Search
Hanuka 2019
Mýndir er tekin á Ljósahátíð sem haldin var á Laugavegin 22 desember 2019.. Gyðingar á Ís­landi fögnuðu í gær upp­hafi Hanukkah, Ljósa­há­tíðarinnar, þar sem þess er minnst Jerúsalem var frelsuð undan Sýr­lendingum og ljósið í musterinu fór aftur að loga.

MIFF og FÍP gangi saman til friðar

Í byrjun jólahátíðarinnar hér á landi átti sér hins vegar stað nokkuð merkur atburður þó lítill væri, þegar íslenska gyðingasamfélagið markaði upphaf ljósahátíðar sinnar opinberlega, að viðstöddum bæði borgarstjóra og forseta borgarstjórnar.

Nú þegar jólahátíðinni er nýlokið með þrettándabrennum þar sem álfar og tröll, óvættir og jólasveinar skemmtu fólki víða um land undir sprengingum síðustu flugeldanna, sem má skjóta á loft þetta árið, er ekki úr vegi að líta yfir farinn veg. Því miður hefur hátíðin og aðdragandi hennar markast af árásum öfgamanna víða um heim á gyðinga, sem og kristna og aðra hópa.

Þeir sem gera árásir á fyrstnefnda hópinn fela sig oft á bakvið það að þeir séu á móti Ísrael en ekki gyðingum sem slíkum. Samt sem áður ráðast umræddir á þennan þjóðflokk í öðrum löndum og ýta þannig í raun undir að gyðingar víða um heim sjái sitt óvænna og flytji til Ísrael, þar sem þjóðríki þeirra uppfyllir æðsta markmið hvers ríkis, að verja öryggi þegna sinna.

Í byrjun jólahátíðarinnar hér á landi átti sér hins vegar stað nokkuð merkur atburður þó lítill væri, þegar íslenska gyðingasamfélagið markaði upphaf ljósahátíðar sinnar opinberlega, að viðstöddum bæði borgarstjóra og forseta borgarstjórnar. Kannski markar viðvera þeirra von til þess að vænta megi að meirihlutinn í borginni, dragi til baka samþykktina frægu frá síðasta kjörtímabili um sniðgöngu gegn eina gyðingaríki heims. En það er kannski til of mikils ætlast að fjálglegt tal þeirra um fjölmenningu og umburðarlyndi nái svo langt.

Merki um viðsnúning borgarstjórnarmeirihlutans?

Við kvöldmál þann 22. desember síðastliðinn komu nefnilega tugir gyðinga saman ásamt velunnurum, til að mynda félögum í MIFF, sem og a.m.k. tveim prestum, en í aðalhlutverki var rabbíni gyðingasamfélagsins hér á landi og borgarstjóri Reykjavíkur. Sá síðarnefndi varð þess heiðurs aðnjótandi að tendra fyrsta ljósið á ljósastiku sem komið var fyrir á horni Laugarvegs og Skólavörðustígs, þar sem Hallgrímskirkjan gnæfir yfir. Þetta er annað árið í röð sem gyðingasamfélagið hér á landi kemur fram opinberlega með þessum hætti, en það hefur hvorki verið fjölmennt né áberandi síðustu ár. Fyrir ári var það Dorrit Moussaieff fyrrum forsetafrú og einn þekktasti meðlimur gyðingasamfélagsins hér á landi, sem tendraði fyrsta ljósið.

Fjölmörg trúarbrögð og menningarsamfélög fagna þessum tíma árs þegar daginn tekur að lengja, en gyðingar marka hátíðina með því að kveikja á 8 ljósum Chanukkah kertastjakans, einn á hverjum þeirra átta daga sem hátíðin stendur yfir.

Siðurinn á upptök sín í þeim atburðum sem lýst er makkabeabókum apókrýfuritanna, sem margir telja til Biblíunnar og spanna tímabilið milli nýja og gamla testamentsins. Þá endurvígðu Ísraelsmenn musterið eftir að hafa unnið sigur á óvinum sem réðust höfðu á landið í enn eitt skiptið, líkt og gerist ítrekað enn í dag í nútímasögu þjóðríkisins.

Hátíðarhöld einkennst af hörmulegum hemdarverkum

Það er ekki einungis Ísraelsríki og íbúar þess sem hafa þurft að þola árásir og hemdarverk. Ólíkt friðsamlegri og lágstemmdri athöfninni í hjarta Reykjavíkurborgar hefur eins og áður segir hátíðin og aðdragandi hennar einkennst að árásum á gyðinga víða um heim.

Þannig berast fréttir frá árásum í bæði New York, New Jersey, London og víðar síðustu daga og vikur. Þar hefur verið ráðist á helgidóma, skóla og fyrirtæki gyðinga, þá oft með ýmsar tilvísanir í samsæriskenningar um áhrif gyðinga, sem í gegnum söguna hafa oft þurft að þola að vera blóraböggull ólíklegustu hluta.

Þetta færir enn frekar heim sanninn um að ísraelska þjóðin verði að fá að geta tryggt öryggi sitt sjálf, í eigin ríki, enda grundvallarskylda ríkis að tryggja lög og reglu og öryggi eigin þegna. Og það hefur Ísrael tekist betur en mörgum, þó landið hafi ekki farið varhluta af árásum.

Sem betur fer höfum við ekki þurft að horfa upp á viðlíka atburði hér á landi og vonum við að svo verði um ókomna tíð. Eitt skref sem þó væri hægt að taka til að stuðla að friði væri breytt orðræða hér á landi þar sem almenningur og forystufólk tæki virkan þátt í að gagnrýna samsæriskenningar og hatursfullt orðfæri gagnvart gyðingum og þjóðríki þeirra.

Þar ættu borgaryfirvöld og Alþýðusambandið, sem bæði hafa látið glepjast af hatursamtökum sem hvatt hafa til einangrunar og viðskiptaþvingana gegn Ísrael, að gangast við ábyrgð sinni. Þau gætu byrjað á því að draga hatursfullar yfirlýsingar sínar um stuðning við markmið öfgasamtakanna BDS, til baka og lýst frekar eftir stuðningi við sáttalausn í deilum um landið á umdeildu svæðum Júdeu og Samaríu eins og Gyðingar kalla það; eða Vesturbakkans, eins og arabar og Múslimar kalla svæðið sem deilt er um skiptinguna á.

Ábyrgð þeirra sem taka undir orðræðu öfgahópa

Við sem samfélag berum öll ábyrgð á því að breyta umræðuhefðinni, en þó kannski einna helst þeir sem hafa verið hvað gagnrýnastir á rétt Ísraels til að verja sig og þegna sína; jafnvel á sjálfan tilverurétt ríkisins, undir þeim formerkjum þannig séu þau að styðja við sjálfsagðan sjálfsákvörðunarrétt palestínuaraba sem deila við ísraelsku þjóðina um landsvæðið milli Jórdanárinnar og Miðjarðahafsins. Í fyrri grein höfundar er fjallað ítarlega um aðkomu Íslands að tillögum um friðsamlega skiptingu landsins líkt og tekist hefur að sætta stríðandi fylkingar í viðlíka deilum víða um heim. Þeirri sáttalausn var því miður ekki tekið í tilviki Ísraels, né friðartilboðum sem sett hafa verið fram síðan.

Annað brýnt væri vissulega hægt að gera. Hópar sem þykjast tala í nafni friðar gætu gert gangskör í því að vísa úr röðum sínum einstaklingum sem fylgt hafa öfgamönnum í deilunum að málum og tekið undir ítrustu kröfur þeirra, sem og hætt samstarfi við þá hópa sem ekki gera það. Þá á ég við félagshópa þar sem undirtónninn er litaður af efa um tilverurétt Ísraelsríkis og rétt þess til að verja borgara sína gegn árásum.

Það vill nefnilega þannig til að á sama stað og hátíðin litla var haldin á sunnudeginum fyrir jól er haldin margfalt fjölmennari ganga daginn eftir undir merkjum friðar að undirlagi ýmissa svokallaðra friðarsamtaka og hreyfinga. Sú ganga hefur þó ekki verið mjög aðgengileg fyrir gyðinga og/eða vini Ísraels þar sem hið öfluga Félag Ísland-Palestína er þar áberandi í fylkingunni sem marserar niður Laugaveginn undir fánum Palestínu og dreifa áróðusrsitum, en fulltrúar samtakanna hafa verið uppvísir að því að taka undir hatursfullan boðskap BDS samtakanna, þrátt fyrir að á heimasíðu samtakanna standi:

„Markmið félagsins var frá upphafi að stuðla að jákvæðum viðhorfum til ísraelsku og palestínsku þjóðanna…“

Hægt að ganga saman fyrir friði á litla Íslandi?

Það væri óskandi að við sem viljum standa með friði fyrir Ísrael í heimshlutanum og styðja rétt gyðinga alls staðar til að lifa í friði og sátt, og þeir sem einblína á réttindi Palestínumanna um það sama gætum sameinast um að ákall til þess að friðsamleg lausn finnist. Þar skiptir eins og áður segir einna mest máli hvernig skipta eigi umdeilda svæðinu í Landinu helga, eins og það er oft kallað, en samtök eins og BDS hafa þvert á móti boðað sniðgöngu og aðra hatursfulla meðferð gagnvart Ísrael nema ítrustu kröfum Palestínumanna, ekki bara til þess svæðis, sé mætt. Íslendingar og aðrar þjóðir þurfa að hafna slíkum öfgum í stað þess að við hér á landi röðum okkur í skotgrafir afstöðu algerlega með annarri þjóðinni og þá á móti hinni.

En því miður hefur brugðið við að hópgöngur svona hreyfinga hafa verið notaðar til andgyðinglegra athafna og áróðurs. Höfundur minnist til að mynda sjónvarpsfrétta eitt árið frá því þegar fáni Ísraels var brenndur í miðju mannhafinu á einum viðburði þessara hópa. Það gerðist einmitt nálægt þeim stað þar sem ljósastikan stendur nú. Þegar lögreglan greip inn í þetta augljósa lögbrot veittist múgurinn að henni þó hér eigi að ríkja sátt um að hennar hlutverk sé að tryggja hér lög og reglu. Slík hegðun sýnir ekki beint friðarvilja þeirra sem þarna áttu hlut að máli.

Kannski er það til of mikils ætlast þótt fallegur draumur sé, að félagar í MIFF, gyðingasamfélagið, Félagið Ísland-Palestína, arabar og aðrir einstaklingar hér á okkar litla landi geti gengið saman í friðargöngunni á næsta ári, undir merkjum beggja samfélaganna sem um svæðið deila og standa með friði fyrir þau bæði.

En til þess að svo gæti orðið þyrftu Samtök hernaðarandstæðinga, FÍP og önnur samtök sem áberandi hafa verið í friðargöngunni svokölluðu að stíga fyrsta skrefið og bjóða fram friðar- og sáttahönd, með því að undirstrika að ekki verði liðnar neinar fánabrennur eða áróður gegn tilvist eða sjálfsvarnarrétti Ísraels og/eða veist að þeim sem styðja frið fyrir Ísrael. Við skulum bíða og sjá.

Share on Facebook
Share on Twitter
Email
WhatsApp
Telegram
Print