Search
Mynd: Wikimedia Commons

Nú hefði verið gott að vera vinur Ísraels

Eftir vonbrigðin í byrjun vikunnar fyrir íslenska þjóð er áhugavert að skoða í samanburði þá þjóð sem strax fyrir áramót gerði samning við Pfizer um tilraun af því tagi sem íslenskum yfirvöldum tókst ekki að semja um.

Financial Times fjallaði í lok janúar um hvernig stjórnvöldum í Ísrael hefði tekist að fá Pfizer til að setja afhendingu bóluefna við kórónuveirunni til Ísraels í forgang. Tilkynnt var um átakið 7. janúar, en markmið þess er að bólusetja alla íbúa yfir 16 ára aldri í lok marsmánaðar.

Síðan átakið byrjaði hafa um 150 þúsund manns, eða sem nemur nærri hálfri íslensku þjóðinni, fengið bólusetningu á degi hverjum og stefnt er á að hækka þá tölu. Um svipað leiti og átakið hófst voru útgöngu- og samkomutakmarkanir hertar, m.a. vegna þess að nýrri og bráðsmitandi afbrigði veirunnar höfðu skotið upp kollinum í landinu, en nú hefur verið byrjað á ný að létta á hömlunum.

Nú hafa rétt yfir 42%, eða 3,7 af 9 milljón íbúum landsins fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefnum, og þar af langflestir yfir 60 ára fengið tvo skammta. Þegar í lok janúar höfðu 2,6 milljónir íbúar fengið fyrstu bólusetninguna og ríflega 1,1 milljón manns tvær, en samkvæmt Ourworldindata voru það orðnar 2,33 milljónir, eða  26,88% íbúanna þann 10. febrúar síðastliðinn.

Ræddu strax beint við framleiðandann

Ástæðan fyrir þessum árangri liggur í 17 samtölum milli Albert Bourla, forstjóra Pfizer, Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels og Yuli Edelstein, heilbrigðismálaráðherra landsins sem fóru fram undir lok síðasta árs, á sama tíma og íslensk stjórnvöld settu allt sitt traust á Evrópusambandið.

Í samtölunum lofuðu ísraelsk stjórnvöld að setja af stað hraðasta bólusetningarátak í heiminum og deila með fyrirtækinu upplýsingum um áhrif átaksins á faraldurinn, í skiptum fyrir að fá nægt magn af bóluefnum án tafa.

„Við erum að bólusetja tíu sinnum hraðar en verið er að gera í Bandaríkjunum,“ hefur FT eftir forsætisráðherranum sem veðjar á að árangurinn skili sér í kosningum í landinu 23. mars næstkomandi, réttu ári eftir síðustu kosningar. „Ekkert land hefur gert það sem við höfum getað gert.“

Ein af forsendunum fyrir samningnum eru, líkt og á Íslandi, að í Ísrael eru góðir heilbrigðisinnviðir þar sem allir eru skráðir með stafrænum hætti í fjórar mismunandi heilbrigðistryggingaþjónustur, og mikil tækniþekking til staðar til að halda utan um alla þætti rannsóknarinnar.

Þannig safna heilbrigðisstofnanir öllum upplýsingum um hversu hröð lækkun er á mótefnamælingum á starfsmönnum og hversu mikil minnkun er í smitum meðal þeirra sem hafa fengið seinni bóluefnaskammtinn.

Rannsaka áhrif bóluefnis á hjarðónæmi

Talsmaður Pfizer sagði FT að rannsóknin gæti sýnt fram á hvort að fækkun smita væri bóluefninu að þakka eða hjarðónæmi.

„Faraldursfræðilegar rannsóknir í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið í Ísrael eru sérstakar því þær munu gera okkur kleyft að meta hvort ákveðinn hraði í bólusetningu muni koma af stað hjarðónæmi til viðbótar,“ segir í tölvupósti frá talsmanninum.

Í umfjöllun Telegraphs er bent á að bóluefnið virðist þegar vera farið að draga úr smitum meðal eldri borgara, en rannsókn á vegum Technion, tæknistofnunar Ísraels sýni að bóluefnið dragi úr smiti um 66 til 85%, og 87 til 96% í að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar smits. Önnur rannsókn sýni svo umtalsverð áhrif á þá sem eru yfir 60 ára, en þar féllu smit um 35%, 30% fækkun þeirra sem þurftu að leggjast á sjúkrahús og 20% fækkun þeirra sem voru alvarlega veikir í síðustu tveim vikum janúarmánaðar.

Vox skrifar einnig um árangur Ísraels og segir frá því hvernigt lagt var upp með að tryggt væri að hver sá sem fékk fyrsta skammtinn myndi hafa frátekinn skammt tilbúinn fyrir sig 21 degi síðar sem boðað væri í, oft á nákvæmlega sömu mínútu og fyrri sprautan fékkst.

Vegna vandamála við að tryggja flutninga og geymslu bóluefnanna sem þurfa að vera í miklum kulda, þá var jafnframt brugðið á það ráð að bjóða fólki sem vildi komast fyrr í bólusetningu að bíða í röð ef ske kynni að í lok dags yrðu umframskammtar sem annars myndu skemmast. Þeir sem þannig kæmust að fengju í kjölfarið einnig boð í seinni skammt þremur vikum síðar.

Óbólusettir halda áfram að deyja

Á dögunum sagði Netanyahu forsætisráðherra svo frá því að næstum því allir sem létust úr kórónuveirunni síðasta mánuðinn í landinu væru fólk sem ekki hefðu fengið bóluefni.

„Ég vil láta ykkur í té óhugnanlega staðreynd: Síðasta mánuðinn – síðustu 30 daga – hafa 1.536 einstaklingar látist (af Covid 19) í Ísraelsríki,“ hefur Reuters eftir Netanyahu. „Meira en 97% þeirra höfðu ekki fengið bólusetningu. Færri en 3% höfðu fengið bólusetningu.“

Nokkuð hefur þó borið á því að einhverjir vilji ekki eða fresti því að þiggja bóluefni, þá aðallega virðast efasemdir vera meðal arabískra ríkisborgara Ísraels, sem eru um fimmtungur þjóðarinnar, og meðal strangtrúaðra gyðinga. Á móti kemur að bæði hefur ríkið boðið ólöglegum innflytjendum í landinu sem og heilbrigðisstarfsfólki á palestínsku heimastjórnarsvæðunum bóluefni.

Auk samninga við Pfizer sem tryggt hafa Ísraelsmönnum bóluefni frá 19. desember síðastliðnum fá Ísraelsmenn einnig bóluefni frá Moderna í næsta mánuði, auk þess sem milljónir skammta frá AstraZeneca eru á leið til landsins.

Í raun hefur landinu gengið svo vel að tryggja nægt bóluefni að það stefnir í að það fái mun meira en þörf er fyrir, en ekki er ljóst hvað verður gert við það sem umfram er, þótt heilbrigðisráðherrann hafi sagt það ekki þjóna hagsmunum Ísraelsmanna að nágrannar þeirra í Palestínsku heimastjórnarsvæðunum væru ofurseldir veirunni án varna.

Það væri óskandi ef Ísland hefði getað fetað í fótspor Ísraels, og/eða verið í nægilega nánu samstarfi og vináttu við þessa öflugu þjóð til að fá að fljóta með í þessari rannsókn strax í ársbyrjun, enda mun auðveldara að bólusetja alla íslensku þjóðina en flestar aðrar. Svo fór þó ekki, en það verður áhugavert að fylgjast með niðurstöðunum í Ísrael sem svo sannarlega er að leggja sitt af mörkum til að ráða niðurlögum veirunnar.

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print