Search
Mynd úr Getty myndabankanum
Mynd úr Getty myndabankanum

Ísrael er 14. hamingjusamasta þjóð í heimi

Ísrael er „venjulegt lítið land“ með sérstaka menningu. Börn finna sig frjáls og sjálfstæð og landið virðist vera góður staður til að alast upp.  Landslag er fjölbreytt miðað við smæð landsins....

 

Þrátt fyrir erjur og stríðsátök í einu umdeildasta þjóðríki heims, Ísrael, þá eru ríkisborgarar landsins tiltölulega ánægðir með lífið og tilveruna, ef tekið er mið af niðurstöðum Alþjóða hamingjurannsóknarinnar, sem Sameinuðu þjóðirnar standa að á hverju ári.

Skýrslan metur þá þætti sem taldir eru skýra almenna vellíðan og hamingju einstaklinga. Ríkisborgarar 156 þjóða eru spurðir í þessari viðamiklu könnun og þeir sjálfir meta sína eigin hamingju.  Hvað Ísrael snertir þá liggur skýringin að stórum hluta í þeirri staðreynd að landið er lýðræðisríki þar sem mannréttindi eru virt. Íbúar búa við trúfrelsi, tjáningarfrelsi og ferðafrelsi, auk jafnréttis og lagaumhverfis sem styður einstaklinginn í að ná fram rétti sínum ef á honum er brotið. 

Einn af undirliggjandi þáttum könnunarinnar er hversu öruggir borgararnir upplifa sig, í umhverfi sem í alþjóðlegri umræðu er venjulega tengd við stríðsátök og hryðjuverk. Ríkisborgarar af arabískum uppruna eru 21% Ísraelsku þjóðarinnar, sem er athyglisvert miðað við ofangreindar niðurstöður.  Hvar sem þú ert í Ísrael, á ströndinni, í verslunarmiðstöð eða annars staðar, þá sérðu gyðinga og araba lifa og starfa friðsamlega við hlið hvers annars, á öllum þrepum samfélagsins. Allir eiga sinn hlut í velgengni og uppgangi landsins. Sem dæmi um það er þegar Ísrael lenti í miklum vatnsskorti árið 2007.  Hrundið var af stað verkefni sem fólst í að „afsalta sjó“ og vinna úr honum drykkjarhæft vatn.  Árangur verkefnisins vakti heimsathygli. Í dag er 80% af neysluvatni til heimila unnið í stórum afsöltunarverksmiðjum sem staðsettar eru á Miðjarðarhafsströndinni.

Víkjum aftur að hamingjulistanum. Ísrael situr ofar á þessum lista en lönd eins og Írland (16. sæti), Þýskland (17. sæti) og Bandaríkin (18. sæti).  Og þó Ísrael sé þetta árið í 14. sæti þá er rétt að geta þess að í 5 ár þar á undan var landið í 11. sæti á listanum.

Mynd: 20 hamingjusömustu þjóðir heims
Mynd: 20 hamingjusömustu þjóðir heims

Athyglisvert er að Ísrael var í 12. sæti þegar kemur að einstaklingum fæddum í öðru landi (e. foreign born). Rússneskir innflytjendur lifa t.d. mun hamingjuríkara lífi í Ísrael en í upprunalandinu.

Í könnuninni kemur fram að lífslíkur Ísraela jukust um 3,1 ár milli áranna 2000 og 2015, þ.e. úr 69,7 árum í 72,8 ár. Skýringin liggur m.a. í stórbættu heilbrigðiskerfi.  Vegna þessara stórauknu lífslíkna stekkur Ísrael upp í 6. sætið í þessum undirflokki og kemur þar fast á hæla landa eins og Japan, Íslandi, Ítalíu, Sviss og Kanada sem tróna í efstu 5 sætunum.

Hins vegar er Ísrael meðal landa sem sýna minna umburðarlyndi gagnvart innflytjendum en algengt er hjá mörgum vestrænum þjóðum. Skýringin liggur kannski í viðhorfum Ísraela gagnvart innflytjendum frá Erítreau og Súdan, sem margir hverjir bíða brottvísunar.
Hvað snertir nágrannalöndin í Mið-Austurlöndum í þessari könnun, þá lendir Saudí Arabía í 27. sæti, Líbanon í 111., Íran í 118., Jórdanía í 119., svæði Palestínu í 125., Egyptaland í 138. og Jemen í sæti 146. 

Á vefsíðunni Quora.com var varpað fram spurningunni; „Hversu erfitt er að búa í Ísrael?“ Eitt af svörunum sem bárust (í febrúar 2019) var frá Dan Lenski, bandarískum verkfræðingi sem margoft hefur dvalið í Ísrael. Svar hans er hér að neðan í lauslegri þýðingu greinarhöfundar;

„Ég er ekki Ísraeli, en ég hef lifað þar og starfað, marga mánuði í einu, á síðustu árum. Ég held ég hafi nokkuð góða yfirsýn yfir það hvernig er að búa þar…. og svar mitt er … alls ekki svo slæmt. Lífið í Ísrael er ekki fullkomið – Ísraelar sjálfir eru áhugasamir um að tjá sig um eigið land – en heilt yfir þá er lífið þar gott.

Ísrael er „venjulegt lítið land“ með sérstaka menningu. Börn finna sig frjáls og sjálfstæð og landið virðist vera góður staður til að alast upp.  Landslag er fjölbreytt miðað við smæð landsins. Má þar nefna skóga, stöðvötn, eyðimerkur og baðstrandir auk fjölda staða með mikið sögulegt og menningarlegt gildi. Allir sem ég þekki búa í nálægð við sína stórfjölskyldu og fáir virðast félagslega einangraðir, ólíkt því sem er að gerast í Bandaríkjunum.

Gæði menntastofnana eru mikil og margir háskólar hátt skrifaðir á heimsvísu. Ísraelar gefa út og kaupa einna mest af bókum af öllum þjóðum heims og hið ríkisstyrkta heilbrigðiskerfi virðist ná góðum árangri en þeir hafa samt agaða stjórn á kostnaðinum.  Framleiðsla landbúnaðarafurða er góð og verð lág, enda hentar loftslag vel til slíkrar framleiðslu. Töluvert hefur verið um fjárfestingar í landbúnaði

„Samfélagslegt traust“ virðist vera mikið í Ísrael.  Oft sér maður ókunnuga biðji um, eða bjóðist til að keyra aðra milli staða. Tíðni alvarlegra glæpa er lág og tíðni morða sömuleiðis. Kostnaður við farsímanotkun og aðgang að interneti er lítill og nethraði sem er í boði er mikill. Allir landsmenn eru á WhatsApp.  Atvinnuleysi er lítið og efnahagslegur og félagslegur hreyfanleiki mikill. Margir Ísraelar byrja sem innflytjendur með tvær hendur tómar og ná að koma sér vel fyrir efnahagslega á sinni starfsævi. Eitt atriði vakti sérstaklega athygli mína og það er að margar konur eru í mikilvægum stöðum í hátæknifyrirtækjum, ólíkt því sem ég hef séð í Bandaríkjunum.

Og hvað er ekki svo gott í Ísrael?

Bílaumferðin er hörmung og rusl og drasl er út um allt. Svo reykja Ísraelar mikið. Almenningssamgöngur eru hörmung og í landinu er allt of mikil sól og hiti fyrir fólk sem kemur frá hinum siðmenntaða hluta heimsins – og þá á ég við fólk sem er vant að sjá snjó reglulega. Máltíðir á veitingastöðum, afþreying og neytendavörur eru mjög dýrar, og húsaleiga í hinni nútímalegu Tel Aviv er klikkuð.  Há útgjöld til varnarmála, háir skattar og óskilvirkir vöruflutningar til og frá Ísrael, eru allt atriði sem stuðla að þessu.  Gagnvart útlendingum þá virkar landið í heild sinni óskipulegt og ráðalaust.  Fólk er ýtið og lítið samræmi er í þeirri þjónustu sem veitt er. Alls staðar í samfélaginu er einhver tilraunastarfsemi í gangi og mikið um breytingar. Minna er gert af því að fínstilla hluti og festa þá í sessi (ólíkt Japan, í mínum huga). Eins og ég segi þá er Ísrael fjölbreytt samfélag en lítið…. við erum aðeins að tala um tvær til þrjár stórborgir; Tel Aviv, Jerúsalem og Haifa. Og af þessum þremur þá er Tel Aviv sú eina sem ber einhvern stórborgarbrag.  Ég get því vel skilið af hverju unga Ísraelsmenn dreymir um að ferðast út fyrir landsteinana.

Benjamín Netanyahu hafði eftirfarandi að segja í viðtali á sjónvarpsstöðinni Fox News á árinu 2018, þegar hann var spurður út í góða útkomu Ísraels í könnuninni það árið:

Ísrael kemur vel út. Við stöndum framar mörgum vestrænum ríkjum [ …. á þessum hamingjulista]. Og fólk spyr: „Hvernig getur á þessu staðið?.  Ísrael er með hryllilega nágranna. Við erum að tala um hryðjuverk, öfga-Íslam og gríðarlegar áskoranir, en samt stöndum við framar flestum löndum heims“.

Greinarhöfundur:  Hafsteinn G. Einarsson

Heimildir:

World Happiness Report 2020

The Jerusalem Post – Israel remains world’s 11th-happiest country – 15. mars 2018

Wikipedia – Demographics of Israel

A question on Quora.com:  How bad is it to live in Israel?

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print