Search
Mynd: Google Maps

Landamæri Ísraels og Egyptalands séð utan úr geimnum

Árangur Ísraels sýnir að það er ekkert tæknilega því í fyrirstöðu að breyta norðurhluta Sínaískagans í ræktarland.

Pólitísk landamæri yfir flatlendi sjást að öllu jöfnu ekki á gervihnattarmyndum. Á því er þó ein undantekning: Landamæri Ísraels og Egyptalands eru vel sýnileg utan úr geimnum. Áberandi munur er á útliti jarðvegsins sitt hvoru megin við landamærin. Hvernig stendur á þessu?

Yfirvöld í Ísrael hafa alla tíð lagt mikla fjármuni og vinnu í að breyta eyðimerkurlandi í ræktarland. Nýjustu tækni er beitt í þágu þess að nýta hvern einasta vatnsdropa í matjurtarækt. Ísrael hefur því langt forskot á eyðimerkurgrænkun í samanburði við flest önnur ríki og ísraelsk tækni mun án vafa nýtast þeim ríkjum sem munu í náinni framtíð þurfa að bregðast við aukinni eyðimerkurmyndun.

Fyrir aðeins nokkrum áratugum var ekki hægt að greina skilin milli Ísraels og Egyptalands utan úr geimnum. Á hlið Ísraels var sams konar eyðimörk og má enn sjá á Sínaískaganum Egyptalands megin. Samkvæmt vefsíðu NASA er blæbrigðamunurinn á lit jarðvegsins til kominn vegna langvarandi troðnings á hlið Egyptalands á meðan lítið er um slíkan ágang á hlið Ísraels.

Árangur Ísraels sýnir að það er ekkert tæknilega því í fyrirstöðu að breyta norðurhluta Sínaískagans í ræktarland. Það mun hins vegar ekki vera mögulegt fyrr en egypsk yfirvöld koma á stöðugleika á svæðinu. Sínaískaginn hefur verið athvarf hryðjuverkahópa frá árinu 2011 og yfirvöldum þar hefur enn ekki tekist að ráða niðurlögum þeirra.

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print