Search
Súdanir í Tel Avív sýna samlöndum sínum stuðning á tíma stjórnarskiptanna árið 2019. Mynd: Tomer Neuberg
Súdanir í Tel Avív sýna samlöndum sínum stuðning á tíma stjórnarskiptanna árið 2019. Mynd: Tomer Neuberg

Súdan gengur í hóp Arabaríkja sem viðurkenna Ísrael

Þessi grein er útdráttur úr tveimur greinum sem birtust á vefsíðu Reuters en hlekki sem vísa á þær má finna fyrir neðan greinina.

Á föstudaginn 23. október samþykktu yfirvöld í Ísrael og Súdan að koma á stjórnmálasambandi, en samkomulagið var gert fyrir milligöngu Bandaríkjanna. Súdan er þar af leiðandi þriðja Arabaríkið sem semur frið við Ísrael á innan við tveimur mánuðum, en Persaflóaríkin Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmin komu á stjórnmálasambandi við Ísrael í september. Vegna samningsvilja súdanskra yfirvalda hafa Bandarísk yfirvöld fjarlægt ríkið af listanum yfir hryðjuverkaríki, en Súdan hafði setið á þeim lista síðan 1993 þegar þarlend yfirvöld skutu skjólshúsi yfir Osama Bin Laden.

Leiðtogarnir samþykktu stöðlun samskipta milli Súdans og Ísraels og endalok mótstöðunnar á milli ríkjanna,“ sagði í sameiginlegri yfirlýsingu ríkjanna þriggja. Samningurinn var innsiglaður á föstudaginn í símtali milli Donalds Trump Bandaríkjaforseta, Benjamíns Netanyahu forsætisráðherra Ísraels, Abdalla Hamdok forsætisráðherra Súdan og Abdel Fattah al-Burran, leiðtoga tímabundinnar ríkisstjórnar Súdans. Tímabundna ríkisstjórnin hefur ríkt síðan í apríl í fyrra, þegar einræðisherranum Omar al-Bashir var steypt af stóli. Hann og liðsmenn hans höfðu sjálfir steypt lýðræðislega kjörnum yfirvöldum Súdan af stóli árið 1989. Tímabundna ríkisstjórnin stendur nú frammi fyrir því erfiða verkefni að endurreisa lýðræðið í landinu.

Það má færa rök fyrir því að samkomulagið við Súdan hafi jafnvel enn meira gildi fyrir frið í Mið-Austurlöndum en samkomulagið við Persaflóaríkin, því landið hefur spilað stærra hlutverk í andstöðu Arabaheimsins við Ísrael. Árið 1967 náði Arababandalagið samkomulagi í Kartúm, höfuðborg Súdans, um „neitanirnar þrjár“ sem fólu í sér algjöra höfnun á friði við Ísrael, viðurkenningu á Ísrael og samningaviðræðum við Ísrael. Það að nýtilkomin stjórnvöld í Súdan vilji nú snúa við blaðinu gefur því raunverulega von um bjartari tíma.

Vegna langvarandi andstöðu ríkisins við Ísrael er nýja samkomulagið skiljanlega umdeilt í Súdan. Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt samkomulagið eru ákveðnir meðlimir samtakanna „Frelsis og breytingar“ (e. Freedom and Change) sem spruttu upp úr mótmælaöldunni á árunum 2018 og 2019, áður en al-Bashir var loks steypt af stóli. Einnig eru liðsmenn íslamistahreyfingarinnar Popular Congress Party mótfallnir samkomulaginu. Aðrir Súdanir virðast opnari gagnvart stjórnmálasambandi við Ísrael og hingað til hafa engin almenn mótmæli verið haldin gegn því.

Fulltrúar hvíta hússins gera ráð fyrir því að undirritun samkomulagsins muni eiga sér stað á komandi vikum. Í sameiginlegri yfirlýsingu ríkjanna var tekið fram að leiðtogarnir hafi til að byrja með ákveðið að koma á viðskiptatengslum með áherslu á landbúnað. Sendinefndir frá hvoru landinu fyrir sig munu hittast á næstu vikum til að semja um frekari samvinnu á því sviði auk flugsamgangna, innflytjendamála og annarra þátta. Í yfirlýsingunni kom einnig fram að tímabundin ríkisstjórn Súdans hafi „sýnt hugrekki og viðleitni í baráttunni við hryðjuverk, byggingu lýðræðisstofnanna og bættum samskiptum við nágranna sína.“ Í kjölfarið hafi „Bandaríkin og Ísrael ákveðið að vinna með Súdan að nýju upphafi og tryggja að ríkið sé að öllu leyti innviklað í alþjóðasamfélagið.“

Heimildir

https://www.reuters.com/article/us-usa-sudan-israel-announcement-idUSKBN27827T

https://www.reuters.com/article/us-usa-sudan-israel-reaction/deal-to-normalise-ties-with-israel-stirs-opposition-in-sudan-idUSKBN2790XZ

 

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print