Search
Plastúrgangur í sjónum hefur orðið að gríðarlegum umhverfisvanda. Þessi ljósmynd er frá Dóminíkanska lýðveldinu í Karíbahafinu. Mynd: Flickr

Ísraelskar strandborgir banna einnota plast.

Yfirvöld strandborganna Herzliya og Eilat vilja takmarka plastúrgang sem fellur í hafið.

Notkun einnota plasts er bönnuð við strönd borgarinnar Herzliya, fyrir norðan Tel Aviv. Mynd: Flickr

Yfirvöld strandborganna Herzliya og Eilat hafa bannað notkun og sölu einnota plasts við ströndina í átaki sem miðar að því að minnka plastúrgang. Þetta er í fyrsta sinn sem ráðist er í slíkt verkefni í Ísrael, samkvæmt frétt Ha’aretz.

Lögin eiga að taka gildi í borgunum seinna á þessu ári. Moshe Fadlon, borgarstjóri Herzliya, tilkynnti fyrir nokkrum vikum að hann muni fljótlega undirbúa lagafrumvarp til borgarráðsins, sem leggur bann við notkun plastpoka og plasthnífapara við strönd borgarinnar, fyrir norðan Tel Aviv. Nýja lagafrumvarpið er í vinnslu. Úrval einnota hluta stendur til boða í stað þess sem verður bannað, t.d. endurvinnanlegir pokar og hnífapör og aðrir hlutir úr áli.

Yfirvöld Herzliya, sem er staðsett við strönd Miðjarðarhafsins, segja reglunum verði framfylgt af borgarfulltrúum við ströndina. Þeir munu hafa heimild til að sekta þá sem brjóta reglurnar. Bannið er hluti af stærra átaki sem miðar að því að gera Herzliya að plastlausri borg og tilraun til að fá opinberar stofnanir og menntastofnanir til að minnka plastnotkun.

Á sunnudaginn tilkynntu yfirvöld í Eilat tvíþætta áætlun sem miðar að því að hlífa strönd bæjarins við plastmengun. Fyrsta skrefið er að leiðbeina fyrirtækjum í borginni hvernig væri best að minnka plastnotkun. Síðar mun notkun einnota plasts vera bönnuð við ströndina í þessari syðstu borg Ísraels, staðsett við mynni Akabaflóa við Rauðahafið.

Borgaryfirvöld munu einnig hefja átak til þess að auka meðvitund íbúa og ferðamanna um skaðsemi plasts fyrir kóralrif, fiska og önnur sjávardýr.

Lögin þurfa að vera samþykkt af innanríkisráðuneytinu. Undantekning verður gerð á vatnsflöskum í frumvarpinu. Til að byrja með munu þeir sem gerast brotlegir fá viðvörun en við ítrekuðum brotum mun sektum vera beitt. Upphæð sekta hefur ekki verið gefin upp.

Plastúrgangur nær yfir 90 prósent af því sorpi sem fellur í hafið og í það minnsta 58 prósent af því kemur frá ströndinni, samkvæmt umhverfisráðuneyti Ísraels. Ráðuneytið hefur á sínum snærum rannsóknaraðila sem fylgjast með plastrusli í Miðjarðarhafinu og Rauðahafinu. Þeir vilja einnig komast að því hversu mikið af úrgangnum kemur frá öðrum löndum og hversu mikið kemur frá lækjum og ám í Ísrael.

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print