Search
Noam Bedein við Dauðahafið

Fulltrúi Keren HaYesod á Norðurlöndunum heimsækir Ísland

Noam er annt um umhverfismál og auk þess að vinna fyrir Keren HaYesod er hann stjórnandi „Dauðahafs-endurlífgunarverkefnisins“ – The Dead Sea Revival Project (http://www.deadsearevival.org/).

Fulltrúi Keren HaYesod á Norðurlöndunum heimsækir Ísland

Noam Bedein, fulltrúi Keren HaYesod á Norðurlöndunum, kom í vikulanga heimsókn til Íslands þann 16. september síðastliðinn. Hann kom hingað til að ná tengslum við stuðningsfólk Ísraels á Íslandi og til að kynna verkefni sín í Ísrael. Á ferð um hringveginn hitti hann marga stuðningsmenn Ísraels víðs vegar um landið og undir lok heimsóknarinnar átti hann fund með tveimur af stjórnarmönnum MIFF í Reykjavík.

Keren HaYesod eru fjáröflunarsamtök sem voru stofnuð árið 1920. Helsta verkefni stofnunarinnar hefur verið að hjálpa Gyðingum að flytja til Ísraels, en stofnunin hefur einnig unnið að því að hjálpa nýjum innflytjendum að laga sig að samfélaginu í Ísrael. Auk þess hefur stofnunin veitt samfélagsaðstoð á erfiðum tímum – t.d. þegar hryðjuverkaógnin hefur staðið sem hæst.

Noam er annt um umhverfismál og auk þess að vinna fyrir Keren HaYesod er hann stjórnandi „Dauðahafs-endurlífgunarverkefnisins“ – The Dead Sea Revival Project. Markmið þess er að vekja athygli á lækkandi vatnsborði Dauðahafsins undanfarin ár. Noam hefur tekið einstakar ljósmyndir af hafinu og strandlengjunni síðan í apríl 2016 sem sýna greinilegar breytingar frá ári til árs. Hann hefur einnig boðið ferðamönnum upp á bátsferðir út á hafið en aðeins einn bátur hefur tilskilin leyfi til að sigla þar með ferðamenn.

Dauðahafið liggur í Jórdan-dalnum, á mörkum flekaskila Afríkuflekans og Arabíuflekans. Vatnsborð Dauðahafsins markar lægsta þurrlendi jarðarinnar – um 400 metra fyrir neðan sjávarmál. Vatnið í hafinu kemur frá Jórdanánni, en áin flæðir úr Galíleuvatni í norðurhluta Ísraels. Noam segir lausnina við uppþornun Dauðahafsins vera að tryggja vatnsmagn Galíleuvatns og þar með flæðið í Jórdanánni, en það er að sjálfsögðu ekki einfalt verkefni. Vatn er dýrmætt í Ísrael þar sem um það bil þriðjungur af flatarmáli landsvæðisins er eyðimörk, en Ísrael er það ríki sem hlutfallslega endurnýtir mest af því vatni sem fellur til auk þess að vinna mikið magn ferskvatns úr söltum sjó.

Noam kom í fyrsta sinn til Íslands síðastliðinn maí, en hann stefnir á að koma hingað að jafnaði tvisvar á ári.

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print