Íslenskir Eurovisionfarar fá tækifæri til að sækja íslenska viðburði í Tel Aviv

Viðburðirnir eru skipulagðir af borgaryfirvöldum Tel Aviv, Cherner-húsinu og DJ-tvíeykinu Icelandic Jihad – sem eru, þrátt fyrir nafnið, ekki herská í öðru en ást sinni á íslenskri tónlist.

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva verður haldin innan skamms í Tel Aviv. Fólk spyr sig gjarnan hvernig standi á þátttöku Ísraels í þessari keppni, því Ísrael er vissulega ekki Evrópuland. Ástæðan er einfaldlega sú að ríkissjónvarp Ísraels á aðild að Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU). Öll aðildarríkin eiga rétt á þátttöku óháð landafræðilegri staðsetningu (þeirra á meðal eru Miðjarðarhafsríki Afríku, sem hafa að jafnaði hafnað þátttöku).

Undankeppnin verður haldin í tvennu lagi, þann 14. og 16. maí, en lokakeppnin verður haldin þann 18. maí. Dagana 13. og 15. maí gefst gestum tækifæri til að sækja þrjá Íslandstengda viðburði.  Þeir verða haldnir í Cherner-húsinu í Jaffa, sem er syðsti og elsti borgarhluti Tel Aviv.

Viðburðirnir eru skipulagðir af borgaryfirvöldum Tel Aviv, Cherner-húsinu og DJ-tvíeykinu Icelandic Jihad – sem eru, þrátt fyrir nafnið, ekki herská í öðru en ást sinni á íslenskri tónlist. Tvíeykið samanstendur af skötuhjúunum Orra Dror og Yaël Bar Cohen. Orri hefur sjálfur verið með annan fótinn á Íslandi síðan árið 2003 og stofnaði hann Icelandic Jihad á árunum 2006-2007. Þau spila íslenska tónlist á skemmtistöðum í Ísrael, og hafa verið iðin við að kynna íslenska tónlistarmenningu á facebook, instagram og í vikulegum útvarpsþætti sem heitir Nordistan. Þau komu einnig að Project Múkk, sem skilaði sér í hljómplötu með ísraelskum ábreiðum af lögum Sigur Rósar.

Orri Dror og Yaël Bar Cohen eru Icelandic Jihad

Að kvöldi mánudagsins 13. maí hefst málþingið „(Þjóðar)stolt og fordómar“. Þar munu tveir fulltrúar frá Íslandi og tveir frá Ísrael kynna sín lönd og tala meðal annars um þjóðfélagsmál, stjórnmál, umhverfismál og menningu. Að lokum munu fulltrúarnir sitja fyrir svörum. Málþingið mun gefa fólki tækifæri til að heyra raddir óbreyttra ríkisborgara – bæði Araba og Gyðinga – sem heyrast sjaldan í fjölmiðlum.

Að kvöldi þess 15. verður haldinn futsal-leikur (ákveðin tegund innanhússfótbolta) þar sem íslenskt lið spilar á móti mið-austurlensku liði. Í mið-austurlenska liðinu eru Gyðingar, Arabar og heimilislaus ungmenni úr hverfinu. Reglulegir fótboltaleikir í Cherner-húsinu hafa undanfarið verið mikil kjölfesta í lífi þeirra. Þessir ólíku þjóðfélagshópar spila í sátt og samlyndi þrátt fyrir þá ófriðarvinda sem geisa annars staðar í landinu.

Seinna um kvöldið verður haldið íslenskt partý á þaki Cherner-hússins þar sem Icelandic Jihad munu spila heitustu íslensku smellina. Ókeypis aðgangur verður á alla viðburðina. Þeir sem vilja taka þátt eru hvattir til að hafa beint samband við Orra Dror á facebook-síðu hans.

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print