Search
Myndin er af vefsíðu PMW. PMW Special Report - PA Antisemitism: Jews must be fought for Allah on Behalf of All Humanity

Ný skýrsla frá Palestinian Media Watch

Andúð palestínuaraba á Gyðingum: Nauðsynlegt er að ráðast gegn Gyðingum fyrir hönd Allah og alls mannkyns.

Þýdd grein eftir Itamar Marcus

Helfararráðstefnan í Jerúsalem undir lok janúar, á afmælisdegi frelsunar fangabúðanna í Auschwitz og Birkenau, var heimsótt af leiðtogum 50 landa. Ráðstefnan var hrífandi minning um fortíðina en hana verður að yfirfæra yfir í aðgerðir til framtíðar. Ef látið er nægja að minnast fórnarlambanna og heiðra eftirlifendur, en látið undir höfuð leggjast að draga lærdóm af þessum atburðunum, þá bjóðum við hættunni heim með endurtekningu á versta hryllingi sögunnar.

Einn grundvallarlærdómur helfararinnar er að heimurinn verður að vera vakandi fyrir því að afhjúpa og útrýma allri andúð sem leiðir til réttlætingar á morðum, hvort sem þeim er beint gegn gyðingum eða öðrum hópum. Ein af stóru mistökum alþjóðasamfélagsins er hin umburðarlynda afstaða til kerfisbundinnar andúðar stjórnar Palestínumanna á gyðingum, því gyðingahatur er nú landlægt meðal Palestínumanna.

Skoðanakönnun ADL Global 100 fyrir nokkrum árum leiddi í ljós að Palestínumenn eru antisemitískasti hópur í heimi. 93% Palestínumanna telja að a.m.k. 6 af 11 neikvæðum staðalímyndum um gyðinga, sem prófaðar voru, væru „líklega sannar“. Í Írak var prósentan 92% og í Jemen í 88%. Til dæmis telja 91% Palestínumanna „Gyðinga hafa of mikið vald í viðskiptalífinu,“ 72% telja að „Gyðingar telji sig vera betri en annað fólk,“ og 88% Palestínumanna segja „Gyðinga hafa of mikla stjórn á alþjóðamálum. “

Útbreitt Gyðingahatur meðal Palestínumanna er bein afleiðing af kenningum heimastjórnar Palestínumanna. Fatah-hreyfing Mahmoud Abbas lét nýlega gera áróðursmyndband, þar sem margt er fullyrt um sögu Gyðinga í Evrópu. Myndbandið var birt á opinberu Facebook-síðu Fatah. Þar er fullyrt að Gyðingar líti á sig sem yfirburða fólk: „Við [Gyðingar] erum þjóð sem er ofar [öðrum] þjóðum … aðeins við erum fólk og allir aðrir eru dýrin okkar“. Aðrar þjóðir eru óæðri þeim: „Heimsmynd Gyðinga segir aðrar þjóðir vera líkari snákum“. Gyðingar sjálfir, staðhæfir Fatah-hreyfingin, „leiddu verkefnið, sem fólst í að gera mannkynið að þrælum“. Gyðingar gengu í bandalag við nasista um að brenna Gyðinga „í þeim tilgangi að safna auði“. Gyðingarnir stofnuðu sjálfir„ gettó til að aðgreina sig frá öðrum hópum, en það orsakast af hroka og viðbjóði gagnvart þeim sem ekki eru gyðingar.” Og í heimildarmyndinni heldur lygin áfram. Þar er fullyrt að það hafi verið í gettóunum, sem Gyðingar beittu sér gegn öðrum Gyðingum, sem aftur leiddi til evrópsks anti-semitisma: “[Gyðingar] voru hataðir vegna kynþáttahaturs þeirra og óhreinnrar hegðunar“

Áróðursherferðin gegn Gyðingum, varðandi það að þeir síðarnefndu hefðu kallað anti-semitisma yfir sig sjálfa, kemur frá sjálfum leiðtogum Palestínumanna. Það var Mahmoud Abbas sjálfur sem útskýrði fyrir Palestínumönnum hvers vegna Evrópubúar fremja fjöldamorð á Gyðingum „á 10 til 15 ára fresti“ í aldaraðir og að lokum Helförina sjálfa: „Af hverju gerðist þetta? … Hatur á Gyðingum stafar ekki af trúarbrögðum þeirra, heldur vegna samfélagslegs hlutverks þeirra … vegna félagslegs hlutverks þeirra sem tengdist okurlánavöxtum, bankastarfsemi o.þ.h.“. Þannig staðfesti Abbas blekkingu antisemitista um að Gyðingar hafi borið gyðingahatur upp á sig sjálfa.

Þeir aðilar sem Abbas hefur skipað í trúarlegar og stjórnmálalegar stöður, hafa sömuleiðis dreift hatri á gyðingum. Mahmoud Al-Habbash sem Abbas skipaði sem yfirmann íslamskra dómstóla og sem þjónaði áður sem persónulegur ráðgjafi hans, fullyrti að átökin við Ísrael snúist ekki um landsvæði, heldur beinist gegn Gyðingum sjálfum, þar sem þeir eru bandamenn Satans hér á jörðu og dreifa illindum og ósannindum. Ísrael er því í raun „verkefni Satans.“

Palestínskum börnum er kennd sama hugmyndafræði haturs. Börn fara með ljóð á opinberu PA TV sjónvarpsstöðinni, þar sem þau eru látin segja að „óvinur okkar, Síon, sé Satan með hala“ og að Gyðingar hafi verið „dæmdir til niðurlægingar og erfiðleika“ og séu „það mest djöfullega í allri sköpun, ofbeldisfullir apar og ömurleg svín“.

Andúð Palestínuaraba á Gyðingum nær hápunkti sínum þegar tilvist þeirra síðarnefndu er kynnt sem grundvallarógn við allt mannkyn. Trúarbragðaleiðtogar PA hafa orðað það með ýmsum hætti á PA TV sjónvarpsstöðinni: „Þetta eru Gyðingar … alltaf að berjast, alltaf spilltir, með stöðugar svívirðingar og stöðugt vinnandi að samsæri gegn mannkyninu“; „Það er engin alþjóðleg spilling sem þeir eru ekki að baki“; „Vinna markvisst að því að hvetja til styrjalda og deilna alls staðar í heiminum“; „Mannkynið mun aldrei lifa í friði eða gæfu eða ró, svo framarlega sem þeir spilla landinu … ef fiskur í sjónum berst við annan fisk, þá er ég viss um að Gyðingar eru á bak við það“.

Myndin er úr grein PMW Special Report – PA Antisemitism: Jews must be fought for Allah on Behalf of All Humanity

Þar sem Gyðingar eru uppspretta alls ills skv. Palestínumönnum – þá má rekja allt slæmt sem gerist í heiminum til Gyðinga. „Sérfræðingur PA TV í málefnum Ísraels“ sagði palestínskum áhorfendum: „ISIS tók allar sínar trúarhugmyndir úr gyðingdóminum.“ Grein í opinberu dagblaði Palestínumanna skýrði frá því að borgarastyrjöld arabíska vorsins, sem og borgaralega stríð Hamas-Fatah samtakanna, væru öll áætlun Ísraels.

Stundum lýsa leiðtogar Palestínumanna sérstaklega ógeðfelldri niðurstöðu sinni: Ógn Gyðinga við mannkynið verður aðeins stöðvuð með því að útrýma öllum gyðingum. Klerkur á PA TV sjónvarpsstöðinni útskýrði þetta með eftirfarandi hætti: „Hin illkynja gen [gyðinga] og bölvuð skapgerðareinkenni þeirra, viðhaldast áfram í þeim. Þeir flytja þau frá kynslóð til kynslóðar. Genin ganga frá föður til sonar … Mannkynið mun aldrei geta lifað með þeim… spámaður okkar [Múhameð] tilkynnti okkur [að] á hinum síðustu tímum munu múslimar berjast við Gyðinga… og þegar Gyðingar leynast á bak við stein eða tré, þá mun steinninn eða tréð segja: ‘Múslimi, þjónn Allah, það er gyðingur á bak við mig, komdu og dreptu hann’ … Allah… tel þá og dreptu þá einn í einu og láttu ekki svo mikið sem einn verða eftir . “

Þetta eru ekki tilvitnanir frá keisaratímanum í Rússland á 19. öld eða Nasista-Þýskalandi 20. aldar. Þetta eru viðhorf sem embættismenn Mahmoud Abbas kenna Palestínumönnum og er dreift í gegnum opinbera fjölmiðla og fjölmiðla Fatah-hreyfingarinnar.

Þar sem dráp á Gyðingum eru réttlætt sem „sjálfsvörn“, þá er slíkum voðaverkum pakkað inn sem hetjudáðum með samþykki Allah. Eftir að palestínskur hryðjuverkamaður myrti tvo ísraelska vinnufélaga sína, sendi Fatah morðingjanum svohljóðandi skilaboð á Facebook: „Allah verndar þig og sér um þig.“ [sjá opinbera Facebook-síðu Fatah, 28. nóvember 2018]

Í ljósi þess að yfirvöld í Palestínu hafa rekið áróður fyrir þessari antisemitísku hugmyndafræði um árabil, kemur ekki á óvart að skoðanakannanir staðfesti Palestínumenn sem mestu gyðingahata heims.

Og í ljósi hinna fjölmörgu yfirlýsinga í kjölfar ráðstefnunnar í janúar, bæði til minningar um Helförina og til stuðnings baráttunni gegn antisemitisma, þá skal þess getið að það að líta á dráp á Gyðingum sem sjálfsvörn með samþykki Guðs var ekki fundið upp af Palestínumönnum, heldur kemur þetta úr hugmyndafræði nasista. Hitler orðar það með eftirfarandi hætti í Mein Kampf: „[Ef] Gyðingur sigrar aðrar þjóðir, þá verður kóróna hans útfararkrans mannkynsins … Með því að verja mig gegn Gyðingnum er ég að berjast fyrir Drottinn“.

Sú ákvörðun alþjóðasamfélagsins að horfa framhjá áróðursherferð Palestínumanna hefur gert heimastjórn þeirra kleift að gera Palestínumenn að mestu gyðingahöturum heims. Fylgja verður eftir ráðstefnunni í Jerúsalem með heilsteyptum aðgerðum og setja í gang baráttu gegn antisemitisma Palestínumanna.

Leiðtogar heims verða að sýna vilja til að nota allt sitt pólitíska og fjárhagslega vægi til að uppræta andúð á Gyðingum, annars eru þeir að leyfa enn einni kynslóð Ísraelsmanna og Palestínuaraba að lifa í hatri og skelfingu, vegna antisemitismans. Þá væri umrædd ráðstefna í janúar, einfaldlega athöfn sem hyllir fortíðina en hunsar nútímann og hefur síðan engin jákvæð áhrif til framtíðar.

Sjá hér upprunalegu greinina á ensku:

PMW Special Report – PA Antisemitism.

26. janúar 2020

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print