“Í dag erum við í hinu fallega Ísraelsríki. Landið er mjög ríkt af bæði menningu og sögu,” sagði Steve Harvey – kynnir keppninnar – í opnunarræðu sjónvarpsútsendingarinnar sem náði til hundraða milljóna áhorfenda í 172 löndum.

Keppnin var haldið að næturlagi til að ná til stórs áhorfendahóps Norður-, Mið- og Suður-Ameríku. Hundruð milljóna sjónvarpsáhorfenda gátu ekki aðeins fengið að sjá þátttakendur frá níutíu ólíkum ríkjum heldur gátu þeir einnig séð fallegt myndefni frá Ísrael. Einnig voru flutt nokkur tónlistaratriði með frægum ísraelskum tónlistarmönnum.

Ungfrú Alheimur í ár er hin Indverska Harnaaz Sandhu, en Nadia Ferreira frá Paragvæ lenti í öðru sæti og Lalela Mswane frá Suður-Afríku lenti í því þriðja. Sandhu segir sína bestu minningu úr ferðinni vera að hafa synt með höfrungum í Eilat.

“Það eru svo margar minningar og þessi er ein af mínum uppáhalds. Ísrael er fallegt land og fólkið er svo hlýlegt. Það er það sem ég elska við Ísrael,” sagði hún.

Fulltrúi Íslands í keppninni, Elísa Gróa Steinþórsdóttir, náði ekki í efstu sæti keppninnar, en hún skrifaði á Instagram-síðu sinni að hún hafi séð sinn stærsta draum rætast í keppninni: Að vera fulltrúi þjóðar sinnar í Ungfrú Alheimi.

Þótt keppnin hafi verið haldin í Eilat fengu þátttakendur að kynnast öðrum borgum í Ísrael. Meðal annars deildi Elísa Gróa myndum af sér í gömlu borginni í Jerúsalem og við helfararsafnið Yad Vashem.

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print