Search
Ísraelski fáninn
Saga hins stílhreina fána Ísraels

Saga hins stílhreina fána Ísraels

Þá laust hugmyndinni niður í huga mér. Við eigum fána - og hann er blár og hvítur. Talith (bænasjalið) sem við vefjum um okkur þegar við biðjum, er merki okkar. Tökum bænasjalið úr pokanum og berum það fram fyrir augu ísraelsku þjóðarinnar...

Sú gleðifregn heyrðist á dögunum að ísraelski fáninn hefði í fyrsta sinn verið dreginn að húni í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þegar sendinefnd frá Ísrael kom þangað á alþjóðlega ráðstefnu um endurnýjanlega orku.

Það vita það þó kannski færri að þessi fáni varð ekki til fyrr en fimm mánuðum eftir stofnun Ísraelsríkis, þann 14. maí 1948. Það var ekki fyrr en um þremur vikum eftir stofnun ríkisins, eða 8. júní sem ríkisstjórn landsins boðaði til samkeppni borgara um hönnun á fána landsins, og útgáfan sem við þekkjum í dag var ekki samþykkt fyrr en 28. október sama ár, þar sem um tíma leit út fyrir að mun flóknari fáni yrði fyrir valinu.

En þó svo langt sé síðan fáni landsins varð til eru einungis tvö ár síðan íþróttamenn frá Ísrael gátu byrjað að bera fánann sjálfir þegar þeir kepptu á íþróttamótum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum fyrir hönd eigins lands, en fyrir það þurftu þeir að keppa undir fána viðkomandi íþróttasambands.

Bannið á fána Ísraels náði einnig til annarra þjóðartákna eins og þjóðsöngs landsins, og því var það stór stund fyrir íþróttamenn gyðingaríkisins þegar hann var spilaður í fyrsta sinn eftir sigur ísraelsks júdókappa á móti í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, fyrir tveimur árum.

Álíka bönn hafa verið í mörgum ríkjum svæðisins sem hafa neitað að viðurkenna tilvist Ísraels. Sameinuðu arabísku furstadæmin eru aðeins þriðja arabaríkið til að stofna til opinbera samskipta við Ísrael á eftir Jórdaníu og Egyptalands, sem var mikilvægur liður í friðarsamkomulagi landanna við Ísrael.

Einn flottasti fáninn

Fyrir fánaáhugamann eins og mig verður ísraelski fáninn; algerlega óháð því hvort sumir sjái rautt þegar þeir sjá hann, að teljast einn best hannaði fáni ríkja heims.

Það sem flestir fánaáhugamenn eru sammála að einkenni fallegan fána er sterk skírskotun í sögu og menningu viðkomandi þjóðar, stílhrein litablanda og að hann sé auðþekkjanlegur, sem og að hann þurfi að líta vel út vel út bæði í góðum vindi sem og þegar hann hangir hreyfingarlaus í logni.

Það munaði reyndar ekkert svo miklu að þetta hefði ekki endilega tekist í tilfelli ísraelska fánans, því ein fyrsta tillagan að fánanum var töluvert flóknari, og ekki endilega jafnfallegur fyrir þau fáu okkar sem höfum óbilandi áhuga á fánum og hönnun þeirra.

Þannig gerði tillaga Theodor Herzl upphafsmanns zíonistahreyfingarinnar, sem trúir að gyðingaþjóðin þurfi að safnast saman að nýju í upphaflegu heimalandi sínu, ráð fyrir sjö stjörnum í stað einnar.

Tillaga hans fyrir fyrsta zíónistaþingið sem haldið var í Basel í Sviss árið 1897, er lýst þannig að auk línanna tveggja sem eru efst og neðst í fánanum áttu sex litlar stjörnur að mynda horn stórrar Davíðsstjörnu, auk einnar stjörnu til viðbótar fyrir ofan.

Auk þess átti að vera ljón í miðri Davíðsstjörnunni, sem hefði gert fánann enn flóknari og hefði reynst erfiðara að þekkja hann í fjarska. Stjörnurnar sjö voru tákn fyrir sjö tíma vinnudaginn sem Herzl hafði skrifað um í riti sínu „Gyðingaríkið.”

Teikningin af fánanum í dagbók hans dró upp stjörnurnar sex eins og horn á Davíðsstjörnu. Það hefur þó ruglað síðari tíma hugmyndir um fánatillögu hans að lýsingin í bókinni tekur ekki fram hvernig röðun þeirra átti að vera, en í teikningunni er auk þess ekki gert ráð fyrir bláu línunum tveimur, sem þó koma fram í lýsingunni.

Þær línur hafa þó skýra skírskotun í bænasjöl gyðinga sem einmitt eru í þessum litum; hvítum og bláum. En allra fyrsta hugmyndin af fánanum, sem Israel Belkind hafði búið til sex árum fyrr, var sú að tvær bláar línur skyldu vera hvort um sig fyrir ofan og neðan Davíðsstjörnuna.

image contributed by Dr. Haim Grossman
image contributed by Dr. Haim Grossman

Hugmynd Herzl um hönnun fánans náði þó ekki vinsældum og þegar aðstoðarmaður hans David Wolfson, sem tók seinna við sem forseti Zíónistahreyfingarinnar, mætti til Basel til að undirbúa þingið, spurði hann sjálfan sig hvaða fána hann ætti að hengja upp á þinginu og skrifaði: 

Þá laust hugmyndinni niður í huga mér. Við eigum fána – og hann er blár og hvítur. Talith (bænasjalið) sem við vefjum um okkur þegar við biðjum, er merki okkar. Tökum bænasjalið úr pokanum og berum það fram fyrir augu ísraelsku þjóðarinnar sem og augu annarra þjóða. Ég pantaði því bláan og hvítan fána prýddan Davíðsstjörnunni sem máluð var á hann. Þannig varð þjóðfáninn sem flaggað var yfir þingsalnum til.“

Fleiri með sömu hugmyndina

Áhugavert hlýtur að teljast að hann var ekki einn um þessa hugmynd því að á þingið sjálft mætti Morris Harris frá New York, en hann hafði sjálfur hannað svipaðan fána með aðstoð móður sinnar. Að lokum varð þessi útgáfa fyrirmyndin að fánanum sem loks var dreginn að húni þegar Ísraelsríki varð til árið 1948.

En leiðin reyndist brösulegri en áætlað var því í auglýsingu stjórnvalda í hinu nýstofnaða ríki, þar sem borgarar voru beðnir að leggja fram tillögur að útgáfu fánans, var reyndar gert ráð fyrir að fáninn yrði blár og hvítur. Einnig var tekið fram að hann ætti að bera Davíðsstjörnuna, eða sjö stjörnur, gylltar eða í öðrum lit í miðjunni.

Fleiri með hugmyndina
Fleiri með hugmyndina

Margar tillögur af útgáfum bárust til þeirrar nefndar sem átti að velja sigurvegarann. Eftir að hafa valið tvær tillögur valdi ríkisstjórnin útgáfu með tveim bláum línum þann 11. júlí 1948, og milli þeirra á hvítu breiðu línunni voru sjö gylltar eða gular stjörnur sem mynduðu Davíðsstjörnu.

En bráðabirgðaþingið hafnaði þeirri útgáfu, og stofnaði þingið nýja nefnd sem falið var að hanna bæði merki og fána fyrir Ísrael, en hún ákvað að lokum að velja hönnun Morris og/eða Wolfsson. Þessi fáni sem einnig var kallaður zíónistafáninn, var valinn sem opinber fáni Ísraelsríkis.

Ég held að við sem viljum frið fyrir Ísrael, sem og allir fánaáhugamenn almennt, hljótum að vera ánægð með þá niðurstöðu því fáninn er óneitanlega einstaklega fallegur og stílhreinn.

Höskuldur Marselíusarson

Heimild:

What Does the Israeli Flag Really Represent?

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print