Search
Ísraelskir lögreglumenn á vettvangi árásanna í Bnei Brak. Mynd: Avshalom Sassoni/Flash90

Fimm myrtir í hryðjuverkaárás í Ísrael – þriðja árásin á tveimur vikum

Fimm voru myrtir í hryðjuverkaárás í ísraelsku borginni Bnei Brak í gær. Þetta er þriðja hryðjuverkaárásin sem er framin á innan við tveimur vikum og hafa samtals ellefu látist í árásunum, auk hryðjuverkamannanna.

Fórnarlömbin fimm í Bnei Brak voru:

  • Major Amir Khoury, 32 ára ísraelsk-arabískur lögreglumaður frá Galíleu. Honum tókst að skjóta hryðjuverkamanninn til bana, þrátt fyrir að vera særður. Hann lést síðar úr sárum sínum
  • Yaakov Yisrael Shalom, 36 ára Gyðingur af jemenskum ættum og fjögurra barna faðir.
  • Avishai Yehezkel, 29 ára Gyðingur og nemi við trúarlegan skóla (yeshiva). Hann var skotinn á meðan hann skýldi tveggja ára syni sínum sem lifði árásina af. Hann lætur einnig eftir sig ófríska eiginkonu.
  • Dimitri Mitrik, 23 ára úkraínumaður sem starfaði í Ísrael.
  • Viktor Sorokopot, 38 ára úkraínumaður sem starfaði í Ísrael. Hann lætur eftir sig eiginkonu.

Hryðjuverkamaðurinn var Palestínumaður frá borginni Jenín á Vesturbakkanum.

Það þykir nokkuð óvenjulegt að Mahmoud Abbas, forseti Palestínsku heimastjórnarinnar, hafi fordæmt árásina en fram að þessu hefur hann ýmist setið þegjandi hljóði eða lýst yfir stuðningi við hryðjuverkaárásir.

Hamassamtökin hafa lofsamað árásina sem „hetjulega aðgerð“ en hafa þó ekki lýst yfir ábyrgð á árásinni. Samtökin Palestínskt heilagt stríð (PIJ) og Hezbolla hafa einnig fagnað árásinni en, líkt og Hamas, hafa þau ekki lýst yfir ábyrgð á henni.

Hryðjuverkaárásirnar undanfarnar vikur virðast vera viðbrögð við heimsókn fulltrúa fjögurra Arabaríkja – Barein, Egyptalands, Marokkó og Sameinuðu arabísku furstadæmanna – til Ísraels.

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print