Varnarmálaráðuneytið í Ísrael hefur ráðið ísraelskt sprotafyrirtæki til að meta framleiðendur lækningatækja um heim allan. Sprotafyrirtækið Qlarium, notar kerfi sem byggir á gervigreind (AI) til að gefa mynd af áreiðanleika einstakra birgja, t.d. í Kína. Fyrirtækið safnar upplýsingum á kínversku frá ólíkum miðlum og dregur þær saman í greinargóða skýrslu um einstaka framleiðendur.
Á nokkrum mínútum gerir tæknin ákvörðunaraðilum í innkaupadeild ráðuneytisins kleift að meta áreiðanleika birgjans, hvort hann sé ósvikinn eða ekki og þar af leiðandi hvort vænlegt sé að kaupa af honum vörur eða tæki.
Qlairum greinir upplýsingar í rauntíma frá þriðja aðila, án aðkomu birgisins sem um ræðir. Kerfið sækir upplýsingar frá tugum kínverskra gagnabanka, greinir þær og setur fram í heildstæða greiningarskýrslu.
Varnarmálaráðuneytið notar Qlarium til að finna besta mögulega framleiðandann í hverju tilviki og sneiðir þannig fram hjá óþarfa milliliðum, lélegum tækjum og platfyrirtækjum.
„Samhliða ástandinu með kórónuveiruna þá höfum við rekist á fjölmörg fyrirtæki sem hafa engan trúverðugleika; þ.e. bjóða þjónustu sem þau geta ekki sinnt eða veitt til skamms tíma,“ segir Yaron Shapira, forstjóri Qlarium. „Við höfum tekið ákveðin skref með svona samskipti og vonumst til þess að með svona áreiðanleikakönnunum takist okkur að hraða ferlinu í aðfangakeðjunni og sjúkrahús verði þannig betur í stakk búin til að takast á við COVID-19, efnahagslífið nái sér hraðar og verði komið í fulla framleiðslu fyrr en ella.“
Svo tekið sé dæmi þá samræmdi varnarmálaráðuneytið afhendingu hvarfefna, sem komu til Ísraels fyrir stuttu, og eru fyrir tugþúsundir kórónuveiruprófa auk 30.000 hlífðarklæða fyrir hjúkrunarstarfsfólk, sem komu frá Suður-Kóreu.
„Ég þakka varnarmálaráðuneytinu og flugfélaginu El Al sem við sendum heimshorna á milli, til að flytja hjálpartæki til landsins“, sagði varnarmálaráðherrann Naftali Bennett. „Við höldum áfram að starfa af fullum krafti og á alla mögulega vegu, bæði með framleiðslu hér heima og á alþjóðavettvangi.“
Maayan Jaffe-Hoffman lagði sitt af mörkum við skrif þessarar greinar.
Greinin er þýdd af Hafsteini G. Einarssyni. Upprunalega greinin á ensku er hér.