Search

Hvað felur það í sér að styðja Ísrael?

Ísrael er lýðræðisríki þar sem regluleg umskipti í ríkisstjórn eiga sér stað, með mun meiri trúarlegri og pólitískri fjölbreytni en fyrirfinnst á Íslandi. Sá Ísraelsvinur sem styður alltaf allar ákvarðanir ísraelskra yfirvalda er ekki til.

Gyðingahatur er í sókn í Evrópu og það birtist oft í fjandsamlegri útmálun Gyðingaríkisins. Gakktu í lið með MIFF til að berjast gegn Gyðingaandúð og til þess að leiða sannleikann í ljós.

Áður en ég tel upp þau rök sem eru Ísrael til stuðnings, er vert að spyrja hvað það felur í sér að styðja Ísrael.

Reyndar mun ég fyrst taka fram hvað það felur ekki í sér:

Flestir Íslendingar styðja Ísland, en það þýðir ekki að við styðjum alltaf þær ákvarðanir sem hinar ólíku ríkisstjórnir taka, eða lögin sem hinn síbreytilegi þingmeirihluti samþykkir.

Það sama er uppi á teningnum varðandi Ísrael. Ísrael er lýðræðisríki þar sem regluleg umskipti í ríkisstjórn eiga sér stað, með mun meiri trúarlegri og pólitískri fjölbreytni en fyrirfinnst á Íslandi. Við höfum aldrei hitt Ísraelsvin sem er alltaf sammála öllum ísraelskum yfirvöldum eða stofnunum, eins ólíkar og þær eru. Það að slíkur einstaklingur sé til er gróusaga sem óvinir okkar reyna að telja öðrum trú um, að vinir Ísraels séu heilalausar strengjabrúður – nánast hjálparvana fjarstýrð fórnarlömb einhvers illskuafls.

Aðferð MIFF

Helsta aðferð „Með Ísrael fyrir friði“ til stuðnings Ísrael er að deila sjónarmiðum stærstu þjóðfélagshópa Ísraels. Við höfum tekið að okkur það hlutverk að vera verjendur Ísraels á Norðurlöndunum. Yfir 11.000 Norðmanna hafa fundið sig knúin til að styðja þessa viðleitni sem meðlimir samtakanna, því þau hafa löngun til þess að leiðrétta ójafnvægið í fréttaflutningi almennu fjölmiðlanna um Ísrael.

Síðan MIFF-samtökin voru stofnuð á áttunda áratugnum, höfum við unnið samkvæmt ákveðnu heildarmarkmiði og fimm grunngildum. Hægt er að líta á þau sem nokkurs konar samnefnara stuðningsmanna Ísraels og eru þau góður upphafsreitur þegar rætt er um hvað stuðningur við Ísrael felur í sér og hvað ekki. Hér á eftir mun ég fara stuttlega yfir hvert og eitt þeirra.

Heildarmarkmiðið er:

Með hlutlægum og ýtarlegum upplýsingum varðandi átökin í Mið-Austurlöndum, Gyðingaþjóðina og sögu hennar, viljum við hjá MIFF stuðla að dýpri og víðtækari samúð með Ísrael og Gyðingum.

Í dag fyrirfinnast samtök og álitsgjafar í ýmsum löndum sem halda því fram að þeir séu vinir Ísraels, en gera aldrei nokkurn skapaðan hlut til að stuðla að aukinni samúð með landinu. Þvert á móti vinna þeir dag og nótt að því að tala Ísrael niður, hanka það á smávægilegustu mistökum og mæla fyrir sniðgöngu af ýmsu tagi. Ég held að allir geri sér grein fyrir því hvernig yfirgnæfandi meirihluti Ísraelsmanna upplifir slíkan „vinskap“ og „stuðning“.

Í kjölfarið hefur MIFF fimm gildi sem snúa að tilgangi okkar og grunni.

1. MIFF styður rétt Gyðingaþjóðarinnar til þjóðríkis í Ísrael.

Stuðningur við Ísrael felur í sér stuðning við rétt Gyðingaþjóðarinnar til þjóðríkis á þessu svæði. Ísrael var stofnað sem gyðinglegt ríki, með gyðinglegri menningu og gyðinglegum táknmyndum. Þetta felur í sér kertastjakann fyrir framan þinghúsið, Davíðsstjörnuna í þjóðfánanum, sjöunda dag vikunnar sem hvíldardag, gyðinglegar hátíðir sem almenna frídaga, hebresku sem opinbert tungumál o.s.frv.

Samkirkjuráð Norsku þjóðkirkjunnar er dæmi um öfluga stofnun í Noregi sem sættir sig ekki við hugmyndina um Ísrael sem gyðinglegt ríki. Í sömu andrá halda þau því fram að þau séu vinir Ísraels, þótt ótrúlegt sé.

Ég hef reynt að útskýra fyrir aðalritara kirkjuráðsins að öll Arabaríkin, að undanskildum Líbanon og Sádí Arabíu, hafa gert Íslam að ríkistrú. (Það vill svo til að Kóraninn er stjórnarskrá Sádí Arabíu, svo ég myndi segja að íslömsk menning hafi skotið nokkuð góðum rótum þar líka.) Ég hef einnig bent á að í drögum að stjórnarskrá fyrirhugaðs Palestínuríkis kemur fram að það mun vera byggt á arabískri og íslamskri menningu, með landslögum byggðum á Sharialögum.

Sjái maður eitthvað athugavert við það að Ísrael, sem eina ríki Gyðinga í heiminum, byggi á gyðinglegri menningu, en láti sér fátt um finnast þó 57 ríki í heiminum séu meðlimir í Samtökum um íslamska samvinnu og að tugir ríkja byggi á kristinni menningu, get ég tæpast séð það sem vináttu gagnvart Ísrael. Ég gæti fundið mörg önnur orð sem ættu betur við.

Ég vil skora á alla þá sem sætta sig ekki við Ísrael sem gyðinglegt ríki að láta af gagnrýni sinni þar til löndin í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum hafa breyst í friðsæl, fjöltrúarleg og fjölþjóðleg samfélög. Þegar það er komið á hreint að það sé mögulegt, getum við endurskoðað hvort það sé rétt, sanngjarnt eða yfirhöfuð mikilvægt að styðja Ísrael sem aðgreint gyðinglegt ríki. Ég hef hins vegar grun um að þetta muni ekki eiga sér stað í náinni framtíð.

Þrátt fyrir fyrirvara kirkjuráðsins í Noregi hefur stefnan undanfarna öld verið að Ísrael sé og muni áfram vera gyðinglegt ríki. Þjóðabandalagið staðfesti söguleg tengsl Gyðinga við landsvæðið árið 1922, og skyldaði Bretland til að veita „landinu pólitískt, stjórnsýslulegt og efnahagslegt aðhald að því tagi að öruggt væri að stofnað yrði gyðinglegt heimaland“. Stjórnaraðili útnefnda svæðisins myndi einnig greiða fyrir innflutningi Gyðinga til svæðisins. Ákvörðunin hlaut einróma samþykki.

Þetta var engan veginn einstök ákvörðun. Á sama tíma fengu Arabar og múslimar tugi ríkja sem þjóðleg heimalönd frá þessum sömu Vesturveldum.

Þessi nálgun hélst óbreytt þegar SÞ lögðu fram tillögu til Bretlands að skiptingu Palestínu árið 1947. Tillagan var á þá leið að landinu yrði skipt í eitt gyðinglegt ríki og eitt arabískt. Í sjálfstæðisyfirlýsingu Ísraels er fyrsta setningin „Eretz Israel var fæðingarstaður Gyðingaþjóðarinnar“. Tuttugu og fjórum sinnum í þessum stutta texta er orðið „gyðinglegt“ notað.

Stuðningur við Ísrael án þess að styðja gyðinglega menningu Ísraels og að styðja, til dæmis, rétt Gyðinga til að flytja til landsins og öðlast ríkisborgararétt, er merkingarlaus.

2. MIFF styður lausn við flóttamannavandanum sem ógnar ekki tilvist Ísraels.

Þetta gildi víkur að kjarna deilunnar. Arabaríkin ásamt Palestínsku heimastjórninni krefjast ekki einungis ríkis á Vesturbakkanum og Gazaströndinni, heldur einnig að allir þeir sem urðu flóttamenn árið 1948 – og milljónir afkomenda þeirra – muni hafa rétt til þess að snúa til baka til þess lands sem tilheyrir Ísrael. Ísrael hefur hafnað þessari kröfu frá því hún var fyrst lögð fram, einfaldlega vegna þess að Ísrael sem ríki Gyðinga myndi heyra sögunni til með stórvöxnum innflutningi Araba. Gyðingar yrðu að minnihluta í eigin ríki. Í hversu margar vikur myndirðu halda að gyðingleg einkenni Ísraels yrðu varðveitt ef Arabar væru í meirihluta á ísraelska þinginu?

Það eru aðilar á Norðurlöndunum sem halda því fram að þeir séu bestu vinir Ísraels, á meðan þeir styðja kröfu Palestínumanna um „réttinn til að snúa til baka“. Nánast hver einasti Ísraelsmaður – líka þeir vinstrisinnuðu – tala um „réttinn til að snúa til baka“ sem þjóðlegt sjálfsvíg. Það gefur enn og aftur til kynna hve mikið traust Ísraelsmenn geti lagt á slíka „vini“.

3. MIFF telur að finna skuli lausn deilunnar á milli Ísraels og nágrannaríkjanna með beinum viðræðum á milli deiluaðila.

Það að við styðjum Ísrael þýðir alls ekki að okkur þyki að Ísraelsríki eigi að ráðstafa öllu sínu nánasta umhverfi að vild. Það þýðir að við getum ekki samþykkt það að Ísraelsríki sé þvingað til að sætta sig við lausn sem er sprottin frá einu af stórveldunum eða alþjóðasamfélaginu. Deiluna verður að leysa með beinum viðræðum.

4. MIFF heldur sig fjarri stofnunum sem viðurkenna ekki Ísraelsríki.

Rökrétt afleiðing þess að styðja Ísrael er að maður getur ekki verið hlutlaus gagnvart óvinum ríkisins. MIFF lítur einnig á það sem verðugt verkefni að afhjúpa þá sem dylja andúð gagnvart Ísrael með orðaskrúði um „réttlátan frið“ eða „jöfn réttindi handa öllum borgurum“ þegar það er vitað mál að „réttlátur friður“ á við „réttinn til að snúa til baka“ og „jöfn réttindi…“ þýða að engar undanþágur verði gerðar varðandi innflutning Gyðinga, ásamt öðrum aðgerðum sem myndu gera út af við Ísrael sem gyðinglegt ríki. Við getum ekki tekið því þegjandi og hljóðalaust.

5. MIFF er óháð stjórnmálaflokkum

Síðast en ekki síst: MIFF tengist ekki stjórmálaflokkum í Ísrael. Við leitumst við að miðla sjónarmiðum stóru þjóðfélagshópanna í Ísrael, líka þegar umskipti verða í ríkisstjórn. MIFF er einnig óháð stjórnmálaflokkum annara landa. Engir stjórnmálaflokkar hafa einkarétt á stuðningi við Ísrael. Þvert á móti ætti stuðningur við Ísrael að ganga þvert á flokka, en því miður hneigist fólk í þá átt að taka andstæða afstöðu í þessu máli eftir flokkum, hvort sem það er á Norðurlöndunum eða í Bandaríkjunum. MIFF vinnur þess vegna að því að auka stuðning við Ísrael þvert á stjórnmálaflokka.

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print