(Útdráttur úr grein sem Shoshanna Solomon skrifaði fyrir The Times of Israel.)
Vísindamenn í Technion í Ísrael hafa nýlega fundið upp nýja tegund vefjalíms sem hægt er að nota til þess að loka alvarlegum sárum. Í dag eru alvarlegir skurðir oftast meðhöndlaðir með saumum og heftum, en þessum aðferðum fylgja ýmsir vankantar: Þær eru oft sársaukafullar, fela í sér öramyndun og oft þarf að fjarlægja saumana eða heftin þegar sárið er gróið. Leki getur myndast í þörmum, lungum og æðum þegar saumar eru notaðir og því þarfnast slík sár þéttingarefnis.
Vefjalímið sem nú hefur verið þróað slær tvær flugur í einu höggi, samkvæmt prófessor Boaz Mizrachi, sem leiðir Lífefnadeildina við Technion-háskólann. Límið kemur í stað sauma og þéttingarefnis og hægt er að nota það á bæði útvortis og innvortis áverka.
Vefjalím er nú þegar notað við meðferð húðsjúkdóma, við skurðaðgerðir og í öðrum tilvikum, en það lím hefur ákveðna annmarka. Meðal annars er það eitrað og því einungis hægt að bera það á yfirborð húðarinnar. Auk þess gerir storknun límsins húðina ósveigjanlegri og veldur því að límið festist ekki alltaf nægilega vel.
Þessir annmarkar voru hvatinn að þróun líms sem hæfir ólíkum tegundum líkamsvefja, er sveigjanlegt eftir storknun og óeitrað. Eftir að líkamsvefurinn hefur verið límdur saman er límið skaðlaust þegar það leysist upp í líkamanum.
Til þess að bræða límið og bera það á skemmda vefinn er heit límbyssa notuð. Byssan hitar upp límið þar til hitastigið er orðið örlítið hærra en líkamshitinn svo límið valdi ekki brunasárum. Eftir að límið er borið á sárið storknar það fljótt og brotnar svo niður á nokkrum vikum. Límið má einnig nota á innvortis vefi og er um það bil fjórum sinnum sterkara en þau lím sem hafa hingað til staðið til boða.
Technion hefur sótt um einkaleyfi fyrir uppfinningunni. Þar sem innihaldsefnin hafa þegar verið samþykkt af bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitinu (FDA) vonar Mizrachi að „varan verði komin á markaðinn innan tveggja eða þriggja ára“. Technion leitar nú að samstarfsaðila til að markaðssetja uppfinninguna.