Search
Vettvangur hryðjuverkanna þann 7. apríl í Tel Avív. Mynd: Avshalom Sassoni/FLASH90

Kyndir „útvarp allra landsmanna“ undir Gyðingahatri?

Fjórða mannskæða hryðjuverkaárásin á innan við mánuði var framin í Ísrael þann 7. apríl. Þrír ungir menn voru myrtir af palestínskum hryðjuverkamanni í miðbæ Tel Avív. Þeir hétu Tomer Morad, Eytam Magini and Barak Lufen og voru almennir borgarar. Hryðjuverkamennirnir voru augljóslega ómerkilegir heiglar, því 12 af 14 fórnarlömbum þeirra í yfirstandandi hryðjuverkaöldu hafa verið almennir borgarar.

Íslenskir fjölmiðlar, að Vísi undanskildum, hafa setið þegjandi hljóði um hryðjuverkin 7. apríl. Auk þess fjölluðu íslenskir fjölmiðlar ekkert um árásina sem átti sér stað kvöldið 27. mars þar sem þau Yezen Falah og Shirel Abukarat voru myrt.

Umfjöllun RÚV hefur verið sérstaklega ábótavant undanfarnar vikur. Á meðan öryggi Ísraels er ógnað af hryðjuverkamönnum hefur umfjöllun RÚV um Ísrael einkennst af skeitingarleysi, rætni og villandi upplýsingum.

Í athugasemd sinni við nýlega frétt RÚV lét Íslendingur einn eftirfarandi ummæli falla:

„…og helvítis Gyðingarnir í Ísrael – þjóðarmorðingjarnir í Ísrael – Síonistarnir – Júðarnir – eða hvað nú eina sem menn vilja kalla þessa stríðsglæpamenn og fjöldamorðingja í hinu skáldaða ríki Ísrael…“

Slík ummæli eru vitanlega á ábyrgð þess sem skrifaði þau, en RÚV getur engu að síður ekki skotið sér undan ábyrgð vegna umfjöllunar sinnar. Við skulum líta á nokkur dæmi því til stuðnings.

Ólöf Rún fer undan í flæmingi

Ólöf Rún Erlendsdóttir skrifaði í frétt sinni þann 30. mars um hryðjuverkaárásina í Bnei Brak að ísraelskir fjölmiðlar hafi „haldið því fram að palestínskur maður beri ábyrgð á árásunum“. Hún bætir auk þess við: „Naftali Bennett, forsætisráðherra í Ísrael, segir árásirnar vera hryðjuverk.“ Orðalag fréttarinnar gefur til kynna að tilkynningar ísraelskra yfirvalda gætu verið marklausar.

En staðreyndir málsins eru skýrar. Þetta voru hryðjuverk og hryðjuverkamaðurinn var Palestínumaður. Með orðavali sínu gefur Ólöf til kynna að ekki sé hægt að treysta staðreyndum málsins vegna þess að þetta sé eingöngu eitthvað sem Ísraelsmenn hafa „haldið fram“ eða „sagt“.

Magnús Þórhallsson endurtekur fölsk ummæli mótbárulaust

Fréttamenn RÚV hafa raunar gerst sekir um enn alvarlegri brot í fréttaflutningi sínum undanfarnar vikur. Magnús Þ. Þórhallsson lauk frétt sinni þann 26. mars um sveitastjórnarkosningar á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum með því að vitna í ummæli Mahmoud Abbas, þaulsetins forseta Palestínsku heimastjórnarinnar (PA), um að Ísrael hafi ekki heimilað þingkosningar í Austur-Jerúsalem. Þessi fullyrðing Abbas er hins vegar alröng. Ísrael hefur hvorki hindrað kosningar á Gazasvæðinu, í Austur-Jerúsalem né á sjálfstjórnarsvæðunum.

Gazasvæðinu er stjórnað af hryðjuverkasamtökum sem vitanlega leyfa engar kosningar og þar kemur Ísraelsstjórn málinu ekki við. Mahmoud Abbas hefur sömuleiðis ekki heimilað kosningar á sjálfstjórnarsvæðunum frá því hann náði kjöri (til fjögurra ára) árið 2005. Árið 2021 lagði Abbas bann á kosningarnar sem voru þegar farnar af stað á sjálfstjórnarsvæðunum.

Ísraelsk yfirvöld höfðu þvert á móti horft í gegn um fingur sér varðandi palestínskar þingkosningar í Austur-Jerúsalem. Samkvæmt alþjóðalögum ættu í raun einungis kosningar til ísraelska þingsins að eiga sér stað í Austur-Jerúsalem, þar sem borgarhlutinn tilheyrir ekki sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna samkvæmt Oslóarsamkomulaginu sem fulltrúar Palestínumanna undirrituðu sjálfir.

Kjarni málsins er sá að Mahmoud Abbas hefur setið í embætti sínu í sautján ár og beitt þegna sína miklu harðræði. Það ætti því að vera öllum augljóst hvers vegna hann leyfir engar kosningar.

RÚV stuðlar að Gyðingahatri á samskiptamiðlum

Engar þessara staðreynda birtust í frétt RÚV og því hafa lesendur auðvitað tekið ummælum Abbas sem heilögum sannleik. Íslendingur einn sem deildi fréttinni lét út úr sér gróf hatursummæli í garð Gyðinga í athugasemdum sínum við fréttina.

Hatursorðræða af þessu tagi er ólíðandi og nauðsynlegt er að sækja einstaklinga sem opinberlega viðhafa slík ummæli til saka. En gleymum því ekki að hvatinn að þessum ummælum voru fölsk ummæli Mahmoud Abbas sem voru gagnrýnislaust endurtekin í frétt RÚV. Það er því ekki hægt að segja RÚV hafi reynt að fyrirbyggja hatursorðræðu gegn Gyðingum hérlendis.

Fulltrúi MIFF á Íslandi sendi RÚV athugasemd um þetta mál fyrir hönd félagsins, en athugasemdin var hundsuð.

Stjórnarmeðlimir RÚV nota Úkraínu sem stökkpall

Á meðan palestínskir hryðjuverkamenn valsa um Ísrael og myrða almenna borgara lögðu Mörður Árnason og Mörður Áslaugarson sem sitja í stjórn RÚV fram tillögu þess efnis að útskúfa Ísrael úr Eurovision-keppninni. Sú ákvörðun að Rússlandi yrði vikið úr keppninni vegna yfirstandandi innrásar í Úkraínu var stökkpallur þeirra út í þessa tillögu.

Fullyrðingar þeirra í yfirlýsingunni um Ísrael eiga ekki við rök að styðjast, auk þess að tillaga af þessu tagi er lítilsvirðing gagnvart fólkinu í Úkraínu sem upplifir gríðarlegar þjáningar á hverjum degi, líkt og meðlimur okkar benti á í svari sínu við opnu bréfi Íslands-Palestínu á dögunum.

Það er vart annað að sjá en að RÚV – sem annars virðist vilja láta taka sig alvarlega sem fjölmiðil – hafi skýrt mótaða stefnu um að fjalla á einhliða, misvísandi og ósanngjarnan hátt um Ísraelsríki. Það er mjög alvarlegt að „útvarp allra landsmanna“ skuli taka undir orðræðu öfgasinna og hryðjuverkamanna.

Það er auðvitað hvatning okkar til RÚV að fréttastofan breyti afstöðu sinni og stuðli ekki frekar að hatri gegn Gyðingum og Ísrael í fréttaflutningi sínum.

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print