Search
Lyfjabyrgðir í einum af vettvangsspítölum Ísraels. Mynd: IDF (Flickr)

Ísrael setur upp vettvangsspítala í Úkraínu

Þessi grein er útdráttur úr frétt Times of Israel.

Fyrir einni og hálfri viku ferðuðust hjálparstarfsmenn frá Ísrael til borgarinnar Mostyska í vesturhluta Úkraínu. Þar hófu þeir uppsetningu vettvangsspítala sem mun opna á þriðjudaginn 22. mars.

Staðsetningin var valin í samráði við úkraínsk yfirvöld, með áherslu á öryggi þeirra áttatíu manns sem munu starfa við spítalann.

Spítalinn var byggður á skólalóð í borginni og heildarkostnaður hans mun nema tuttugu og einni milljón sikla (836 milljónir íslenskra króna). Þar munu bæði flóttamenn og fólk búsett á svæðinu hljóta nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

Starfsfólk spítalans mun þjálfa úkraínskt heilbrigðisstarfsfólk í notkun tækja sem eru flutt frá Ísrael, samkvæmt Yehuda Katzora, framkvæmdastjóri frá Sheba læknamiðstöðinni í Ramat Gan. Einnig komu að stofnsetningu spítalans heilbrigðisráðuneyti og utanríkisráðuneyti Ísraels.

Spítalinn er auk þess fjármagnaður af ísraelsku ríkisstjórninni, fjölskyldusjóði Charles og Lynn Schusterman og Sameiginlegri dreifingarnefnd bandarískra Gyðinga (e. American Jewish Joint Distribution Committee).

Undanfarnar vikur hafa tíu tjöld verið reist en vegna vetrarkuldans eru tjöldin hituð upp með ofnum. Á næstu tveimur dögum mun starfslið Sheba byggja sjúkrarými, rannsóknastofu, lyfjamiðstöð og skipulagsmiðstöð.

„Þetta mun vera tilbúið þegar aðalstarfsfólkið mætir, læknarnir okkar og hjúkrunarfræðingar,“ lofaði Yehuda Katzora. Starfsfólkið leggur af stað frá Ísrael á mánudagsmorgunn. Margir þeirra tala bæði úkraínsku og rússnesku og hafa reynslu af mörgum ólíkum hliðum ísraelska heilbrigðiskerfisins, til dæmis frá Rauðu Davíðsstjörnunni (Magen David Adom).

Starfsfólkið vinnur tvær vikur í senn en vettvangsspítalinn mun vera starfræktur í það minnsta í heilan mánuð, með möguleika á framlengingu starfseminnar ef þörf krefur.

Spítalanum hefur verið gefið nafnið Kokhav Meír sem þýðir „Skínandi stjarna“ í höfuð Goldu Meír, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels sem fæddist í Úkraínu. Hún stofnaði einmitt Skrifstofu utanríkisráðuneytisins fyrir alþjóðlega þróunarsamvinnu í Ísrael, sem hefur yfirumsjón með vettvangsspítalaverkefninu.

„Það er mjög tilfinningaþrungið að hafa umsjón með skipulagshlið hlutanna. Þetta er mjög flókin aðgerð með samvinnu frá nokkrum fyrirtækjum, þar á meðal UPS (sem sáu um flutning sjúkratækja), flugfélagið El Al, utanríkisráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið. Þetta var áskorun fyrir alla að leggja sig alla fram og setja upp spítala sem mun vera einn af þeim bestu í heiminum, þegar kemur að getu, aðbúnaði og heilbrigðisstarfsliði.“

Alexey Tsiboulski, skipulagsstjórnandi frá Sheba sagði frá þeim áskorunum sem flutningur sjúkratækjanna fól í sér.

„Við þurftum að tryggja það að búnaðurinn myndi skila sér í heilu lagi. Þetta er eftir allt saman vígvöllur.“

Í stað þess að reiða sig á staðbundnar samskiptaleiðir tók starfsliðið með sér tvo gervihnattadiska til þess að tryggja stöðugan aðgang að sjúkraskrám og niðurstöðum rannsókna.

Tsiboulski, sem ólst upp í fyrrum Sovétríkjunum, sagði: „Ég er mjög tilfinningahrærður. Ég gekk inn í skólann (við hliðina á spítalanum) og hann minnir mig á skólann sem ég var í fyrir fjörutíu árum. Borðin, stólarnir… og að ímynda sér nemendurna sitja á þeim.“

Og hann bætti við: „Að koma hingað og hjálpa úkraínsku þjóðinni… ég hugsaði mig ekki einu sinni tvisvar um þegar ég var spurður. Mig langaði að koma og rétta hjálparhönd.“

Yehuda Katzora væntir þess að spítalinn verði mjög upptekinn „innan nokkurra daga“.

„Við vitum ekki hversu margar manneskjur munu koma en við vitum að margir hafa áhuga,“ sagði Katzora. „Ég held að tveimur til þremur dögum eftir að við hefjum störf muni þegar vera margt fólk hérna.“

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print