17 ára ísraelsk stúlka lést þegar hryðjuverkamenn sprengdu sprengju við Ein Bubin-brunninn á Vesturbakkanum þennan föstudagsmorgun. 19 ára gamall bróðir hennar og 46 ára faðir særðust einnig alvarlega í árásinni. Talsmaður Varnarhers Ísraels (IDF) segir að ekki sé enn á hreinu hvort sprengjunni hafi verið kastað í átt að fjölskyldunni eða að fjölskyldan hafi einfaldlega verið þar sem sprengjunni hafði verið komið fyrir.
„Björgunarsveitarmenn hlúa að þremur alvarlega særðum manneskjum: 46 ára karlmanni, 19 ára karlmanni og 17 ára stúlku,“ var haft eftir sjúkrabílaþjónustu svæðisins, skv. frétt Times of Israel.
Faðirinn og sonurinn voru fluttir með þyrlu á sjúkrahúsið í Jerúsalem með alvarlega áverka, á sama tíma og 17 ára dóttirin hlaut meðferð við lífshættulegum áverkum á staðnum. Hún komst ekki lífs af. Árásin átti sér stað á sama svæði og Dani Gonen var drepinn af hryðjuverkamönnum árið 2015.
17 ára stúlkan sem lést hét Rina Schnerb frá borginni Lod í Ísrael.
Undanfarið hefur fjöldi hryðjuverkaárása gegn Ísraelsmönnum aukist á Vesturbakkanum. Hinn 18 ára Dvir Sorek var stunginn og myrtur fyrr í ágúst , og föstudaginn síðastliðinn keyrði palestínskur hryðjuverkamaður á stolnum bíl á tvo ísraelska unglinga. Unglingarnir særðust báðir alvarlega í tilræðinu.
Stórar sérsveitir leita nú hryðjuverkamannanna sem stóðu á bak við þessa nýjustu árás. Vegatálmar hafa verið lagðir yfir stóra hluta Vesturbakkans til að aðstoða við leitina.
