Search
Námsefni grunnskólabarna í Palestínu stenst ekki kröfur UNESCO. Mynd: Peter Biro, ESB, flickr

Námsefni sem mun ekki stuðla að friði

En það að grunnskólar séu nefndir í höfuð þekktra hryðjuverkamanna er ekki helsti álitshnekkir palestínska menntakerfisins. Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) hefur ákveðin viðmið þegar kemur að innihaldi námsefnis grunnskólabarna. IMPACT-se er stofnun sem metur hvernig námsefni ýmissa landa stenst viðmið UNESCO.

Eitt af því sem hefur staðið hvað mest í veginum fyrir varanlegum friði fyrir botni Miðjarðarhafs er tregða alþjóðasamfélagsins að gera sambærilegar kröfur til palestínskra yfirvalda og eru gerðar til Ísraels. Palestínska heimastjórnin (PA) kemst iðulega upp með framferði sem ísraelskum yfirvöldum væri opinberlega úthúðað fyrir. En stöku sinnum hafa alþjóðastofnanir þó fundið sig knúnar til að krefjast umbóta af yfirvöldum í Palestínu. Í maí 2017 gáfu Sameinuðu þjóðirnar út yfirlýsingu þar sem nafngift félagsmiðstöðvar í þorpinu Burqa var fordæmd.1 Félagsmiðstöðin hafði verið nefnd í höfuð hryðjuverkakonu sem árið 1978 drap þrjátíu og átta almenna ísraelska borgara, þar af þrettán börn.

Upp á síðkastið hafa svipaðar yfirlýsingar einnig komið frá nokkrum vestrænum ríkjum. Í september 2018 sáu yfirvöld í Belgíu sér ekki annað fært en að hætta við styrki til palestínskra grunnskóla þegar upp komst að menntamálaráðuneyti Palestínu hafði nefnt grunnskóla í höfuð sömu hryðjuverkakonu og hafði verið fordæmd af Sameinuðu þjóðunum árið áður. Þrátt fyrir það lét ráðuneytið ekki segjast og nefndi tvo grunnskóla til viðbótar í höfuð konunnar.2

Staðlar UNESCO og námsefni palestínskra grunnskólabarna

En það að grunnskólar séu nefndir í höfuð þekktra hryðjuverkamanna er ekki helsti álitshnekkir palestínska menntakerfisins. Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) hefur ákveðin viðmið þegar kemur að innihaldi námsefnis grunnskólabarna. IMPACT-se er stofnun sem metur hvernig námsefni ýmissa landa stenst viðmið UNESCO. Í rannsóknarskýrslu sem kom út í september, kom skýrt fram að námsefni grunnskólabarna á sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna stenst engan veginn þau viðmið. Skýrslan tiltekur eitt hundrað dæmi þar sem innihald texta og mynda brýtur í bága við reglur UNESCO.3

Nokkur dæmi úr skýrslunni

Í dæmum 3, 15, 42 og 78 er vísað sérstaklega í fyrrnefnda hryðjuverkakonu. Henni er stillt upp sem hetju og fyrirmynd fyrir palestínsk ungmenni. Í dæmi 78 er hún sögð hafa drepið „yfir 30 hermenn“. Þessi nálgun er því miður í samræmi við þá algengu afstöðu í Palestínu að ekki er gerður greinarmunur á ísraelskum hermönnum og almennum borgurum. Því til stuðnings má vísa í orð talsmanns Hamassamtakanna frá 2014: „…allir Ísraelsmenn eru orðnir réttmæt skotmörk.“4 Dæmi 10 ber einnig vitni um þessa afstöðu þar sem fjallað er um fjöldamorðin við Ólympíuleikana í München 1972 sem hetjulega „árás gegn erlendum hagsmunum síonista“. Tólf voru myrtir í München – ellefu ísraelskir íþróttamenn og einn vestur-þýskur lögreglumaður.

Það eru önnur gegnumgangandi stef sem birtast í dæmunum, meðal annars lofsömun píslarvættisdauða og „heilags stríðs“ (jihad). Níu dæmi í skýrslunni eru tilgreind þar sem hugtakið „heilagt stríð“ er sett í jákvætt samhengi (dæmi nr. 7, 29, 34, 52, 55, 60, 63, 64 og 90). Í nokkrum þeirra er píslarvættisdauði sýndur sem eðlilegur hluti „heilags stríðs“, meðal annars í dæmi 55 þar sem segir: „Heilagt stríð er eitt þeirra hliða sem stuðla að píslarvættisdauða.“

Væntingar yfirvalda til ungmenna koma skýrt fram í dæmi 29, en þar segir: „Ungt fólk er öryggisventill samfélagsins því það hefur hlutverki að gegna með því … að reka óvini á flótta í heilögu stríði fyrir Allah.“ Þetta dæmi má einnig skilja í samhengi við þá afstöðu að það muni þurfa að reka alla afkomendur útlendinga frá landsvæði Ísraels svo afkomendur palestínskra flóttamanna geti sest þar að. Það er ýjað að þessari afstöðu í dæmum 70 og 91 þar sem minnst er á „endurkomulykla“. Þessir lyklar endurspegla ekki aðeins þá von að eftirlifandi flóttamenn frá Palestínu (sem eru í dag mjög fáir og aldraðir) muni flytja aftur í gömlu húsin sín, heldur einnig að afkomendur flóttamannanna muni koma og yfirtaka allar byggðir í Ísrael með tilheyrandi stríði og mannfalli. Hvergi kemur það jafn skýrt fram og í ljóðinu sem palestínskum börnum er kennt í dæmi 6: „Ég heiti því að fórna blóði mínu … og mun eyða eftirlifandi útlendingunum.“

Viðbrögðin í Noregi

Málið hefur víða vakið athygli og var meðal annars umfjöllunarefni forsíðufréttar Aftenposten (sem er stærsta áskriftarblað Noregs) þann 12. nóvember síðastliðinn. Samdægurs í þættinum Dagsnytt hjá Norska ríkissjónvarpinu (NRK) var Line Khateeb, fyrrverandi formaður Palestínunefndarinnar í Noregi (Palestinakomiteen), beðin um sitt álit á þeim dæmum sem voru tiltekin. Í viðtalinu staðfestir hún að rannsóknarskýrslan endurspegli raunverulegt eðli námsefnisins. En að hennar mati er öfgafullt innihald þess einungis skiljanleg viðbrögð Palestínumanna við atferli Ísraelsmanna á svæðinu. Auk þess heldur því fram að námsefni grunnskólabarna í Ísrael sé jafn öfgafullt og einhliða og námsefnið í Palestínu. Hún fullyrðir meira að segja að í ísraelskum námsbókum sé hvergi minnst á Palestínu.5 En eiga fullyrðingar hennar við rök að styðjast?

Line Khateeb í þættinum Dagsnytt, þann 12. nóvember. Mynd: Skjáskot af síðu NRK

Það er auðvelt að sýna fram á að svo er ekki. Á meðan námsefni á palestínsku svæðunum hefur hrakað þegar kemur að jákvæðri framtíðarsýn og samstarfsvilja6 hefur námsefni almennra ísraelskra grunnskóla jafnt og þétt endurspeglað aukið umburðarlyndi og skilning gagnvart Palestínumönnum. Rannsókn IMPACT-se frá 2016 gefur til kynna að ísraelskt námsefni sé að öllu leiti friðsamlegra en palestínska námsefnið þó stofnunin bendi á að stöku sinnum gefi ísraelska námsefnið sjónarmiðum Palestínumanna ekki nægilega mikið vægi.7 Þessi gagnrýni er hins vegar léttvæg í samhengi við neikvæðu innrætinguna sem palestínska námsefnið virðist vera gegnsýrt af. Það þarf ekki að leggjast í mikla rannsóknarvinnu til að komast að því að Line Khateeb fór með ósannindi um ísraelskt námsefni.

Það liggur í augum upp að enginn friður mun verða fyrir botni Miðjarðarhafs fyrr en námskrá palestínskra grunnskóla verður endurskoðuð, og það mun ekki gerast fyrr en alþjóðasamfélagið kemur sér saman um að gera sambærilegar kröfur til yfirvalda í Palestínu og eru gerðar til yfirvalda í Ísrael. Það hlýtur að segja sig sjálft að það er ógjörningur að koma á friði þegar öðrum deiluaðilanum er stöðugt kennt að hafna öllum málamiðlunum frá unga aldri. Það eina sem það getur leitt af sér eru áframhaldandi átök um ókomna tíð.

Heimildir

1 https://www.un.org/sg/en/content/sg/note-correspondents/2017-05-28/note-correspondents-answer-questions-naming-community

2 https://www.brusselstimes.com/all-news/belgium-all-news/50730/belgium-suspends-support-for-palestinian-schools/

3 https://www.impact-se.org/wp-content/uploads/PA-Reports_-Combined-Selected-Examples_2019-20.pdf

4 https://www.dw.com/en/air-raid-sirens-in-tel-aviv-as-hamas-declares-all-israelis-targets/a-17768336

5 https://tv.nrk.no/serie/dagsnytt-atten-tv/201911/NNFA56111219/avspiller

6 https://www.impact-se.org/wp-content/uploads/Rejection-of-Peace_-Changes-from-Pre-2016-PA-Curricula.pdf

7 https://www.impact-se.org/wp-content/uploads/Palestinians-in-Israeli_Textbooks_2016-Update.pdf

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print