Search
Vínekra í Gólanhæðum. Mynd: Wikimedia Commons

Sniðgöngukrafa Íslands-Palestínu ekki skref í áttina að friði

Ef fulltrúar Palestínumanna hefðu samþykkt það kostaboð að fá 92% af flatarmáli Vesturbakkans og allt Gazasvæðið í Camp David viðræðunum árið 2000, hefði þetta svæði Vesturbakkans talist til sjálfstjórnarsvæða Palestínumanna.

Félagið Ísland-Palestína birti nýlega opið bréf þar sem skorað var á Vínbúðina að hætta sölu á vínum frá víngerðunum Psagot og Clos de Gat. Ástæðan er sú að víngerðirnar eru staðsettar á Vesturbakkanum. Í bréfinu segir félagið að Vínbúðin hafi ranglega skrásett upprunasvæðið sem Judean Hills í Ísrael, og fullyrða að víngerðirnar séu í raun „frá ólöglegum landtökubyggðum á herteknu landi“. Það er að vísu ekkert rangt við að kalla svæðið „Judean Hills“ því það er einfaldlega annað heiti svæðisins. Afstaða Íslands-Palestínu er líklegri til að auka andúð á milli íbúa svæðisins og draga úr hagsæld Palestínumanna frekar en að stuðla að friði.

Í opna bréfinu er vísað í grein sem Gideon Levy skrifaði árið 2019. Hér verður ekki tekin afstaða til réttmætis þeirra ásakana sem birtast í grein hans. En það er ekki að ástæðulausu sem við tökum öllu sem kemur frá Gideon Levy með miklum fyrirvara. Í mörg ár hefur hann með skrifum sínum grafið undan tilverurétti Ísraels og rétti Gyðinga til að búa þar, þrátt fyrir að ákveðinn fjöldi Gyðinga hafi búið þar öldum saman.

Árið 2017 skrifaði hann til dæmis greinina „Balfour’s Original Sin“ – „Erfðasynd Balfours“ – en þar vísar hann í Balfour-yfirlýsinguna frá árinu 1917 um fyrirhugaða stofnun þjóðríkis Gyðinga. Greinin lætur í veðri vaka að stofnun þjóðríkis Gyðinga hafi á einhvern hátt verið óréttlát og að Ísraelsmenn í dag beri með sér sekt vegna þess. En ekkert siðmenntað þjóðfélag heimilar sakfellingu einstaklinga vegna ásakana á hendur forfeðrum þeirra og að sama skapi er afstaða Gideons Levy óréttlát í garð Ísraelsmanna.

Spurningin um lögmæti landnemabyggða

Fullyrðingar um „ólöglegar landtökubyggðir“ hafa verið síendurteknar meðal fjölmiðlafólks og stjórnmálaspekinga en hversu réttar eru þær í raun? Landamæri ríkja byggja á skýrt afmörkuðum alþjóðasamþykktum. Einu slíku alþjóðasamþykktirnar sem hafa veitt vopnahléslínunum sem umlykja Vesturbakkann (Júdeu og Samaríu) stöðu landamæra eru Oslóarsamningarnir frá 1993 og 1995 og hægt er að færa góð rök fyrir því að þeir séu ekki lengur í gildi. Hér er vert að benda á að sjálfir fulltrúar Palestínumanna samþykkja ekki vopnahléslínurnar sem landamæri. Fyrir skömmu skrifaði stjórnarmeðlimur MIFF grein sem fjallar ítarlega um þá staðreynd.[1]

Ef fulltrúar Palestínumanna hefðu samþykkt það kostaboð að fá 92% af flatarmáli Vesturbakkans og allt Gazasvæðið í Camp David viðræðunum árið 2000, hefði þetta svæði Vesturbakkans talist til sjálfstjórnarsvæða Palestínumanna. Þá hefði Gyðingum verið skylt að flytja þaðan og færa alla starfsemi sína þaðan. Með því að hafna boðinu og hefja „hið seinna Intifada“ – uppreisnarstríð sem geisaði til ársins 2005 – stöðvuðu palestínsk yfirvöld friðarferli Oslóarsamninganna. Botninn tók úr þegar Mahmoud Abbas, forseti palestínsku heimastjórnarinnar dró til baka viðurkenningu sína á Ísraelsríki árið 2018, en gagnkvæm viðurkenning var ein af grunnforsendunum Oslóarsamninganna. Vesturbakkinn, að undanskildum sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna, telst því í mesta lagi vera umdeilt svæði og fellur því ekki undir alþjóðalög sem eiga við hernumin svæði.

Það er vart annað að sjá en að hugmyndin um vopnahléslínurnar sem framtíðarlandamæri sé aðeins til í hugum fólks og stofnanna sem telja að brotthvarf Gyðinga frá þessum svæðum geti orðið öðrum íbúum svæðisins til góðs. Sú ályktun á meira skylt við Gyðingahatur en nokkuð annað og einkennist auk þess af mikilli skammsýni því á sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna er töluvert atvinnuleysi og reiða Palestínumenn sig á atvinnutekjur frá fyrirtækjum Gyðinga fyrir utan sjálfstjórnarsvæðin. Fjöldi þeirra sem starfa hjá umræddum víngerðum eru Palestínumenn. Þegar sniðganga hefur borið þann árangur að fyrirtæki hætti starfsemi á Vesturbakkanum hefur það haft verri afleiðingar fyrir Palestínumenn en fyrirtækin sjálf.

Hinn nýi veruleiki í Mið-Austurlöndum

Á síðasta ári áttu sér stað afgerandi breytingar á samskiptum Ísraelsmanna við fjögur Arabaríki. Hamad Buamim, formaður viðskiptaráðs Dúbaí (Dubai Chamber of Commerce and Industry), sagðist ekki ætla að mismuna byggðum Gyðinga á Vesturbakkanum. Tugir þúsunda Palestínumanna starfa í fyrirtækjum Gyðinga á Vesturbakkanum og viðskipti Sameinuðu arabísku furstadæmanna munu því hafa jákvæð áhrif á efnahag þeirra Palestínumanna sem þar búa.[2] Psagot-víngerðin er einmitt eitt þeirra fyrirtækja sem hefur nýlega hafið viðskipti við furstadæmin.

Stjórn MIFF styður rétt Vínbúðarinnar og annarra fyrirtækja til að skipta við fyrirtæki Gyðinga á Vesturbakkanum. Það ætti að vera nokkuð augljóst að samskipti á milli Gyðinga og Palestínumanna muni miklu frekar leiða til friðar en sú sniðganga og samskiptaleysi sem talsmenn Íslands-Palestínu og annarra slíkra samtaka mæla fyrir.

Fyrir hönd MIFF (Með Ísrael fyrir friði) á Íslandi:

Elva Ósk Wiium, Finnur Thorlacius Eiríksson, Hrefna Rós Wiium, Höskuldur Marselíusarson, Ívar Halldórsson, Ómar Þorsteinsson

Heimildir

[1] https://www.visir.is/g/20202054801d/thegar-fornar-deilur-eru-lagdar-a-hilluna

[2] https://www.timesofisrael.com/dubai-trade-official-we-have-no-problem-with-israeli-products-from-west-bank/

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print