Search
Benjamín Netanyahu forsætisráðherra ísraels í ræðustól á ísraelska þinginu. (Illustrasjonsfoto: GPO)
Benjamín Netanyahu forsætisráðherra ísraels í ræðustól á ísraelska þinginu. (Illustrasjonsfoto: GPO)

Sílikon Ísrael: Fjárfest í sköpun í stað eyðileggingar

„Í dag, miðað við höfðatölu, er Ísrael í fararbroddi á heimsvísu í rannsóknum og tæknilegri frumkvöðulsstarfsemi. Milli 1991 og 2000, jafnvel fyrir umbæturnar miklu árið 2005, hefur fjárfesting áhættufjármagns – nærri að öllu leiti frá einkaaðilum – aukist sextugfalt, frá um 58 milljónum Bandaríkjadala í 3,3 milljarða dala.

„Á meðan á tuttugustu öldinni stóð, má merkja að ótrúlegt hlutfall snillinga voru Gyðingar, og örlög þjóða frá Rússlandi og vestur eftir hafa að stórum hluta oltið á því hvernig þær hafa farið með Gyðingana sína. Þegar Gyðingar bjuggu í Vínarborg og Búdapest snemma á öldinni, voru þessar borgir í heimsveldi Habsborgara, miðstöðvar hugmyndafræðilegrar grósku og hagvaxtar í heiminum; en þegar Þjóðernissósíalistarnir komust til valda, flúðu Gyðingarnir eða voru drepnir, og þá hvarf hagvöxtur og menning með þeim. Þegar Gyðingar komu til New York og Los Angeles, risu þessar borgir hæst í efnahagslífi og menningu heims. Þegar Gyðingar sluppu frá Evrópu til Los Alamos og, á seinni tímum, til Kísildalsins, þá varð merkjanlegur flutningur á efnahagslegum og hernaðarlegum styrkleika. Þannig hafa fjölmargar þjóðir staðið frammi fyrir mikilvægu siðferðisprófi: Sýna þær aðdáun á, verðlauna og herma eftir minnihluta sem hefur náð mikilvirkum árangri? Eða mun öfundin svo heltaka þær að þær skipuleggja útrýmingu hans?“

Þannig kemst George Gilder, stofnandi og framkvæmdastjóri Gilder Technology Associates, að orði í magnaðri grein um frumkvöðulsandann í Ísrael sem sá sem þetta skrifar getur einungis hvatt lesendur til að lesa í heild sinni við tækifæri. Gilder, sem segir áhuga sinn á frumkvöðulsstarfi í Ísrael megi rekja til ársins 1998, hefur sjálfur fjárfest þónokkuð í tæknifyrirtækjum í landinu, og fylgst með þeim miklu breytingum sem þar hafa átt sér stað og íslensk stjórnvöld stefna nú að því að leika eftir.

Alger umbreyting á skömmum tíma

Hvað gerist þegar lítið ríki tekur á skömmum tíma við tæplega milljón vel menntaðra flóttamanna frá föllnu kommúnistaríki þar sem hæfileikar þeirra voru vannýttir vegna kerfisbundinnar mismununar?

Það eru þær aðstæður sem komu upp í Ísrael á áratugnum eftir fall Sovétríkjanna þegar fjölmargir Gyðingar gátu loksins flutt til fyrirheitna landsins og íbúafjöldinn jókst um fjórðung.

Eða ef málinu er snúið við, hvað gerist þegar lítið ríki með niðurnjörvað og miðstýrt hagkerfi með bullandi verðbólgu og vanþróaðan tækniiðnað fær til liðs við sig tæplega milljón vel menntaðra einstaklinga sem hafa óbeit á slíkum kerfum og vilja ekkert síður en að fá að nýta hæfileika sína til fullnustu?

Að svara þessum spurningum gæti hafa verið markmið Gilder í greininni umtöluðu: „Silicon Israel: How market capitalism saved the Jewish state sem birtist í tímaritinu City Journal fyrir rúmum áratug síðan, en virðist enn algerlega eiga við.  

Sérstaklega þegar haft er í huga, eins og áður kom fram, að íslensk stjórnvöld hafa nýlega ákveðið að horfa til reynslu þessarar þjóðar um hvernig hvetja eigi til nýsköpunar með gjörbreyttri umgjörð um stuðning hins opinbera við nýsköpun. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra nýsköpunarmála kynnti nefnilega í byrjun desember stofnun íslenska hvatasjóðsins Kríu, sem settur er upp að fyrirmynd Yosma-sjóðsins sem starfað hefur í Ísrael frá árinu 1993.

Í grein Gilder er farið yfir í löngu máli hvernig hagkerfið hefur breyst síðustu áratugi í Ísrael, bæði með tilkomu sjóðsins sem og eftir aðrar umbætur á hagkerfinu síðan sovésku flóttamennirnir fóru að streyma til landsins og hafa áhrif.

Í dag eru þeir og afkomendur þeirra uppistaðan eða um helmingur allra starfsmanna í tæknigeira landsins, en einnig var stofnaður sérstakur stjórnmálaflokkur utan um hagsmuni þeirra. Í bandalagi við Netanyahu forsætisráðherra og LIkud flokk hans stuðlaði þessi flokkur að því að brjóta á bak aftur sterk ítök verkalýðsfélaga og verndarstefnu sem Gilder segir hafa kæft hagkerfið. Þess má geta að sá sem þetta skrifar hefur hitt fjölmarga ísraelska Gyðinga, sem rekja rætur sínar til fyrrum Sovétríkjanna og hafa þeir allir einmitt unnið í tæknigeiranum, þar á meðal fyrir Intel, sem nefnt er sérstaklega í greininni.

Auðvitað verða lesendur greinar Gilder að setja þann fyrirvara á að hún er skrifuð fyrir tímaritið City Journal, sem gefið er út af Manhattan stofnuninni. Manhattan stofnunin lýsir sér sem leiðandi hugveitu í hugmyndafræði hins frjálsa markaðar og einblínir meðal annars á hagvöxt og borgarskipulag, en það síðarnefnda er meginumfjöllunarefni tímaritsins.

„Á minna en 25 árum – sem hófust með hóflegum skattaumbótum um miðjan níunda áratuginn – hefur Ísrael tekist að koma af stað umfangsmestu umbreytingu í sögu hagfræðinnar, frá ómerkum eftirbáti í hópi iðnríkja til upplýsts forysturíkis,“ segir Gilder meðal annars í greininni.

„Í dag, miðað við höfðatölu, er Ísrael í fararbroddi á heimsvísu í rannsóknum og tæknilegri frumkvöðulsstarfsemi. Milli 1991 og 2000, jafnvel fyrir umbæturnar miklu árið 2005, hefur fjárfesting áhættufjármagns – nærri að öllu leiti frá einkaaðilum – aukist sextugfalt, frá um 58 milljónum Bandaríkjadala í 3,3 milljarða dala. Fyrirtækjum sem ísraelskir framtakssjóðir hafa komið á fót fjölgaði úr 100 í 800; og tekjur í ísraelska upplýsingatæknigeiranum jukust úr 1,6 milljarði dala í 12,5 milljarða dala. Árið 1999, hafði Ísrael náð því að verða einungis eftirbátur Bandaríkjanna í fjárfestingum einkaaðila sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Og landið var leiðandi í hlutfalli hagvaxtarins sem rekja mætti til tæknifyrirtækja: 70 prósent.“

Í grein Gilder er komu rússnesku innflytjendanna ekki eingöngu þakkað fyrir þennan árangur, heldur einnig bæði beinum áhrifum bandarískra ráðamanna sem hafi ýtt á umbætur í landinu, í samvinnu við Netanyahu, sem og einnig komu bandarískra fjárfesta og frumkvöðla sem hafa fundið þar í hópi sovésku innflytjendanna gott vinnuafl með tækniþekkingu.

„Í dag [árið 2009 þegar greinin var skrifuð, en það virðist eiga að miklu leyti við enn í dag] er tækniforysta Ísraels jafnvel enn meiri. Könnun frá 2008 meðal fjárfestingarsjóða gerð af Deloitte & Tuche sýnir að á sex lykilsviðum – fjarskiptum, tölvuflögum, hugbúnaði, líftæknilyfjum, heilbrigðistækjum og hreinni orku – er Ísrael einungis í öðru sæti á eftir Bandaríkjunum í tæknilegri frumkvöðulsstarfsemi. Þýskaland, sem er tíu sinnum fjölmennara, stendur til jafns við Ísrael. Árið 2008 komu framtakssjóðir á fót 483 fyrirtækjum í Ísrael með rétt yfir tveggja milljarða dala fjárfestingu á meðan í Þýskalandi verða til um 100 fyrirtæki með stuðningi framtakssjóða ár hvert,“ segir einnig í greininni og tekið fram að ef horft væri til höfðatölu færi Ísrael langt fram úr hinum ríkjunum.

Dreymir um frumkvöðlasamstarf við Araba

Undir lok greinarinnar gerir Gilder loksins samanburð við stöðuna á Gaza þar sem er til staðar svipað loftslag og álíka fagrar strandir og í Ísrael. Í því samhengi spyr hann sig hvort íbúar þess svæðis gætu gengið í lið með Ísrael við að búa til Revíu frumkvöðulsstarfs á gullnum sandströndum.

„Til þess þyrftu þeir að snúa baki við heimsmynd núllsummutröllasagna og draumóra um hefnd heilags stríðs. Þá myndu þeir uppgötva að helsti bandamaður þeirra væri maður sem hefði lengi verið lýst sem þeirra hatrammasta óvini, maður sem hafi áratugum saman leitt baráttuna við að frelsa ísraelska Gyðinga frá sjálfseyðingu sósíalískrar öfundar, sem nú bjóðist til að taka Palestínu, og jafnvel alla Arabíu með í sama ferðalag.“

Eins og kunnugir lesendur átta sig á er Gilder þar að vísa til Benjamin Netanyahu, sem enn situr sem forsætisráðherra í Ísrael, nú rúmum áratug seinna, og segir hann hafa þá sýn að Ísrael verði fjármálamiðstöð sem geti umbreytt hagkerfum Mið-Austurlanda.

„Ísrael gæti orðið Hong Kong eyðimerkurinnar. Á sama hátt og Hong Kong á endanum endurmótaði kínverskt efnahagslíf í eigin mynd þegar Deng Xiaoping hermdi eftir frjálsu hagkerfi þess, gæti Ísrael orðið afl til að frelsa hagkerfi Mið-Austurlanda, og náð til Palestínumanna og annarra Araba með efnahagslegum tækifærum. Eftir allt saman, þá var það ísraelsk framtakssemi sem dró araba til Palestínu. Milli 1967, þegar Ísrael tók fyrst við stjórn yfir Vesturbakkanum og Gazaströndinni og 1987, þegar fyrsta Intifata-uppreisnin var háð, voru þessi tvö svæði með einna mestan hagvöxt allra svæða á jörðinni. Verg landsframleiðsla blés út um 30 prósent á ári í heilan áratug, þar sem fólksfjöldi Arabanna nærri þrefaldaðist, sex nýjum háskólum var komið á fót og lífslíkur araba jukust frá 43 árum í 74.

Netanyahu hefur lengi trúað því að friðarferlið eins og við þekkjum það nú sé aukaatriði, það einblíni á handfylli af málum sem einungis auki reiðina og viðhaldi átökum. Á sama tíma bíði sannur friður – og vonin um ásættanleg lífskjör – þess að vera gripin af þeim Palestínumönnum og Ísraelsmönnum sem eru tilbúnir, og hafi í auknum mæli getuna, til að fjárfesta í sköpun í stað eyðileggingar.“

Það hljóta að vera lokaorð sem allir geta tekið undir.

 

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print