Search
Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sólveig Anna Jónsdóttir og Drífa Snædal. Mynd: Skjáskot af vefsíðu Hringbrautar
Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sólveig Anna Jónsdóttir og Drífa Snædal. Mynd: Skjáskot af vefsíðu Hringbrautar

Drottningarviðtal á Hringbraut, seinni hluti

Á tímum kalda stríðsins skipulögðu Sovétríkin ferðir þangað fyrir Vestræna kommúnista. Þetta voru fyrir fram útreiknaðar áróðursferðir þar sem Vesturlandabúarnir sáu nákvæmlega það sem yfirvöld vildu að þeir sæju. Markmiðið var að mála sem bjartasta mynd af kommúnistaveldinu þar sem vosbúðin var allt umlykjandi.

BDS-samtökin standa fyrir svipuðum ferðum til ákveðinna svæða á Vesturbakkanum en undir öfugum formerkjum. Þau sýna fólki hrörlegustu svæðin og mála eins dökka mynd af lífi Palestínumanna og mögulegt er. Á því er einföld skýring: Langtímamarkmið BDS-samtakanna er að fá almenning á Vesturlöndum til að samþykkja þá hugmynd að Ísrael verði fjarlægt af landakortinu – að eina Gyðingaríkið í heiminum breytist einfaldlega í Arabaríki nr. 22. Hægt væri að vitna í fjölmarga hátt setta meðlimi hreyfingarinnar til að sýna fram á það, en líklega liggur best við að benda á orð Omars Barghouti, formanns samtakanna, þar sem hann algjörlega hafnar tveggja ríkja lausninni og lýsir yfir vilja sínum til að þvinga fram sína eigin lausn:

„…hvers vegna myndu ísraelskir Gyðingar samþykkja þetta sameinaða ríki, þar sem eðli málsins samkvæmt munu Gyðingar vera í minnihluta? Er samþykki Ísraelsmanna virkilega nauðsynlegt sem fyrsta skrefið…?“1

Í nýlegu viðtali á Hringbraut sagði Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands „að ASÍ ætti að hafa milligöngu um að fólk hefði tækifæri til að fara þarna og kynna sér…“ Maður veltir fyrir sér hvers vegna hún telur það vera í verkahring félags íslensks alþýðufólks að hafa milligöngu um slíkar áróðursferðir. En hver sem fer á eigin vegum að heimsækja borgirnar Nablus, Jenin og Ramallah, sem eru allar undir stjórn Palestínumanna, mun fljótt sjá að þær bókstaflega iða af lífi og fólkið þar hefur aðgang að öllum nauðsynjum og meira til.

Engar friðarviðræður?

Þátturinn „Tuttuguogeinn“ er í umsjón Sigmundar Ernis Rúnarssonar og síðastliðinn föstudag fékk hann Drífu og Sólveigu Önnu, formann Eflingar, til að tala um nýlega stuðningsyfirlýsingu Drífu við BDS-samtökin. Viðtalið er einhliða, fullt af alhæfingum og rangfærslum og enginn er til staðar til að mótmæla neinu sem sagt er.

Á tíundu mínútu viðtalsins fullyrðir Drífa: „Það hafa ekki verið friðarviðræður þarna síðan í rauninni Oslóarsamkomulagið var gert fyrir tuttugu plús árum síðan.“ Það hefur greinilega vantað nokkrar blaðsíður í sögubækurnar hennar því að frá Oslóarsamkomulaginu hafa fjölmargar friðarviðræður á milli Ísraelsmanna og Palestínumanna hafa átt sér stað:

Hebron-samkomulagið var undirritað í janúar 1997; Wye River fundurinn var haldinn í október 1998; Camp David ráðstefnan var haldin í júlí árið 2000 en það var einmitt á henni sem Palestínumönnum var boðið 96% af öllu umdeilda svæðinu sem sjálfstætt ríki. Palestínumenn höfnuðu því tilboði; Taba viðræðurnar áttu sér stað í janúar 2001; Beirút ráðstefnan var haldin í mars 2002; frá desember 2006 til ársins 2009 átti sér stað fjöldi friðarviðræðna, þar á meðal vopnahléssamkomulagið milli Ísraels og Hamas 2008 fyrir milligöngu Egypta; frá september 2010 og fram að júní 2011 voru fjölmargar friðarviðræður undir handleiðslu Barack Obama; og svo enn fleiri frá júlí 2013 og fram að apríl 2014 undir handleiðslu John Kerry.2

Við viljum ekki ætla Drífu það að hafa viljandi leynt þessum upplýsingum, en án þessara upplýsinga mun hinn almenni áhorfandi sjá fáa möguleika í stöðunni fyrir utan það að styðja sniðgöngusamtökin sem viðtalið snýst um.

Friðsömu Palestínumennirnir

Það er reyndar mesta furða að allar þessar friðarviðræður hafi hingað til skilað svona litlum árangri með hliðsjón af þessum orðum Drífu: „…Palestínumenn eru upp til hópa mjög friðsöm þjóð, og reyna að forðast ofbeldi.“ Það er almennt varhugavert að tjá sig um hvernig heilar þjóðir eru „upp til hópa“ en til að fá einhverja hugmynd um almennt viðhorf Palestínumanna gæti verið gagnlegt að skoða hvernig þeir kusu í síðustu kosningum.

Eftir að Palestínumenn fengu sín eigin yfirvöld hafa þeir tvisvar kosið til þings – í janúar 1996 og í sama mánuði 2006. Þó það sé rúmur áratugur síðan gætu kosninganiðurstöðurnar frá 2006 gefið til kynna hversu stór hluti Palestínumanna er fylgjandi friði og reynir „að forðast ofbeldi.“

Í kosningunum hlutu Hamassamtökin tæp 44,5% atkvæða á meðan Fatahhreyfingin hlaut tæp 41,5% atkvæða. Hreyfingarnar háðu síðan innbyrðis stríð sem endaði með yfirtöku Hamas á Gazasvæðinu á meðan Fatah hélt yfirráðum yfir Vesturbakkanum. Samtals höfðu þessar tvær hreyfingar því stuðning 86% kjósenda. Þátttakan var að meðaltali um 75% sem þýðir að um 64,5% kosningabærra Palestínumanna kaus þessi tvö framboð. En fyrir hvað standa þau?

Stofnsáttmáli Hamas og ástandið á Gaza

Hamassamtökin eru samtök herskárra Íslamista sem eru á lista Bandaríkjanna, Evrópusambandsins, Japans, Jórdaníu, Kanada og fleiri ríkja yfir hryðjuverkasamtök. Þau klufu sig frá Bræðralagi múslima (Muslim Brotherhood) sem eru einnig talin til hryðjuverkasamtaka af ýmsum ríkjum. Í stofnsáttmála sínum frá 1988 er vitnað í ákveðna Hadíðu (Hadith) (Hadíður eru tilvitnanir í Múhammeð spámann og eru taldar misáreiðanlegar, m.a.s. af mörgum múslimum) en þar segir í sjöundu grein:

„Dómsdagur mun ekki koma fyrr en múslimarnir berjast við Gyðingana og drepa þá, þegar Gyðingarnir fela sig á bak við steina og tré. Steinarnir og trén munu segja: Ó múslimar, ó Abdúlla (þjónn Allah), það er Gyðingur á bak við mig. Komdu og dreptu hann.“ Tveir hlekkir sem fela í sér sjálfstæðar þýðingar sáttmálans eru hér að neðan.3, 4

Það er ekki hægt að segja að þetta sé friðsamlegt plagg. Sú staðreynd að 44,5% eða rúmlega þriðjungur kosningabærra Palestínumanna (miðað við 75% þátttöku) kaus Hamassamtökin gefur sterklega til kynna að sá hópur hafi ekki frið í huga gagnvart Gyðingum. Hugsið aðeins um þetta; þriðjungur kosningabærra Palestínumanna kaus samtök með þessi orð í stofnsáttmála sínum!

Á einum tímapunkti lætur Sólveig Anna eftirfarandi orð falla um Gazasvæðið: „Vandamálið á Gaza er kannski ekki skortur á fjármunum, heldur umsátrið og hryllingurinn sem að þar er við lýði.“ Flestir íbúar Gaza búa því miður við skert lífsgæði, en það eru Hamassamtökin og önnur öfgasamtök á svæðinu sem bera þyngstu sökina á því. Ísraelsk yfirvöld drógu alla Gyðinga þaðan árið 2005 í þeirri von að Palestínumennirnir sem þar bjuggu myndu einbeita sér að því að byggja upp eigið samfélag í stað þess að hatast út í nágranna sína. En það var andstæða þess sem gerðist. Meirihluti íbúa Gaza kaus Hamas yfir sig. Stöðugar árásartilraunir Hamasliða – meðal annars tíðar flugskeytaárásir á Ísrael – hafa valdið einangruninni á Gaza frá árinu 2007.5

Fatahhreyfingin – friður í orði en ekki á borði

En hvað með Fatahhreyfinguna? Hún er hryggjarstykkið í PLO (Palestínsku frelsishreyfingunni) sem kom til móts við Ísraelsmenn þegar áðurnefnt Oslóarsamkomulagið var undirritað. Hafa liðsmenn hennar ekki frið í huga? Það er vitað mál að Fatahhreyfingin er ekki jafn öfgafull og Hamassamtökin. En það þarf samt ekki að grafa djúpt til að komast að því að Oslóarsamkomulagið (þar sem báðir aðilar samþykktu að stofnuð yrðu tvö ríki) var af hálfu PLO samþykkt aðeins í orði en ekki á borði.

Einkennismerki bæði PLO og Fatah sýna mynd af öllu landssvæðinu sem fyrirhuguðu yfirráðasvæði palestínskra yfirvalda og byggja á slagorðinu „Frjáls Palestína frá ánni að sjónum!“ Með öðrum orðum er ekki gert ráð fyrir neinu svæði fyrir Ísrael. Einkennismerkjunum og slagorðinu hefur aldrei verið breytt í samræmi við samkomulagið. Muhammed Dahlan, hátt settur meðlimur Fatah, fullyrti í viðtali árið 2009 að hreyfingin hafi raunar aldrei samþykkt tilvistarrétt Ísraelsríkis. Auk þess hefur Mahmoud Abbas, forseti Palestínsku heimastjórnarinnar (PA) og formaður Fatah, í gegn um tíðina haldið á lofti andgyðinglegum samsæriskenningum í orði og riti, nú síðast árið 2018.6  Ekki benda orð þessara manna til þess að þeir vilji raunverulega frið við Ísrael eða Gyðinga.

Hver er aðferðafræði BDS-samtakanna?

Þegar töluvert er liðið á viðtalið ýjar Drífa að því að verklag BDS-samtakanna sé ekki alltaf sársaukalaust fyrir Palestínumenn: „Þó að það kannski komi niður á fólki til skamms tíma, að þá sér fólk það sem einu varanlegu lausnina…“ Þetta er upplýsandi athugasemd, því aðferðir BDS-samtakanna hafa einmitt komið illa niður á Palestínumönnum. Til dæmis, þegar verksmiðjum Sodastream á Vesturbakkanum var lokað misstu hundruð Palestínumanna vinnuna.

Af þessu er ekki annað að sjá en að BDS-samtökin vilji hindra að vinskapur og viðskiptatengsl myndist milli Palestínumanna og Ísraelsmanna, sem væri einmitt það sem er líklegast til að stuðla að langvarandi friði. Samtökin reiða sig á villandi framsetningu sem byggir á marxískum kenningum þar sem allir Ísraelsmenn eru skilgreindir sem auðvaldið og allir Palestínumenn eru skilgreindir sem öreigarnir, í þeim tilgangi að höfða til Vesturlandabúa sem eru á þessari línu og það er ekki annað að sjá en að það hafi heppnast.

Þessi hugmyndafræði endurspeglast m.a. í orðum Drífu: „Múrinn, hann var svona óvart gerður þannig að fara inn á land Palestínumanna akkúrat þar sem auðlindirnar eru.“ En múrinn var hvorki byggður „óvart“ né viljandi með auðlindir í huga. Hann var reistur þar sem byggðir Ísraelsmanna mættu byggðum Palestínumanna í kjölfar uppreisnar sem er nefnd „Hið seinna Intifada“. Eftir að múrinn var reistur snarfækkaði árásum Palestínumanna á ísraelska borgara. Sambærilegan múr er að finna víða í Norður-Írlandi til að skilja að byggðir kaþólikka og mótmælenda, sem höfðu áður staðið í hatrömmu stríði. Ekki heyrir maður neinn kvarta undan þeim múr.

Þessar áherslur eru einkennandi fyrir fólk sem aðhyllist þessa hugmyndafræði. Það eru engar staðbundnar lausnir nógu góðar, engar málamiðlanir nógu góðar og það er engin tillaga nógu góð nema í henni felist einhver allsherjarbylting. En sagan hefur sýnt að slíkar byltingar heppnast aldrei vel.
Undir lok viðtalsins viðurkennir Sólveig: „Vandamálið … er risavaxið, ótrúlega flókið og margþætt.“ Þessari fullyrðingu er auðvelt að vera sammála, en hún stoðar lítið í viðtali sem virðist aðeins hafa haft þann tilgang að vekja athygli almennings á BDS-samtökunum svo þau geti haldið áfram að tryggja áframhaldandi togstreitu milli Ísraelsmanna og Palestínumanna og á sama tíma að boða vafasama pólitíska hugmyndafræði sína.

ASÍ er fjöldahreyfing sem er fulltrúi stórs hluta íslenskrar alþýðu. Það er í hæsta lagi óviðeigandi af hálfu forseta ASÍ að nota hreyfinguna sem málgagn til þess að mæla fyrir ákveðinni pólitískri stefnu og hugmyndafræði sem margir þeirra sem tilheyra hreyfingunni eru eflaust ósammála – þeirra á meðal við sem erum í stjórn MIFF!

Skráðu þig í félagið núna ef þú hefur fengið nóg af röngum og órökréttum upplýsingum um Ísrael. Hjálpaðu okkur að rétta umræðuna og stuðla að friði milli Ísraela og Palestínumanna!

Heimildir

1 https://www.counterpunch.org/2003/12/12/relative-humanity-the-essential-obstacle-to-a-just-peace-in-palestine/

2 https://www.jewishvirtuallibrary.org/history-and-overview-of-israel-palestinian-negotiations

3 https://avalon.law.yale.edu/20th_century/hamas.asp

4 https://www.palestine-studies.org/sites/default/files/jps-articles/2538093.pdf

5 https://mtm.fmy.mybluehost.me/wordpress/miffis/wp/israel/2019/05/31hver-er-hin-raunverulega-astaeda-fyrir-einangrun-gazasvaedisins.htm?fbclid=IwAR1P_FvERgR_Wc0urWXhf3u-ONRRtc8rGC5E9TRBmTgBnsLFBKZQZAInKeo

6 https://www.bbc.com/news/world-middle-east-43967600

7 https://www.telegraph.co.uk/news/worldnews/middleeast/israel/12178844/Last-Palestinians-lose-SodaStream-jobs-after-West-Bank-factory-closes.html

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print