Á þriðjudaginn 15. september hittust fulltrúar Ísraels, Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmanna í Washington. Þar undirrituðu þeir tvo samninga sem kváðu á um opinbert stjórnmálasamband á milli þessara tveggja Arabaríkja og Ísraels. Þar af leiðandi hafa fjögur Arabaríki myndað stjórnmálasamband við Ísrael, en áður hafði Egyptaland gert friðarsamkomulag við Ísrael árið 1979, og Jórdanía gerði svipað samkomulag við Ísrael árið 1994. Samkomulagið á milli Ísraels og furstadæmanna var tilkynnt í sameiginlegri yfirlýsingu þann 13. ágúst en Donald Trump, Bandaríkjaforseti, tilkynnti óvænta aðild Barein að samkomulaginu þann 11. september. Með þessum samningum stilla Persaflóaríkin tvö sér upp við hlið Ísraels gegn auknum umsvifum Írana í Mið-Austurlöndum og nýlegri þróun þeirra á langdrægum flugskeytum.1
Þrátt fyrir að palestínsk stjórnvöld hafi kallað samningana svik við málstað þeirra hafa fulltrúar furstadæmanna og Barein ítrekað að þeir væru ekki búnir að hafna kröfum Palestínumanna um ríki á Vesturbakkanum og Gazasvæðinu. Það er ekki annað að sjá en að uppreisnarhópar í Palestínu hafi kært sig kollótta um þau orð, því á meðan undirritun samninganna stóð skutu skæruliðar á Gazasvæðinu flugskeytum á Ísrael. Skv. sjúkrabílaþjónustu Rauðu Davíðsstjörnunnar hlutu tveir menn í borginni Ashdod aðhlynningu vegna glerbrota úr sprungnum búðargluggum, og fjórir til viðbótar voru í losti eftir sprenginguna þar.2
Samkomulagið á milli Ísraels og furstadæmanna er ítarlegra og djúpstæðara en samkomulagið á milli Ísraels og Barein, en í því er lýst yfir algjörum friði milli ríkjanna. Í samkomulaginu við Barein er kallað eftir „alhliða stjórnmálasambandi“, en hugtakið „normalization“ sem er gjarnan notað um samþykki Arabaríkja á tilverurétti Ísraels, er ekki að finna í samkomulaginu. Í texta samninganna er lögð áhersla á nauðsyn þess að leysa deiluna á milli Ísraels og Palestínu en ekki er tekið fram hvort sú lausn ætti að fela í sér tveggja ríkja lausn eða lausn af öðru tagi. Eitt af skilyrðum furstadæmanna fyrir samkomulaginu var að ríkisstjórn Netanyahu myndi leggja niður áform sín um að innleiða ísraelsk landslög í Jórdandalnum.
Þótt friðarviðræður á milli stjórnvalda í Ísrael og Palestínu hafi legið í dvala síðan 2014, hafa nokkur Arabaríkjanna átt í óformlegum samskiptum við Ísraelsríki á bak við tjöldin. Donald Trump sagðist binda vonir við það að fimm eða sex Arabaríki myndu bætast við hóp þeirra ríkja sem hafa komið á stjórnmálasambandi við Ísrael. Stjórnmálasamband á milli Ísraels og Sádí-Arabíu – stærsta ríkis Mið-Austurlanda – þætti eftirsóknarvert til að tryggja stöðugleika á svæðinu, en yfirvöld í Sádí-Arabíu hafa hins vegar lagt áherslu á að lausn verði fundin við deilunni milli Ísraels og Palestínu áður þeir leggi í slíkar viðræður.
1 https://www.reuters.com/article/us-israel-gulf-usa/in-break-with-past-uae-and-bahrain-sign-us-brokered-deals-with-israel-idUSKBN2660LF
2 https://www.reuters.com/article/uk-israel-gulf-usa-gaza/palestinians-fire-rockets-into-israel-wounding-two-during-white-house-ceremony-idUKKBN2662YQ