Search
Mynd: Skjáskot úr myndskeiðinu.
Mynd: Skjáskot úr myndskeiðinu.

Ísrael býður Líbanon mannúðaraðstoð

Drónamyndskeið tekið á miðvikudagsmorguninn sýnir gríðarmikla eyðileggingu í Beirút, höfuðborg Líbanons.

Ísrael hefur boðið grannríkinu Líbanon mannúðaraðstoð eftir stærðarinnar sprengingu sem átti sér stað í höfuðborginni Beirút á þriðjudaginn, samkvæmt grein Times of Israel. Að minnsta kosti 100 manns létu lífið og þúsundir særðust eftir sprenginguna.

„Ísrael hefur haft samband við Líbanon í gegn um alþjóðlegar varnar- og samskiptaleiðir og boðið líbönskum yfirvöldum mannúðaraðstoð,“ sagði varnarmálaráðherrann Benny Gantz og utanríkisráðherrann Gabi Ashkenazi.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra, segir að hann hafi fyrirskipað þjóðaröryggisráðgjafa sínum Meir Ben Shabbat að ræða við fulltrúa Sameinuðu þjóðanna í Mið-Austurlöndum, Nickolay Mladenov, um hvernig Ísrael geti veitt Líbanon aðstoð.

Forseti Ísraels, Reuven Rivlin, skrifaði á Twitter á ensku, arabísku og hebresku: „Við deilum þjáningu líbönsku þjóðarinnar og við réttum einlæglega fram hjálparhönd á þessum erfiðu tímum.“

Ísrael hefur háð nokkur stríð í Líbanon, þar sem hryðjuverkasamtökin Hizbollah – fjármögnuð af Íran – eru hluti líbönsku ríkisstjórnarinnar og hafa útrýmingu Ísraels á stefnuskrá sinni. Frá árinu 1982 til ársins 2000, náði Ísrael á sitt vald syðsta hluta Líbanons í þeim tilgangi að reka þaðan palestínska hryðjuverkahópa sem höfðu hreiðrað um sig þar. Auk þess háði Ísrael skætt stríð gegn Hizbollah-samtökunum í landinu árið 2006.

Í tengslum við mannúðaraðstoðina, skrifar Varnarher Ísraels á Twitter að á þessum tímapunkti þurfi að líta fram hjá deilunni á milli ríkjanna. Samt sem áður er ekki búist við því að Líbanon samþykki tilboð Ísraels um mannúðaraðstoð, þrátt fyrir hina miklu neyð sem ríkir nú í landinu.

Samkvæmt forsætisráðherra Líbanons, Hassan Diab, kviknaði í vörugeymslu við höfnina í Beirút sem innihélt 2.750 tonn af sprengiefni sem var líklega ammóníumnítrat. Sprengiefnið virðist hafa verið geymt í borginni í sex ár.

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print