Search
Hinn 19 ára gamli Omar Abu Laila drap tvo Ísraelsmenn í hryðjuverkaárás síðastliðinn mars. Hann er núna hylltur sem hetja. (Mynd: Undir nafnleynd)

Unglingur drap tvo Ísraelsmenn – er svo hylltur sem hetja

Hryðjuverkaárás gerði hinn 19 ára Omar Abu Laila að hetju í samfélagi Palestínumanna.

Fyrir 17. mars 2019 var Omar Abu Laila ósköp venjulegur, óþekktur 19 ára Palestínumaður. Nú hefur hann verið gerður að hetju og samstöðutákni meðal Palestínumanna. Hvers vegna hefur hann hlotið þann heiður?

Ástæðan er sú að þann 17. mars stakk hann ísraelska hermanninn Gal Keidan til bana, og skaut tólf barna föðurinn Ahiad Ettinger til bana. Tveimur dögum eftir hryðjuverkin skiptist hann á skotum við ísraelska hermenn. Að lokum var hann skotinn og dó „píslarvættisdauða“.

Þetta hefðu getað verið málalokin, en svo var ekki. Strax innan tveggja vikna frá árásinni höfðu Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, og Fatah-hreyfingin gert árásarmanninn Omar Abu Laila að nýju samstöðutákni og fyrirmynd fyrir Palestínumenn, skrifar Nan Jacques Zilberdik, yfirsérfræðingur hjá Palestínsku fjölmiðlavaktinni – Palestinian Media Watch – í grein sem var birt í The Jerusalem Post.

Svona tókst þeim það:

Aðeins þremur dögum eftir að hryðjuverkamaðurinn lést, kom Mahmoud Al-Aloul, næstráðandi Abbas í Fatah-hreyfingunni, opinberlega fram og lýsti því yfir að hinn 19 ára gamli árásarmaður væri ný fyrirmynd ungra Palestínumanna.

Ahiad Ettinger sem var tólfbarna faðir og Gal Keidan eru fórnarlömb hins 19 ára gamla hryðjuverkamanns.

Við erum mjög stolt. Þetta er Omar Abu Laila sem tók sína ákvörðun… Með þessari ákvörðun, er hann fulltrúi ykkar allra, allra ungra Palestínumanna, sagði Al-Aloul í myndskeiði sem var birt á facebook-síðu Fatah-hreyfingarinnar. Mikill fjöldi Palestínumanna fylgist með þessari síðu, sérstaklega unga kynslóðin.

Daginn eftir tilkynnti Fatah-hreyfingin að gata og torg í bænum Brukin hafi verið nefnd í höfuðið á morðingjanum. Til að undirstrika mikilvægi þess að heiðra hann birti hreyfingin ljósmynd af athöfninni og undirskriftir hvers og eins af meðlimum bæjarráðsins. Yfirlýsing bæjarrráðsins var á þessa leið:

Til að heiðra hetjudáð píslarvottsins Omar Amin Abu Laila, hefur bæjarráðið ákveðið að nefna einnig aðalgötuna sem leiðir að torgi Omar Abu Laila, Omar Abu Laila-götu.“

Áður hafði Fatah-hreyfingin reist minnisvarða skreyttum með mynd drápsmannsins og einkennismerki hreyfingarinnar, þar sem hann var hylltur sem píslarvottur. Einnig hefur moska verið látin skipta um nafn og ber nú nafn hryðjuverkamannsins.

Það liðu ekki tvær vikur frá deginum sem Abu Laila drap tvo Ísraelsmenn fram að því að Palestínska heimastjórnin og Fatah-hreyfingin höfðu gert hann að samstöðutákni og fyrirmynd. Þegar hryðjuverkamenn eru hylltir með þeim hætti að götur og þess háttar er nefnt í höfuðið á þeim, birtast tilkynningar í hinum ýmsu dagblöðum, sjónvarpsstöðvum og facebook-síðum á vegum heimastjórnarinnar.

Þetta er sígilt dæmi um hvernig Palestínska heimastjórnin (PA) og Fatah-hreyfingin hvetur Palestínumenn – sérstaklega ungt fólk – til að fremja hryðjuverk og drepa Ísraelsmenn. Þeir telja Palestínumönnum trú um að hryðjuverk séu stysta leiðin til frama. Ef þú drepur Ísraelsmenn verða götur og moskur nefndar eftir þér, minnisvarðar verða reistir þér til heiðurs og fólk mun safnast saman til að votta aðdáun sína. Þú vilt vera nýja hetja Palestínu, skrifar Zilberdik í grein sinni.

Bæjarstjóri Brukin, bæjar sem er á því svæði sem morðinginn kom frá, hefur útskýrt að þeir hafi nefnt götuna eftir honum til að „halda minningu píslarvottsins á lífi“ og að bæjarbúar væru stoltir að hann hafi komið frá þeirra svæði.

Í þessu felst mikil kaldhæðni, því á sama tíma og Fatah-hreyfingin og palestínska heimastjórnin vottuðu þessum hryðjuverkamanni virðingu sína, tók forseti Palestínu Mahmoud Abbas á móti hópi Harvard-nema frá Bandaríkjunum. Abbas sagði nemunum að Palestínska heimastjórnin fordæmi hryðjuverk. „Við munum ekki fara aðra leið en samningaviðræður. Við höfum gert samkomulag við 83 ríki í heiminum … um eitt málefni: Baráttuna gegn hryðjuverkum í heiminum; gegn öllum birtingarmyndum hryðjuverka,“ sagði Abbas í sömu andrá og flokkur hans lofsamaði hryðjuverkamanninn sem hafði drepið tvo Ísraelsmenn nokkrum vikum áður.

Stefna palestínsku heimastjórnarinnar hefur alltaf verið sú að senda friðarboðskap út á við, en önnur skilaboð inn á við. Frammi fyrir eigin þegnum fagna þeir og hvetja til hryðjuverka – þvert á það sem þeir segja útlendingum. Alþjóðasamfélagið og Ísraelsmenn sem hitta Abbas reglulega ættu að hætta að hlusta á það sem Abbas segir og skoða nánar hvernig heimastjórnin og Fatah gerðu óþekktan ungling að palestínsku sameiningartákni og fyrirmynd á einungis tveimur vikum – einungis vegna þess að hann hafði drepið tvo Ísraelsmenn. Það sýnir að hvað sem þeir segja Ísraelsmönnum og útlendingum, munu palestínska heimastjórnin og Fatah-hreyfingin halda áfram að styðja hryðjuverk.

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print