Íþróttavöruframleiðandinn Puma á nú undir högg að sækja frá BDS-samtökunum sem kenna sig við sniðgöngu á Ísraelsríki. Hvað hafði Puma gert af sér til að verðskulda slíka aðför? Fyrir tveimur árum skrifaði Puma undir fjögurra ára stuðningssamkomulag við Ísraelska knattspyrnusambandið (IFA) og nokkur aðildarliða þess koma frá landnemabyggðum Ísraelsmanna á Vesturbakkanum. Þess ber að geta að Puma er ekki ísraelskt fyrirtæki, en það eitt að hafa tengsl við ísraelsk samtök nægir til þess að verðskulda neikvæða athygli BDS-samtakanna. En sagan endar ekki þar. Íslensk deild samtakanna hefur krafist þess að Knattspyrnusamband Íslands rjúfi samning sem sambandið gerði við Puma síðastliðið vor varðandi framleiðslu nýs landsliðsbúnings.1
Pólitískt hlutleysi, jafnvel meðal íþróttasambanda, er ekki talinn vera ásættanlegur möguleiki í hugum forsvarsmanna BDS-samtakanna. Þetta er í samræmi við þá pólskiptingu sem hefur færst í aukana í stjórnmálaumræðu undanfarin ár, þar sem mál eru í auknum mæli sett fram á svart-hvítan hátt þar sem það eina sem stendur til boða er að vera með eða á móti. Við fyrstu sýn virðast BDS-samtökin einkennast af jákvæðri og friðsamlegri stefnu og fá að jafnaði mikinn meðbyr í íslenskum fjölmiðlum. En þau eiga sér myrka hlið sem birtist sjaldan í fjölmiðlum og vert er að vekja athygli á.
Landnemabyggðirnar ekki stærsta fyrirstaðan
BDS-samtökin hafa alla tíð lagt höfuðáherslu á landnemabyggðir Ísraelsmanna á ákveðnum svæðum Vesturbakkans. Þau láta í veðri vaka að landnemabyggðirnar séu helsta fyrirstaðan fyrir friði á milli Ísraelsmanna og Palestínumanna, en er þessi staðhæfing rétt? Árið 2005, í tilraun til að koma á friði á Gazasvæðinu, voru allir Gyðingar sem þar bjuggu reknir þaðan af ísraelskum yfirvöldum. En úr því varð enginn friður. Gazasvæðið féll í hendur Hamas-samtakanna, sem hafa síðan þá undirokað íbúa svæðisins og haldið uppi linnulausum flugskeytaárásum á Ísraelsríki. Fleiri öfgahópar hafa náð fótfestu á svæðinu, t.d. Hreyfingin um heilagt stríð í Palestínu (Palestinian Islamic Jihad) sem hefur sömuleiðis staðið fyrir eigin flugskeytaárásum á Ísrael.
Ólíkt Gazasvæðinu býr ákveðinn fjöldi Gyðinga enn í landnemabyggðum á Vesturbakkanum, en þær eru ekki eins víðfeðmar og mætti halda miðað við umfjöllun fjölmiðla. Þó ísraelski varnarherinn vakti stóran hluta Vesturbakkans (Svæði B og C skv. Oslóarsamningunum), ná byggingar ísraelskra landnema aðeins yfir um 3% af flatarmáli Vesturbakkans.2 Landnemabyggðirnar hafa verið plássfrekar í umræðunni og skyggt á annað ágreiningsmál sem felur í sér mun stærri hindrun í vegferðinni að friði.
Flóttamannavandinn
Á meðal markmiða BDS-samtakanna er að fimm milljónum afkomenda þeirra Palestínumanna sem flýðu landið á stríðsárunum 1948 og 1967 verði komið fyrir í Ísrael. Hver sem þekkir til staðarhátta í Ísrael mun strax gera sér grein fyrir því að þar er einfaldlega ekki pláss fyrir fimm milljón manns til viðbótar við þá sem þegar búa í landinu, óháð öllum öðrum þáttum sem myndu gera framkvæmd þessarar hugmyndar ómögulega. Meðstjórnandi BDS-samtakanna telur hins vegar ekki nauðsynlegt að taka tillit til þeirra 6,5 milljóna Gyðinga sem þegar búa í landinu. Í grein hans frá 2003 skrifaði hann meðal annars: „Hvers vegna myndu ísraelskir Gyðingar samþykkja þetta sameinaða ríki, þar sem eðli málsins samkvæmt munu Gyðingar vera í minnihluta? Er samþykki Ísraelsmanna virkilega nauðsynlegt sem fyrsta skrefið…?“3
Nú er viðbúið að það verði fyrstu viðbrögð margra að beina spjótum sínum að Ísraelsríki fyrir bág kjör þessara fimm milljóna Palestínumanna, en þeim væri nær að snúa sér frekar að ríkjunum sem hafa hýst þennan hóp undanfarin sjötíu ár. Það gerist nefnilega ekki að sjálfu sér að hópur fólks hýrist áratugum saman í flóttamannabúðum án þess að blandast nærliggjandi samfélögum. Til að viðhalda flóttamannsstöðu þeirra hafa grannríki Ísraels sniðið Palestínumönnunum mjög þröngan stakk, t.d. með því að neita þeim um ríkisborgararétt (að undanskildum afmörkuðum hópi í Jórdaníu).4
Þetta er í samræmi við stefnu Arababandalagsins sem var samþykkt árið 1965,5 en samþykktin kveður hvorki á um að veita flóttamönnunum ríkisborgararétt né almennileg vegabréf, heldur að veita þeim sérstök „ferðaskjöl“, þrátt fyrir að þeir tali sama tungumál og eigi sömu trúarbrögð, matarmenningu og tónlistarmenningu og aðrir íbúar þessara landa, og ættu því annars ekki í neinum vandræðum með að aðlagast þessum samfélögum. Með þessu steingerðist stefna Arababandlagsins, sem hafði þó verið ákveðin miklu fyrr, í kring um stofnun UNRWA (Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna) en skv. Sir Alexander Galloway, fyrrverandi framkvæmdastjóra UNRWA, var þetta gert í þeirri von að flóttamennirnir myndu nýtast „sem vopn gegn Ísraelsríki“ í framtíðinni.6
Ásakanir um þjóðernishreinsanir og aðskilnaðarstefnu
BDS-samtökin halda stöðugt uppi villandi orðræðu um deiluna, meðal annars með því að ásaka yfirvöld í Ísrael ranglega um að stunda þjóðernishreinsanir. Það er auðvelt að hrekja þessa staðhæfingu með því að einfaldlega benda á þá staðreynd að Palestínumönnum á Gazasvæðinu og Vesturbakkanum fjölgar hraðar en Ísraelsmönnum í Ísrael.7 Með fullyrðingum sínum gera samtökin lítið úr raunverulegum þjóðernishreinsunum sem hafa átt sér stað í heiminum. Auk þess eru samtökin á meðal þeirra sem hafa ranglega haldið því fram að kerfisbundin aðskilnaðarstefna sé við lýði í Ísrael en við nánari athugun ætti einnig að vera ljóst að svo er ekki.
Til að byrja með er vert að taka það fram að vopnahléslínurnar á milli Vesturbakkans og Ísraels eru ónothæfar sem landamæri ef ríkin tvö eiga að verða þjóðríki Gyðinga annars vegar og þjóðríki Araba hins vegar. Engu að síður var stuðst við þessar vopnahléslínur þegar Oslóarsamningarnir voru dregnir upp. Fjölmargar byggðir Gyðinga liggja á því svæði sem skv. Oslóarsamningunum myndi að lokum verða ríki Palestínumanna og byggðir Araba er sömuleiðis að finna Ísraels megin. Ferli Oslóarsamninganna rann hins vegar út í sandinn árið 2000 þegar Camp David-fundinum lauk án samkomulags. Skömmu síðar hófst „hið seinna Intifada“, uppreisnarstríð Palestínumanna sem var háð fram til ársins 2005.
Ytri múrinn á Vesturbakkanum var reistur þar sem byggðir Ísraelsmanna mættu byggðum Palestínumanna í nánd við gömlu vopnahléslínurnar. Þetta var gert í kjölfar uppreisnarinnar og eftir að múrinn var reistur snarfækkaði árásum Palestínumanna á Ísraelsmenn. Múrinn á Vesturbakkanum ekki byggður vegna kreddubundinnar kröfu um aðskilnað byggðri á trú eða húðlit, heldur sem viðbrögð við langvarandi ofbeldi byggðu á pólitískri hugmyndafræði. Hver sem hefur komið til Jerúsalem, Tel Avív, Haífa og annara borga í Ísrael veit að þar búa arabískir múslimar, kristnir Arabar, drúsar og Gyðingar í bland og enginn þvingaður aðskilnaður er þar við lýði.
En hvað með aðra veggi og öryggishlið sem hefur verið komið upp á Vesturbakkanum? Algengast er að þeir sem tala um aðskilnaðarstefnu bendi á klofningu borgarinnar Hebron í því samhengi, en þar tala þeir líka af vanþekkingu. Hebron er nefnilega á mörkum hinna eiginlegu palestínsku sjálfstjórnarsvæða og svæðisins sem er enn þá undir stjórn Ísraelsríkis, en það er einmitt arfleifð frá Oslóarsamningunum. Þetta eru því í reynd landamæri tveggja ríkja en ekki aðskilnaður hópa innan sama ríkis. Það er því ekkert athugavert við það að fólk þurfi að gangast undir eftirlit þegar það ferðast þarna á milli.
Aðferðafræði óvænleg til friðar
Af fyrrnefndum dæmum er varla annað að sjá en að BDS-samtökin vilji hindra að vinskapur og viðskiptatengsl myndist milli Palestínumanna og Ísraelsmanna, en það væru einmitt slík tengsl sem væru nauðsynleg til að stuðla að langvarandi friði á svæðinu. Auk þess er þögn samtakanna um bágar aðstæður Palestínumanna í grannríkjum Ísraels til marks um það að þeirra forgangsatriði sé að knésetja Ísraelsríki í framtíðinni frekar en að hjálpa Palestínumönnum í nútíðinni. Aðferðafræði samtakanna virðist vera lituð af algjörri óbeit þeirra á sjálfstæði Gyðinga á svæðinu þar sem þau tala máli þeirra sem aðhyllast algjör yfirráð Arababandalagsins fyrir botni Miðjarðarhafs. Leiðir þessara samtaka eru því líklegri til að leiða til stríðs heldur en friðar og það er eitthvað sem enginn með réttu ráði ætti að vilja.
Við hjá MIFF viljum auk þess undirstrika stuðning okkar við KSÍ og Puma í því að eiga viðskipti við hvaða fyrirtæki eða samtök sem þau kjósa og frelsi þeirra til að lýsa yfir pólitísku hlutleysi í deilunni fyrir botni Miðjarðarhafs.
Ritstjórn MIFF (Með Ísrael fyrir friði) á Íslandi
Heimildir
1 https://www.ksi.is/um-ksi/frettir/frettasafn/frett/2020/05/26/KSI-semur-vid-PUMA/
2 https://camera-uk.org/2020/06/18/bbc-news-misrepresents-previous-us-positions/
3 https://www.counterpunch.org/2003/12/12/relative-humanity-the-essential-obstacle-to-a-just-peace-in-palestine/
4https://www.researchgate.net/publication/228294395_Palestinian_Refugees_in_Arab_States_A_Rights-Based_Approach bls. 39
5 https://www.refworld.org/docid/460a2b252.html
6 https://books.google.is/books/about/Palestine_Refugee_Program.html?id=expH0TE8yOkC&redir_esc=y
Nefndarskýrsla; US Government Printing Office, 1953, bls. 103
7 https://worldpopulationreview.com/countries/palestine-population?fbclid=IwAR25nH9U52vt1rAxidIc1swQ9sJlyg-dDTagZdbfVvQgeMCxmAAY01o5NJk