Search
Nýjum rafhlöðum komið fyrir í tvinnbíl. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Mynd: CSIRO (Wikimedia Commons)

Ísraelskt fyrirtæki þróar betri rafhlöður

Í síðasta mánuði kynnti fyrirtækið rafhlöðu sem nær fullri endurhleðslu á tíu mínútum. Tæknin kallast XFC og hefur verið í þróun síðastliðin þrjú ár.

Orkunotkun hefur aukist jafnt og þétt samhliða tæknivæðingu og fjölgun mannkyns. Sem stendur eru flest farartæki á jörðinni knúin með jarðefnaeldsneyti. Á því er ein helsta skýringin sú að rafhlöður hafa hingað til verið háðar ákveðnum annmörkum þegar kemur að geymslugetu og hleðslutíma. En ísraelska fyrirtækið StoreDot hefur nýlega náð merkum áfangasigri í umbótum á rafhlöðutækninni.

Í síðasta mánuði kynnti fyrirtækið nýja rafhlöðu sem nær fullri endurhleðslu á tíu mínútum. Tæknin kallast XFC og hefur verið í þróun síðastliðin þrjú ár. Hönnunin „eykur flæði og leysir vandamál tengd öryggi og virkni,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Það er mjög mikilvægt að við getum boðið rafbílaframleiðendum val á milli rafhlöðugerða – möguleikann á XFC tækninni okkar sem mun yfirstíga núverandi annmarka á rafbílaeign: langdrægni og hleðslukvíða,“ sagði forstjóri StoreDot Dr. Doron Myersdorf. Það síðastnefnda á við mögulegan ótta ökumanns um að að hleðsla klárist áður en komið er að næstu hleðslustöð.

Myersdorf bætti við að fyrirtækið væri á lokametrunum í viðræðum við fjölda bílaframleiðenda og áformaði „að útvega þeim ýmis konar XFC rafhlöður sem myndi gera þeim kleift að skipta hratt yfir í útblásturslausa, rafmagnaða framtíð.“

Síðastliðinn maí fékk StoreDot leyfi frá NASA til að framkvæma tilraunir með rafhlöður í Alþjóðlegu geimstöðinni. Tilraunirnar verða hluti af Rakia-áætlun ísraelskra yfirvalda (Rakia er hebreskt orð sem þýðir himinn) en hún er að sama skapi hluti af stærri áætlun á vegum Axiom Space sem nefnist Ax-1. Rakia-áætlunin er fjármögnuð af vísinda- og tækniráðuneyti Ísraels og Ramon-styrktarsjóðnum.

Tilraunir með hraða hleðslu í geimnum hafa ekki áður verið framkvæmdar, sagði Myersdorf, og tilraunaferlið gæti hjálpað til við að koma auga á galla og niðurbrot sem koma ekki í ljós við jarðneskar aðstæður.

Fjöldaframleiðsla á nýju rafhlöðunum mun hefjast árið 2024.

(Þessi grein er útdráttur úr frétt The Times of Israel)

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print