Það ríkir sannkölluð hátíðarstemning í hafnarborginni Haífa þessa dagana. Tvær síðustu helgarnar í desember iðar borgin af lífi á meðan íbúar borgarinnar halda hátíð sem fagnar trúarlegum fjölbreytileika í Ísrael, og dagana 19.-28. desember mun fólk geta sótt ýmsa viðburði sem tengjast hátíðinni. Hátíðin er einfaldlega kölluð „hátíð hátíðanna“ og var fyrst haldin árið 1993, en tilgangur hennar er að stuðla að friði á milli trúarhópanna. Tímasetningin var valin vegna þess að bæði jólin og hanúkka eru haldin á þessum árstíma, þótt uppruni hátíðanna sé ólíkur. Einnig er gefinn gaumur að öðrum trúarsamfélögum í borginni – t.d. drúsum og múslimum en allur gangur getur verið á því hvort einhver af hátíðum þeirra beri upp á þessum tíma þar sem dagatal þeirra byggist ekki á gangi jarðar um sólina. Það líða u.þ.b. 33 ár á milli þess að hátíðir þeirra beri aftur upp á sama árstíma.
Í tilefni hátíðarinnar fá gestirnir tækifæri til að staldra við fjölda sölubása, listsýninga, tónleika og fjöllistaatriða svo fátt eitt sé nefnt. Viðburðirnir eru haldnir í arabíska hverfinu Wadi Nisnas og í hverfi sem er kallað „Þýska nýlendan“, en skammt frá því er grafhýsi Bábsins, þar sem annar af tveimur stofnendum Bahá’í-trúarinnar er grafinn. Grafhýsið og garðarnir umhverfis það eru líklega þekktustu kennileiti Haífa. Bahá’í-trúin á rætur að rekja til íslam en hún er engu að síður bönnuð í mörgum múslimalöndum. En Ísraelsríki hefur alla tíð tryggt öryggi höfuðstöðva þeirra og helgistaða.
Í ár er hátíð hátíðanna haldin í tuttugasta og sjöunda sinn og hefur hún vakið mjög jákvæð viðbrögð gesta og heimamanna. Samlíf fólks af ólíkum trúarbrögðum í Haífa hefur veitt uppbyggilegt fordæmi í heimshluta þar sem deilur á milli trúarhópa hafa allt of oft leitt til blóðugra átaka.