Search
Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sólveig Anna Jónsdóttir og Drífa Snædal. Mynd: Skjáskot af vefsíðu Hringbrautar

Drottningarviðtal á Hringbraut, fyrri hluti

Það sem vakti athygli okkar frá byrjun var að Sigmundur Ernir spyr iðulega spurninga af nánast hlægilegri ónákvæmni....

Undanfarnar tvær vikur hefur deilan á milli Ísraels og Palestínu enn og aftur ratað á milli tannanna á fólki. Fjöldahreyfing sem sinnir að jafnaði alþýðumálum innanlands hefur seilst inn á þetta svið, sem ætti annars að falla undir utanríkismál. Drífa Snædal, forseti ASÍ, notaði vefsíðu ASÍ sem persónulegt málgagn í vikunni til þess að vekja athygli á BDS-samtökunum, en þau samtök hvetja meðal annars til sniðgöngu gegn Ísraelsríki. Myndin sem hún dregur upp af samtökunum gefur til kynna að liðsmenn þeirra séu einhvers konar friðelskandi hippar, og reyndar er slíkt fólk að finna meðal fylgismanna samtakanna á Vesturlöndum, en þó ekki á meðal hátt settra meðlima samtakanna. Undir friðsamlegu yfirborðinu leynist því miður hugmyndafræði sem er ekki til þess fallin að stuðla að friði.

Viðtalið sjálft er rétt rúmar 13 mínútur að meðtöldum inngangi spyrils, en á þessum stutta tíma náði ótrúlegt magn af rangfærslum, dylgjum og ofureinföldunum að komast til skila til áhorfenda, og virtust spyrill og viðmælendur samstillt um það sem þau ætluðu að koma á framfæri. Þau atriði sem kröfðust ítarlegra andsvara voru svo mörg að það þurfti að skipta þessari grein með athugasemdum okkar í tvo hluta. Til að taka vandlega fyrir allar rangfærslurnar sem birtust í viðtalinu þurfti einfaldlega meira en eina grein. Verið því endilega vakandi fyrir seinni hlutanum, því þar er mikið af bitastæðu efni.

Hvar er ísraelska þingið?

Í kjölfar yfirlýsingar Drífu var henni boðið í þáttinn „Tuttuguogeinn“ á Hringbraut, undir stjórn Sigmundar Ernis Rúnarssonar, í dagskrárlið sem væri vel við hæfi að kalla Drottningarviðtal. Með í för slóst Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sem er aðildarfélag ASÍ.

Það sem vakti athygli okkar frá byrjun var að Sigmundur Ernir spyr iðulega spurninga af nánast hlægilegri ónákvæmni, til dæmis með því að minnast trekk í trekk á „yfirvöld í Tel Avív“ þegar spurning hans varðar ísraelska þingið. Þingið er hins vegar ekki í Tel Avív heldur er það í vesturhluta Jerúsalem og hefur verið þar frá árinu 1949. Vesturhluti Jerúsalem er ekki umdeildur skv. neinum alþjóðastofnunum, heldur tilheyrir hann því svæði sem 163 ríki Sameinuðu þjóðanna viðurkenna sem svæði Ísraels, þ.á.m. íslensk yfirvöld.

Hvað varð um Palestínsku heimastjórnina?

Það er áberandi í gegn um allt viðtalið að hvorki spyrillinn né gestirnir virðast gera sér grein fyrir því að Palestínumenn hafi haft sín eigin yfirvöld (Palestínsku heimastjórnina) síðan 1994 og að Palestínumenn á Vesturbakkanum séu þegnar þeirra með sín eigin palestínsku vegabréf. Ísraelskum yfirvöldum er reglulega kennt um vandamál sem eru ýmist á ábyrgð palestínsku heimastjórnarinnar (PA) eða samfélagsgerðar palestínsku sjálfstjórnarsvæðanna.

Snemma í viðtalinu berst talið til Palestínumanna sem sækja vinnu í Ísrael. Í því samhengi segir Drífa í hneykslunartóni: „Það er allt leyfisskylt þarna, allt saman!“ Þegar Palestínumenn á Vesturbakkanum sækja vinnu í Ísrael eru þeir í reynd erlendir verkamenn, og það er einfaldlega ekkert skrítið við það að verkamenn sæki um atvinnuleyfi þegar þeir vinna í öðru landi. Sigmundur Ernir tekur gagnrýnislaust undir og kallar þetta á æsifréttalegan hátt „skrímslaskriffinnsku“.

Sólveig Anna bætir síðan við: „Ísraelsríki … frá upphafi, hefur praktíserað til dæmis þá stefnu gagnvart fólkinu í Palestínu að borga þeim lægri laun.“ Þessi furðulega þráhyggja yfir ísraelskum yfirvöldum hefur náð hátindi sínum hér, því Ísraelsríki borgar engum nema opinberum starfsmönnum laun, og viðhefur því enga slíka stefnu gagnvart þeim Palestínumönnum sem eru ekki einu sinni ísraelskir ríkisborgarar. Í viðtalinu var heldur ekkert minnst á þær tvær milljónir Palestínumanna sem eru ísraelskir ríkisborgarar og þurfa ekki sérstakt atvinnuleyfi.

Fleira um atvinnumál og menntamál

Í áframhaldandi samtali um atvinnumál fullyrðir Drífa: „Við erum að tala um 40% atvinnuleysi… 70% atvinnuleysi á Gaza“ Það er erfitt er að segja hvaðan Drífa hefur þessar upplýsingar, en þær eru ekki í samræmi við þau gögn sem eru okkur aðgengileg. Samkvæmt upplýsingum frá The World Bank, þá er 15% atvinnuleysi á Vesturbakkanum og 47% atvinnuleysi á Gaza.1

En Drífa bætir við: „Við erum að tala um að atvinnuþátttaka kvenna er bara 20%.“ Hún á hér við konur bæði á Vesturbakkanum og Gaza. Eins og áður kom fram er hvergi minnst á palestínsk yfirvöld í viðtalinu svo það er ekki annað að sjá en að hún sé að kenna Ísraelsríki um atvinnukjör palestínskra kvenna á Vesturbakkanum. En það er enn ein rangfærslan, Ísraelsmenn hafa ekkert með málið að gera. Samfélag Palestínumanna byggist á íhaldssömum hugmyndum um hlutverk kynjanna2 og þær eru ástæðan fyrir lágri atvinnuþátttöku palestínskra kvenna.

Að svo búnu byrjar Drífa að reyna að selja okkur hugmyndina um háþróaða menningu Arabaheimsins: „Það er náttúrulega þessi menning hjá Aröbum… mikilvægi menntunar, sem er jafnvel meiri en á flestum öðrum stöðum.“ Því miður er þessi fullyrðing ekki heldur á rökum reist því menntun er mjög ábótavant í flestum Arabalöndunum.3 Palestínumenn koma að vísu frekar vel út í samanburði við aðra Araba, og það vekur upp þá spurningu hvernig þeir geti haldið uppi jafn góðum menntastofnunum og raun ber vitni ef þeir hafa það raunverulega svona slæmt.

Aldagamlar kreddur

Sigmundur Ernir dregur aldrei í efa nokkuð af því sem dömurnar segja, né spyr hann nokkru sinni gagnrýnna spurninga, heldur þvert á móti blæs hann út það sem þær segja og spyr spurninga sem byggjast greinilega á hans eigin ranghugmyndum. Á einum tímapunkti tekur hann fram að hann ætli sér að forðast alhæfingar í viðtalinu og segir: „við erum ekki að tala um Gyðinga, við erum ekki að tala um Ísraelsmenn…“ en nokkrum mínútum síðar segir hann: „Af hverju komast þeir upp með þetta? Er það vegna þess að Bandaríkjamenn eru svona háðir fjármagni frá þessari þjóð?“

Í þessari leiðandi spurningu felst gróf alhæfing um Gyðinga/Ísraelsmenn sem ríka þjóð (þó hann hafi áður gefið til kynna að þau ætluðu ekki að alhæfa) sem hafa yfirvöld annara landa á valdi sínu. Þessi hugmynd byggist á aldagömlum kreddum um valdagræðgi Gyðinga og er ein af þeim átyllum sem hafa verið notaðar við ofsóknir gegn þeim og hafa valdið dauða milljóna þeirra í gegn um tíðina. Sólveig Anna tekur síðan undir þessi orð Sigmundar þegar hún segir: „Þeir sem að stýra flæði fjármunanna og svo framvegis, þeir á endanum náttúrulega fara með öll völdin,“ og er erfitt að lesa annað úr orðum hennar en að hún aðhyllist þessa sömu hugmynd.

Persónuleg sjónarmið Drífu Snædal

Það er gríðarlega alvarlegt að almennur miðill eins og Hringbraut haldi blygðunarlaust uppi slíkri orðræðu án nokkurs mótvægis frammi fyrir alþjóð. Sömuleiðis er í hæsta lagi óviðeigandi að fjöldahreyfing eins og ASÍ sé notuð til að miðla persónulegum pólitískum sjónarmiðum Drífu Snædal. En það er hinn mikli fjöldi rangfærslna og augljóst þekkingarleysið sem birtist í viðtalinu sem kom mest á óvart. Í þessari grein fjölluðum við einungis um hluta viðtalsins, en í seinni hluta greinarinnar munum við fara nánar í eðli BDS-samtakanna og stjórnmála á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum. Fylgist endilega með!

 

Skráðu þig í félagið núna ef þú hefur fengið nóg af röngum og órökréttum upplýsingum um Ísrael. Hjálpaðu okkur að rétta umræðuna og stuðla að friði milli Ísraela og Palestínumanna!

Heimildir

  1. https://www.worldbank.org/en/country/westbankandgaza/overview
  2. https://www.researchgate.net/publication/242282049_Gender_Palestinian_Women_and_Terrorism_Women’s_Liberation_or_Oppression
  3. http://arabcenterdc.org/policy_analyses/the-state-of-education-in-the-arab-world/
Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print