Nokkrum klukkustundum áður en yfirvöld í Eþíópíu lokuðu landamærunum aðfaranótt þess 24. mars, fengu fjórtán eþíópískar fjölskyldur – 72 einstaklingar – að taka flug til Ísraels. Fjölskyldurnar tilheyra hópi fólks sem kallast „Falash Mura“ en það eru Gyðingar sem hafa gerst kristnir á undanförnum 200 árum, en hafa undanfarna áratugi snúið í auknum mæli aftur til gyðingdóms. Allir eiga þeir ættingja í Ísrael, en þar búa um 150.000 Gyðingar af eþíópískum uppruna. Verkefnið var meðal annars fjármagnað af JFNA (Gyðinglegum samfélögum N-Ameríku), Keren Hayesod (Stofnsjóði Ísraels) og Kristna sendiráðinu í Jerúsalem.
Innflutningsumsókn 398 eþíópískra Gyðinga til Ísraels var samþykkt þann 9. febrúar síðastliðinn og 43 þeirra komu til Ísraels í lok febrúar. Komu þeirra sem biðu enn þá í Eþíópíu var hins vegar frestað þann 15. mars af ótta við útbreiðslu kórónuveirunnar. Sú ákvörðun var aftur á móti dregin til baka nokkrum dögum síðar og ákveðið var að hverjum þeim sem hefði gilda vegabréfsáritun væri heimilt að flytja til Ísraels.
Þegar nýbúarnir komu til Ísraels fóru þeir í 14 daga einangrun líkt og aðrir sem hafa ferðast til landsins undanfarið, en það er varúðarráðstöfun gegn faraldrinum. Farfuglaheimili hefur verið tekið til notkunar í þeim tilgangi, en þar munu nýbúarnir dvelja ásamt starfsmönnum Umboðsstofnunar Gyðinga (The Jewish Agency) sem munu aðstoða þá á meðan einangruninni stendur. Að henni lokinni munu eþíópísku Gyðingarnir ganga í gegn um aðlögunarferli þar sem þeim verður hjálpað að laga sig að ísraelsku samfélagi.
Umboðsstofnunin staðfesti að tveir eftirstandandi hópar eþíópískra Gyðinga sem áttu upphaflega að koma til Ísraels 25. og 31. mars myndu fá inngöngu í landið síðar, þegar eþíópísk yfirvöld hafa aftur opnað fyrir milliríkjasamgöngur.