Ísraelsk kona hljóp tíu kílómetra á mettíma

Þann fyrsta september síðastliðinn hljóp hin ísraelska Lonah Chemtai Salpeter tíu kílómetrana á hálf tíma og fjórum sekúndum og sló þar með Evrópumetið. Fyrra metið átti hin breska Paula Radcliffe, en Lonah bætti hennar met um sextán sekúndur.

Lonah fæddist í Keníu árið 1988 en fór fyrst til Ísraels árið 2008. Þar vann hún sem barnfóstra fyrir diplómata við sendiráð Keníu. Hún flutti loks varanlega til Ísraels árið 2011 og barðist í nokkur ár fyrir ríkisborgararétti sem hún fékk að lokum. Hún kynntist þar þjálfaranum Dan Salpeter sem hún giftist síðan í Keníu. Saman eiga þau einn son.

Lonah hefur undanfarið verið í strangri þjálfun fyrir heimsmeistarakeppnina í Doha sem verður haldin í lok september, og sagðist því vera ánægð en ekki hissa á að hafa náð þessum árangri.

Í fyrra sló hún met í maraþonhlaupi í Flórens og vann hún gullverðlaun fyrir tíu kílómetra hlaupið í Berlín. Hún átti þegar Ísraelsmetin í eins og hálfs, þriggja, fimm og tíu kílómetra hlaupi, og einnig í hálfmaraþoninu. Árangurinn í Flórens greiddi leiðina að væntanlegri þátttöku hennar í Ólympíuleikunum í Tókýó árið 2020.

Greinin er útdráttur úr frétt The Times of Israel.

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print