Eftir Höskuld Marselíusarson
Líkt og mörg önnur ríki nútímans var Ísrael áður nýlenda vestræns ríkis, í þessu tilfelli Bretlands, og leiðin til sjálfstæðis var mörkuð af óvissu og deilum. Allt of fáir vita af aðkomu Íslands að þeim merku viðburðum sem leiddu til stofnunar Ísraelsríkis, sem væri vert að halda á lofti sem tákn um vinarþel okkar við íbúa svæðisins.
Þrátt fyrir góðan vilja er því miður enn ekki búið að ná sátt um landamærin, eða önnur úrlausnaratriði sem eru forsenda fyrir varanlegum friði eins og öryggismál, milli þjóðanna tveggja sem búa á svæðinu milli Jórdanárinnar og Miðjarðarhafsins. Íslendingar hljóta að bera þá von í brjósti að það verkefni sem þjóðin kom að í upphafi verði einhvern tímann klárað og sátt ríki á svæðinu milli tveggja (eða fleiri) sjálfstæðra ríkja, þar sem mannlíf og menning hvorrar þjóðar um sig geti blómstrað.
Íslendingur kom með sáttatillöguna
Það var nefnilega íslenski fastafulltrúinn hjá Sameinuðu Þjóðunum, Thor Thors, sem var skipaður, ásamt fulltrúum tveggja annarra ríkja, í sáttanefnd um hvernig ætti að skera á hnútinn í deilunni sem var að komast á stig allsherjarupplausnar og borgarastyrjaldar. Flutti hann þar ræðu sem samtímamenn segja hafa ráðið úrslitum, þegar tillaga nefndarinnar um skiptingu landsvæðisins var lögð fram og síðan samþykkt af tilskildum auknum meirihluta þjóða. Þar með var komin ein forsenda fyrir stofnun Ísraelsríkis, þjóðríkis Gyðinga, sem náð hefur að uppfylla grundvallarhlutverk sitt, að tryggja öryggi sinna íbúa, þar með talið þess fimmtungs íbúanna sem eru Arabar.
Á föstudaginn næstkomandi – þann 29. nóvember – verða liðin 72 ár frá því að tillagan var samþykkt, og má lesa frásögn Abba Eban, fyrrum utanríkisráðherra Ísraels, af þessum mikilvæga undanfara að stofnun Ísraelsríkis í riti Þjóðræknisfélags Vestur-Íslendinga í Norður Ameríku, Lögbergi-Heimskringlu, 32. tölublaði ársins 1992. (Frásögnin er á blaðsíðum 4 og 5 en merkt vitlaust sem 5 og 4).
Deilumálið um skiptingu gamla Verndarsvæðisins er vissulega eitt það erfiðasta sem heimurinn stendur frammi fyrir enn í dag þó þarna hafi verið tekið mikilvægt skref sem hefði verið hægt að nýta til friðsamlegrar lausnar, en var ekki gripið. Vonandi mun sá dagur koma að Arabarnir á svæðinu fái eigið ríki sömuleiðis, en til þess munu báðir aðilar þurfa að gefa eftir í ítrustu kröfum sínum til þess að ná sáttum.
Uppskipting lands víða skorið á hnút þjóðadeilna
Mörg dæmi eru um álíka skiptingar á umdeildum landsvæðum í sögunni, sem hafa dugað til þess að hindra algera upplausn og stríð.
Eitt það þekktasta og jafnframt víðtækasta, er skipting bresku krúnunýlendunnar á Indlandi í það sem nú þekkist sem Pakistan, Indland og Bangladess, eftir meginlínum búsetu hindúa og múslima. Þetta var gert að beiðni Bandalags múslima fyrir allt Indland (All-India Muslim League) sem vildi tryggja stöðu múslima gegn því að mikilvæg úrlausnarefni fyrir samfélag sitt yrðu ekki leist með annað hvort einfaldri meirihlutaatkvæðagreiðslu eða hreinlega sverðinu eins og það var orðað.
Síðastnefnda ríkið var þó fyrst eftir skiptinguna hluti af Pakistan, en eflaust vita ekki margir að nafn þess ríkis er samsett úr nöfnum héraðanna sem það mynduðu, Púnjab, Afganía, Kasmír, Sindh og Balúkistan, að viðbættu i til að einfalda framburð. Pak þýðir hreinleiki á helstu tungumálum svæðisins og stan merkir land. Eins og dæmin sanna er ekki alltaf hægt að vísa í mjög sterka hefð og forsögu fyrir þeim ríkjum sem svona verða til.
Oft færa þau saman í eitt ríki fólk af ólíkum uppruna, og milljónir þurfa að flytja yfir hin nýju landamæri til að búa í ríki þar sem þeir upplifa sig ekki sem ofsóttur minnihluti. Þekkt dæmi um það í sögunni eru íbúaskiptin milli Tyrklands og Grikklands árið 1923, sem tryggt hefur að landamæri ríkjanna hafa verið stöðug síðan, en sama átti ekki við um Kýpur þar sem þurfti stríð til. Enn eru víða púðurtunnur sem gætu sprungið, sérstaklega á svæðum eins og Afríku, sem var skipt á milli keppinauta nýlendutímans, oft algerlega þvert á tungumála- og menningarsvæði og stjórnskipulög þeirra sem voru fyrir.
Sameiginleg sjálfsmynd grunnforsenda ríkis
Í þeim tilfellum sem Sameinuðu þjóðirnar eða forverar þeirra, og stundum aðrir utanaðkomandi aðilar, hafa reynt að skipta umdeildum landsvæðum milli hópa hefur grunnhugmyndin verið að reyna að spyrða saman í eitt þjóðríki fólki sem á nægilega mikið sameiginlegt til að hafa sömu sjálfsmynd. Þannig að gildi þeirra, saga og tungumál geri það að verkum að það séu meiri líkur að stöðugleiki ríki. Þar sem íbúarnir geti sætt sig við að aðrir en fulltrúar eigin stjórnmálaflokks, hugmyndafræði eða þjóðflokks séu í forystu um tíma þangað til í næstu kosningum og svo framvegis. Það hefur alla jafna reynst best.
Önnur nýlegri dæmi má nefna skiptingu Bosníu í tvö sjálfstjórnarríki sem nánast hafa fulla stjórn á öllum helstu eigin málum samkvæmt Dayton samkomulaginu frá 1995, en í því tilviki var landinu formlega haldið sem einu ríki út á við. Lengra aftur í tímann má finna önnur dæmi um viðlíka sáttalausnir, líkt og tilkoma þeirra 26 kantóna sem mynda Sviss og ráða hvert um sig mestu um eigin mál. Kom skiptingin til upp úr því að hvert trúar- og málsamfélag vildi hafa sem mest forræði eigin mála, enda landið með 3 megintungumál og tvær grundvallarútgáfur af kristni sem skiptast hvort um sig þvert á aðrar sjálfsmyndir íbúanna.
Þannig varð nýjasta kantónan, Júra, til árið 1979 þegar kaþólskir og frönskumælandi íbúar norðurhluta stærstu kantónunnar, Bern, þar sem meirihlutinn er mótmælendatrúar og þýskumælandi, klauf sig frá hinni. Eru enn uppi hugmyndir um að skipta landinu í fleiri kantónur því í einhverjum tilfellum hefur megináherslan á sjálfsmynd fólk færst úr því að byggja á trú yfir í tungumál. Samanber sjálfstjórnarhugmyndir á þeim hluta Júrasvæðis Bern, sem ákvað að vera ekki með í nýju kantónunni þó þeir væru einnig frönskumælandi, því þeir voru mótmælendur líkt og meirihlutinn. Nær okkur er svo kosningin árið 1920 í Slésvík þar sem íbúar norðurhlutans ákváðu að verða hluti að Danmörku en suðurhlutinn varð hluti af Þýskalandi.
Því miður hefur í flestum tilfellum ekki fengist jafnfriðsamleg niðurstaða eins og í síðustu tveimur tilfellunum, eða friðurinn haldist nokkurn veginn eins og dæmunum á undan (Nokkur stríð hafa brotist út á milli Indlands og Pakistan, m.a. þegar Bangladess klauf sig frá Pakistan með stuðningi Indlands). Þrátt fyrir viðvarandi spennu hefur þó svona skipting að mestu gengið upp nema á svæðum eins og Kasmír sem einmitt var undanskilið í skiptingartillögunum.
Verslun og vinskapur eina leiðin til að klára verkefni Thors
Auðvitað hljóta Íslendingar, sem fóru í gegnum sína eigin þjóðfrelsisbaráttu, að skilja vonir og væntingar þjóða um að fá sitt eigið ríki, hvort sem það séu Gyðingar, Arabar, eða aðrar þjóðir, enda höfum við oftsinnis verið fyrst ríkja til að viðurkenna ríki þegar þau lýsa yfir sjálfstæði sínu. Rök íslensku þjóðernishreyfingarinnar sem barðist fyrir og náði að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar voru, líkt og oftast er vísað í, að við erum sérstök þjóð í eigin landi, með eigin tungumál, menningu og sameiginlega upplifun, sem saman mynda þjóðarsjálfsmynd okkar.
Þannig má setja samasemmerki við þær hugmyndir og þrá Ísraelsmanna á sínum tíma og Palestínuaraba í dag fyrir fullu forræði eigin mála. En þar sem við búum á eyju hefur stundum virst sem svo að Íslendingar eigi í erfiðleikum með að skilja að víða annars staðar eru slíkar skiptingar ekki jafn skýrar og mörkin milli þjóða jafn vel afmörkuð, og taka þurfi tilliti til fleiri atriða en t.a.m. vopnahléslínu sem dregin var í einhverjum átökunum.
Þess í stað höfum við oft hoppað á einfaldar lausnir eins og viðurkenningu ítrustu krafna annars aðilans. Hafa þeir öfgafullustu jafnvel heimtað hundsun og viðskiptabann til að hjálpa þeim sem þeim hugnast að ná sínum fram. Þannig höfum við oft ekki tekið tillit til þeirra flóknu deilumála sem að baki liggja svo sem trúarlegra, landfræðilegra og öryggissjónarmiða ýmis konar, auk langrar forsögu árása og sáttatillagna sem hafnað hefur verið. En í flóknum deilumálum eins og í Landinu Helga – líkt og svæðið fyrir botni Miðjarðarhafs hefur verið kallað vegna mikilvægis þess fyrir helstu eingyðistrúarbrögð heims – þýðir lítið fyrir okkur að ætla að taka einarða afstöðu með öðrum aðilanum og hafna hinum algerlega.
Þess í stað verðum við að sýna báðum þjóðum vinarþel, stunda viðskipti, versla, vera í virkum mennta-, menningar- og íþróttasamskiptum og kannski þannig getum við á endanum lagt eitthvað að mörkum til að klára þá vinnu sem fulltrúi okkar hóf fyrir hartnær 70 árum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, að finna lausn að friði bæði með Ísrael og Aröbum.
Höfundur er blaðamaður sem oftsinnis hefur verið kallaður með vandlætingu Vinur Ísraels fyrir að tala fyrir friðsamlegri tveggja (eða þriggja) ríkja lausn á svæðinu.